Örn Ingi Gíslason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Örn Ingi á vinnustofunni árið 1990. Verkin „Biðstaða“ og „Spilverkin“ í baksýn.

Örn Ingi Gíslason (2. júní 194523. september 2017) var íslenskur myndlistarmaður, kennari og útvarpsmaður á Akureyri.

Örn Ingi var að mestu leyti sjálfmenntaður. Hann tók námskeið í myndlist hjá Námsflokkum Akureyrar árið 1967/68 þar sem hann lærði meðferð olíulita undir handleiðslu Einars Helgasonar myndlistarmanns. Árið 1972 tók hann námskeið á vegum nýs myndlistarfélags og lærði teikningu hjá Guðmundi Ármanni Sigurjónssyni. Árið 1981 lærði Örn Ingi grafík hjá Sjöfn Guðmundsdóttur í Myndlistarskólanum á Akureyri auk þess að framkalla og vinna ljósmyndir á vinnustofu hennar.

Menntun Arnar Inga fólst ekki síður í því að vinna úr umhverfinu og með þá staðhætti sem voru í kringum hann; félaga, meðbyr og mótbyr, fundna hluti í náttúrunni og samfélaginu. Hann sagði í viðtali við Gest Einar Jónasson í Laufskálanum árið 1998: „Maður útvíkkast ekki nema með átökum!“ Hann taldi hugmyndaflugið mátt þjóðfélagins til að ná fram breytingum og koma í veg fyrir stöðnun og notaði trúðinn sem tákn fyrir sjálfan sig og aðra. Hann tengdi trúðinn við þor til að taka áhættu.[1]

Myndlist, menningarstarf og leikhús[breyta | breyta frumkóða]

Örn Ingi var meðal þeirra sem stofnaði Myndlistarfélag Akureyrar árið 1972. Markmið félagsins var að efla myndlist á Akureyri með sýningum, listkynningum, kennslu. Félagið var byggt upp af áhugafólki um myndlist sem hafði aðra vinnu sér til framfæris en að mála myndir. Jón Geir Ágústsson byggingafulltrúi varð fyrsti formaður félagins, Örn Ingi bankamaður var aðstoðarformaður og Óli G. Jóhannsson pósthússtarfsmaður var gjaldkeri.

Vorið 1980 hlaut Örn Ingi listamannalaun í fyrsta sinn. Hann nýtti þau til að skoða listasöfn í London og Amsterdam. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Reykjavík þá um haustið í sal Félags íslenskra myndlistarmanna (FÍM). Hann var fyrsti Akureyringurinn sem sýndi í salnum.[2]

Sama ár, eða 1980, lagði Örn Ingi drög að gjörningi fyrir 10 manna dómnefnd FÍM: „Jarðarför verðbólgunnar“ sem hann sagði byggja á kómískum rannsóknum á kosningaloforðum stjórnmálaflokka. Gjörningurinn hafði verið fluttur í Menntaskólanum á Akureyri 26. nóvember 1979, auk þriggja annarra gjörninga. Það var í fyrsta skipti sem gjörningar voru framdir á Akureyri.[3] Dómnefnd FÍM samþykkti gjörninginn og „Jarðarför verðbólgunnar“ var framin 5. október 1980 á Kjarvalsstöðum sem auglýstur viðburður á árlegri sýningu félagsins. Meðal þeirra sem komu fram ásamt Erni Inga voru Oliver Kentish, Hrefna Hjaltadóttir, Jonathan Bager, Gísli Ingvarsson og Örn Arason.

