Fara í innihald

Suðurganga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þýskt miðaldakort yfir pílagrímaleiðir til Rómar, athuga ber að suður snýr upp á við

Suðurganga er heiti sem Íslendingar höfðu á miðöldum um pílagrímsferðir helgra staða suður í löndum. Oftast var farið til Rómar en einnig tíðkuðust suðurgöngur til annarra helgra staða, svo sem Santiago de Compostela á Spáni eða jafnvel allt til Jórsala (Jerúsalem).

Fjölmargir Íslendingar fóru í suðurgöngu á miðöldum og hafa þær sjálfsagt hafist þegar við kristnitöku. Í Njálu er sagt að Flosi Þórðarson hafi farið í suðurgöngu eftir Njálsbrennu og Kári Sölmundarson einnig. Hin víðförla Guðríður Þorbjarnardóttir gekk til Rómar og gerðist einsetukona þegar hún kom heim. Í gestabók klaustursins í Reichenau, þar sem skráð eru nöfn allra pílagríma sem þar komu við á 9., 10. og 11. öld, er að finna 39 nöfn karla og kvenna sem sögð eru vera frá Hislant terra (Íslandi).

Margir fóru líka í suðurgöngu á 12. og 13. öld og í Sturlungu eru nefndir fjölmargir Íslendingar sem gengu suður. Frægust er frásögnin af Sturlu Sighvatssyni, sem leiddur var um Róm og hýddur en konur og karlar máttu ekki vatni halda að sjá svo fríðan mann jafnhörmulega leikinn. Gissur Þorvaldsson, Kolbeinn ungi, Órækja Snorrason og fleiri höfðingjar gengu líka suður. Nikulás ábóti á Munkaþverá (d. 1159) skrifaði leiðarlýsingu fyrir pílagríma og studdist þar við eða þýddi erlendar leiðarlýsingar. Gissur Hallsson skrifaði ferðabók sem hét Flos peregrinationis og mun hún hafa verið á latínu en hún er nú glötuð.

Margir pílagrímar fóru fótgangandi til Rómaborgar og tók ferðin þá langan tíma, oft nokkur ár. Þorvaldur Vatnsfirðingur er til dæmis sagður hafa verið þrjú ár í sinni ferð. Höfðingjar fóru þó oft ríðandi og voru mun fljótari í förum. Sumir lögðu lykkjur á leið sína og heimsóttu marga staði, til dæmis Hrafn Sveinbjarnarson, sem fór fyrst til Kantaraborgar á Englandi, síðan til Iliansborgar (St. Giles), þá til Santiago de Compostela á Spáni og að lokum til Rómar. Sumir voru reyndar fljótir í ferðum þótt fótgangandi væru; Ketill prestur, sendimaður Guðmundar biskups Arasonar, fór gangandi til Rómaborgar í erindum biskups og var svo feginn þegar honum tókst að fá páfabréfið sem hann var sendur til að sækja að hann hljóp norður eftir löndum, allt norður til Rostock.

Páll biskup Jónsson virðist hafa haft áhyggjur af tíðum suðurgöngum presta því að hann lét telja bæði presta og kirkjur í biskupsdæminu, þar sem hann vildi leyfa prestum að fara ef þess væri gætt að nægir væru eftir hverju sinni til að sinna prestþjónustu.

Margir sneru aldrei aftur, veiktust á leiðinni og dóu. Þórlaug dóttir Páls prests Sölvasonar í Reykholti og Þórir auðgi maður hennar höfðu eignast nokkur börn saman en þau dóu öll og hét Þórlaug þá Rómarferð. Maður hennar var tregur til en lét þó til leiðast "fyrir ástar sakir við hana" en þau dóu bæði í ferðinni og einnig barn sem þau eignuðust í Noregi og skildu eftir það. Páll prestur og Hvamm-Sturla deildu um arf eftir þau og leiddu þær deilur á endanum tl þess að Snorri Sturluson fór í fóstur í Odda.

Margvíslegar ástæður voru fyrir suðurgöngum. Oft voru þær eingöngu af trúarlegri þörf, vegna áheita eða farnar í yfirbótarskyni af eigin hvötum en menn voru líka oft dæmdir til suðurgöngu eða hún var hluti af sættagerð. Sumir áttu líka erindi við páfa.

Suðurgöngur héldu áfram á 14. öld þótt sennilega hafi dregið úr þeim og á 15. og 16. öld virðast fáir hafa farið. Þó er til dæmis sagt um Helga Höskuldsson (d. um 1560) ábóta á Þingeyrum að hann hafi farið þrisvar til Rómar.

Þeir voru færri sem fóru í Jórsalaferðir en Björn Einarsson Jórsalafari fór þó þangað 1406 og kona hans með honum. Hann skrifaði eða lét skrifa bók um ferðir sínar en hún er ekki lengur til.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]

Helgi Þorláksson: Nikulás og Sturla í Róm. Gagnasafn mbl.is