Fara í innihald

Flugumýri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flugumýri.

Flugumýri er bær og kirkjustaður í Blönduhlíð í Skagafirði, við rætur Glóðafeykis, höfuðból að fornu og nýju. Bærinn er landnámsjörð Þóris dúfunefs og er samkvæmt því sem segir í Landnámabók kenndur við hryssuna Flugu, mikið góðhross sem Þórir átti.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Á Flugumýri hefur jafnan verið stórbýli og þar hafa ýmsir höfðingjar búið. Á Sturlungaöld var Flugumýri eitt af höfuðbólum Ásbirninga og þar bjó Kolbeinn ungi Arnórsson frá 1233 til dauðadags 1245. Ekkja hans gaf biskupsstólnum á Hólum jörðina en Gissur Þorvaldsson keypti hana af stólnum, settist þar að vorið 1253 og byggði þar upp stóran bæ. Hann naut hans þó ekki lengi því að 22. október um haustið, eftir brúðkaupsveislu Halls sonar Gissurar og Ingibjargar Sturludóttur, komu óvinir Gissurar að Flugumýri og reyndu að brenna hann inni. Flugumýrarbrenna er vafalaust þekktasti atburðurinn í sögu Flugumýrar.

Árið 1360 eignaðist Hólastóll jörðina aftur þegar Jón skalli Eiríksson biskup keypti hana og var hún í eigu stólsins upp frá því, allt þar til hann var lagður niður um aldamótin 1800 og stóljarðir seldar. Á fyrri öldum voru prestastefnur í Hólabiskupsdæmi oftast haldnar á Flugumýri.

Bærinn var læknissetur á fyrri hluta 19. aldar, þegar Ari Arason fjórðungslæknir bjó þar. Kvennaskóli Skagfirðinga var á Flugumýri 1880-1882 en þá var hann lagður niður. Skólinn hafði áður verið á Hjaltastöðum frá 1878 til 1880 og verið þar á undan á Ási í Hegranesi 1877 þar sem hann var stofnaður.

Nú er stórt hrossabú á Flugumýri og þar er einnig rekin ferðaþjónusta.

Staðhættir[breyta | breyta frumkóða]

Virkishóll er fyrir ofan bæinn á Flugumýri, upp við Glóðafeyki, og eru þar fornminjar sem kunna að vera rústir af virki, líklega frá tíma Sturlunga. Þær eru friðlýstar. Inn með fjallinu gengur dalur sem heitir Flugumýrardalur að sunnan, en Hvammsdalur að vestan. Áin sem um hann rennur heitir nú Hvammsá en hét áður Glóðafeykisá. Þverdalur sem heitir Ranghali skerst úr dalnum til norðausturs og er um hann gömul gönguleið yfir í Hjaltadal.

Flugumýrarkirkja[breyta | breyta frumkóða]

Kirkja hefur verið á Flugumýri frá fornu fari og er hennar fyrst getið í Sturlungu, þegar sagt er frá Flugumýrarbrennu, en þá var Gissur Þorvaldsson studdur í kirkjuna og hjúkrað þar eftir að hann kom upp úr sýrukerinu. Hallur sonur hans var líka borinn þangað með banvæn sár og dó hann í kirkjunni. Kirkjan á Flugmýri var helguð Pétri postula.

Núverandi kirkja var reist 1929-1930. Henni er þjónað frá Miklabæ.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7}

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]