Frá 1984 til 1987 stóð Örn Ingi fyrir veitingum og menningarstarfi í Laxdalshúsi, elsta húsi Akureyrar. Auk veitingareksturs var þar tónlistarflutningur, ljóðalestur, myndlistar- og leiksýningar og karnival skipulagt. Osturinn Ísbúi varð til árið 1984 á dögum veitingahússins. Höfundar hans voru Oddgeir Sigurjónsson (Oggi), þá ostagerðamaður hjá Mjólkursamlagi KEA og Örn Ingi. Osturinn var fyrst framreiddur í Laxdalshúsi og ári síðar kynntur á ostasýningu í Reykjavík.[4]

Á þessum árum vann Örn Ingi líka við leikmyndagerð hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann gerði leikmyndir fyrir leikritið Ég er gull og gersemi leikárið 1984/1985, Silfurtúnglið eftir Halldór Laxness leikárið 1985/1986 í, Hvenær kemurðu aftur rauðhærði riddari eftir Mark Medoff leikárið 1986/1987 og Pétur og stúlka á leikárinu 1987/1988.

Bragi Ásgeirsson skrifaði um sýningu Arnar Inga árið 1992 í Hafnarborg, Tíu ár og tíu dagar:

Örn Ingi virðist vera eins konar vandræðabarn, eða eins og það nefnist á fínu máli „enfant terrible“ á Akureyri, [...] Vafalítið má kenna viðleitni Arnar Inga við vissa tegund af súrrealisma, sem rík skreytikennd einkennir, en einnig bregður fyrir eins konar sjónrænum ljóðum, eða „Visual Poetry“ eins og þau hafa verið nefnd. Þar er hann markvissastur að mínu mati og er verkið „Menu“ áhrifaríkt í einfaldleika sínum og samstæðri heild [...] Allt eru þetta myndir, sem gætu átt heima á hvaða sýningu sem er hér á landi, og gaman væri að sjá upplitið á sumum, ef þetta kæmi frá útlöndum, en ekki frá Akureyri!“[5]

Örn Ingi setti upp margar afmælis- og bæjarhátíðir og má þar nefna Hvammstanga, Hólmavík, Raufarhöfn og Grundarfjörð. Götur og húsþök breyttust í leiksvið þar sem uppákomur og leikþættir voru settir upp hver með sínu sniði tengt staðháttum.

Kennslustörf[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1983 urðu straumhvörf í lífi Arnar Inga. Pétur Þorsteinsson, sem þá var skólastjóri við grunnskólann á Kópaskeri, bauð Erni Inga að halda þar námskeið í myndlist fyrir börnin.[6] Námskeiðið náði hápunkti í fyrstu listahátíð á Kópaskeri, 12. og 13. nóvember 1983 fyrir allt þorpið og nágrenni.[7]

Örn Ingi vann með myndlist í grunnskólum um allt land, á námskeiðum, listavikum og listasmiðjum: Kópaskeri (1983, 1988), Laugalandsskóla (1985), Hvammstanga (1988), Húnavöllum (1988), Grenivík (1988), Þórshöfn (1988), Svalbarðsskóla í Þistilfirði (1988/90), Raufarhöfn (1989, 1995), Dalvíkurskóla (1994) í tengslum við norræna menningarsamstarfsverkefnið „Et levende Norden“, Fellaskóla á Egilsstöðum (1996), Höfn í Hornafirði (1992, 1997), Öldutúnsskóla (1999), Álftanesskóla (2000), Árbæjarskóla (2000) og á Vopnafirði (2013). „Börn eru stórkostlegt fólk þegar þau fá að njóta sín, sagði Örn Ingi.“[8] Hann hvatti nemendur ætíð til að nota eigin myndhugsun, teikningu og litaval. Frelsi væri leiðandi hugtak bæði til að búa til tengingar og taka á flug.[9]

Örn Ingi stofnaði leikhópinn Norðurljósin árið 1992 í í tengslum við sumarlistaskólann sinn (1992-1997). Norðurljósin settu upp leikþætti á Akureyri og í Reykjavík, þar á meðal í Borgarleikhúsinu og árið 1992 tók hópurinn þátt í heimsmóti barnaleikhópa, 2nd World Festival of Children‘s Theatre, haldið í Antalya í Tyrklandi. Hann átti sér draum um að Akureyri yrði bær barnamenningar og Listagilið yrði staður allra listgreina, ekki aðeins myndlistar.[10]

Myndlistarskóli Arnar Inga starfaði frá 1995 til 2015 og sóttu hann bæði börn og fullorðnir.

Dagskrárgerð[breyta | breyta frumkóða]

Útvarpsmaðurinn Jónas Jónasson réð Örn Inga í dagskrárgerð í nýstofnað Akureyrarútibú RÚV árið 1983. Fyrsti þátturinn sem hann hafði umsjón með var „Sporbrautin“ ásamt fjölmiðlamanninum Ólafi H. Torfasyni. [11] „Sporbrautin“ byggðist á mjög blönduðu efni, en fasta þætti nefndu þeir „sjónpípu“ og „hljóðgátu“. Í sjónpípunni var lesið úr bréfi frá Íslendingi í útlöndum og viðtal var tekið við útlending búsettan á Akureyri. Í hljóðgátunni hlýddu gestir á samtal sem leikið var af segulbandi og áttu síðan að geta upp á um hvað verið var að tala.

Örn Ingi vann við dagskrárgerð í Ríkishútvarpinu allt til ársins 1996 og þá líka við sjónvarpsþætti. Árið 1997 festi hann kaup á stafrænni sjónvarpstökuvél ásamt hljóðbúnaði og ljóskösturum og lagði hann út í eigin sjónvarpsþáttagerð, heimildarmyndir, fræðslumyndir og leiknar sjónvarpsmyndir. Meðal verkefna hans var að mynda byggingarferli menningarhússins Hofs á Akureyri og úr skólalífi fjölmargra grunnskóla auk þess að búa til heimildamyndir.

Örn Ingi skrifaði handrit að tveimur kvikmyndum, Gildran (2002) og Flóttinn (2006). Hann leikstýrði þeim, kvikmyndaði, klippti og framleiddi.

Lífið er LEIK-fimi[breyta | breyta frumkóða]

Listasafnið á Akureyri hélt yfirlitssýningu á verkum Arnar Inga frá 3. nóvember 2018 til 27. janúar 2019.[12] Halldóra Arnardóttir, dóttir hans, var sýningarstjóri.[13][14] Sýningarhönnuður var Javier Sánchez Merina arkitekt.

Eitt af markmiðum sýningarinnar var að gera listasafnið vettvang rannsóknar og að búa til bókverk. Sýningin Lífið er LEIKfimi varð að skipulögðum gjörningi í þrjá mánuði. Myndverk voru tekin upp úr 55 kössum, og gestir og samferðamenn sem höfðu unnið með listamanninum sögðu frá í skipulagðri viðburðardagskrá. Sýningarstjórinn var að störfum við rannsóknir, myndverkin skráð og ljósmynduð.

Bókin Örn Ingi Gíslason. Lífið er LEIK-fimi var kynnt á málþingi um „listamanninn og samfélagið 26. janúar 2019. Þeir sem fluttu erindi voru: Hlynur Hallson, safnstjóri, Halldóra Arnardóttir listfræðingur og sýningarstjóri, Jón Proppé, Guðmundur Ármann Guðjónsson, Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, og Rúrí.

Helstu sýningar[breyta | breyta frumkóða]

  • 1973 Einkasýning í Landsbankanum á Akureyri.
  • 1973 Samsýning. Haustsýning Félag íslenskra myndlistarmanna (FÍM) Reykjavík.
  • 1975 Samsýning, Ólafsvaka, Færeyjar.
  • 1975 „Örn Ingi“. Einkasýning Hlíðarbær í Kræklingahlíð.
  • 1979/80 Gjörningar: Jarðarför verðbólgunnar, List er mannsins megin, Bráðum koma blessuð jólin, , Improviseraður gjörningur í samvinnu við flytjendur, 3 einleiks- og samleiksþættir fyrir flautu, lágfiðlu og gítar Niðurfærsla landbúnaðarráðherrans, Sköpun – sem byggður er á nýju tónverki eftir Oliver Kentish, Þráhyggja, Úthverf íhugun í Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum við Sund, Reykjavík, á haustsýningu FÍM á Kjarvalsstöðum Reykjavík, í Sjallanum á Akureyri.
  • 1982 Samsýning Kjarvalsstaðir, Reykjavík.
  • 1983 Einkasýning. „Club 7“, Osló.
  • 1985 Einkasýning. Sviðsmyndir í tilveru lífs og dauða á Kjarvalsstöðum, Reykjavík.
  • 1985 Alþjóðleg samsýning. D‘Art Contemporain, París.
  • 1990 Einkasýning Talan 20 í FÍM salnum, Reykjavík.
  • 1992 Einkasýning Tíu ár og tíu dagar í Hafnarborg, Hafnarfjörður.
  • 1996. Einkasýning „Ég er“ í Gerðarsafni, Kópavogi.
  • 2015. Gjörningur. Dynjandi. A!Gjörningahátíð, Akureyri.
  • 2018/19. Yfirlitssýning Örn Ingi Gíslason. Lífið er LEIK-fimi í Listasafninu á Akureyri.

Myndir eftir Örn Inga eru meðal annars í eigu Listasafns Íslands, Listasafninu á Akureyri, bæjarfélaga víðs vegar um land, banka, opinberra stofnanna sem og í einkaeigu á Íslandi og víðar.

Listamannalaun og aðrar viðkenningar[breyta | breyta frumkóða]

  • Listamannalaun úr flokki myndlistarmanna 1980, 1982, 1984, 1989 og úr flokki leikhúslistamanna árið 1992 og úr flokki tónskálda 2004.
  • Innganga í Félag íslenskra myndlistarmanna (FÍM), 1982.
  • Viðurkenning frá Menningarmálanefnd Akureyrar fyrir listsköpun með börnum (myndlist og leiklist), 1991.
  • Verðlaun fyrir heimildarmyndina Hin hvíta lind frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, 2001.
  • Viðurkenning frá Akureyrarbær „Gjörningalistamaður heiðraður“. A!Gjörningahátíð, 2017.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Halldóra Arnardóttir. „Örn Ingi listamaður. Nemendur = leikmenn sköpunar“. Listkennludeild Listaháskóla Íslands.
  2. Bragi Ásgeirsson. 1980. „Akureyringur í FÍM-salnum.“ Morgunblaðið 20. september, 8. „Akureyringur í FÍM-salnum“. Morgunblaðið.
  3. „Nýlist á Akureyri. Gjörningar í Möðruvöllum“. Dagur.
  4. Halldóra Arnardóttir (2019). Örn Ingi Gíslason. Lífið er LEIKfimi. SanAr. ISBN 978-9935-24-627-1.
  5. Bragi Ásgeirsson. „Skondin uppátæki“. Morgunblaðið.
  6. Ingvar Sigurgeirsson. „Pétur Þorsteinsson og opni skólinn á Kópaskeri“. Skólaþræðir. Tímarit samtaka áhugafólks um skólaþróun.
  7. „Listahátíð á Kópaskeri“. Dagur.
  8. Sverrir Páll. „Listir – Líf – Leikir. Börn eru stórkostlegt fólk þegar þau fá að njóta sín“. Morgunblaðið.
  9. Halldór Sánchez. „Örn Ingi og skólastarf: Frelsi, hugmyndaflug og sköpun“ (PDF). Skólaþræðir. Tímarit samtaka áhugafólks um skólaþróun.
  10. Einar Falur. „Vatnaliljur á sjónum“. Morgunblaðið.
  11. „Sporbrautin“. Dagur.
  12. Halldóra Arnardóttir (2019). Örn Ingi Gíslason. Lífið er LEIKfimi. SanAr. ISBN 978-9935-24-627-1.
  13. Viðsjá. „Rannsakar verk föður síns á safninu“. RÚV.
  14. Menningin. „Lífsleikfimi Arnar Inga opinberast á Akureyri“. RÚV.