Fara í innihald

Bragi Ásgeirsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bragi Ásgeirsson (fæddur 28.maí 1931, dáinn 25. mars 2016) var grafíklistamaður, listmálari og myndlistakennari. Þar að auki var hann um árabil gagnrýnandi á Morgunblaðinu. Bragi fékk riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2001 fyrir „störf í þágu lista og menningar.“

Bragi nam við Handíða- og myndlistarskólann á árunum 1947 til 1950. Að náminu loknu hélt hann til Danmerkur þar sem hann nam við Listaháskólinn í Kaupmannahöfn frá 1950 til 1952 og frá 1955 til 1956. Frá 1952 til 1953 stundaði Bragi nám við Listaháskólann í Osló í Noregi og við Listiðnaðarskólinn. Hann dvaldi í Róm og Flórens frá 1953 til 1954 og var meðlimur í Associazione Artistica Internazionale í Róm. Bragi nam við Listaháskólann í München í Þýskalandi frá 1958 til 1960. Hann hefur farið í námsferðir víða í Evrópu, til Bandaríkjanna, Kanada, Kína og Japans.

Starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Bragi kenndi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1956 til 1996. Upphaflega kenndi hann grafík og var að því leyti brautryðjandi á Íslandi. Hann var listrýnir og greinahöfundur við Morgunblaðið frá 1966. Bagi hefur hlotið dvalar- og námsstyrki frá öllum Norðurlöndunum, m.a. Edvard Munch styrkinn árið 1977. Hann var styrkþegi DAAD Sambandslýðveldisins í Vestur-Þýskalands frá 1958 til 1960. Bragi hlaut starfstyrk íslenska ríkisins 1978-1979 og var borgalistamaður Reykjavíkur 1981-1988. Hann hlaut medalíu Eystrasaltsvikunnar/Pablo Neruda friðarpeninginn á tvíæringnum í Rostock 1978. Bragi hefur verið heiðursfélagi í félaginu Íslenzk grafík frá 1983.

Fyrsta einkasýning Braga var í Listamannaskálanum við Kirkjustræti árið 1955. Hann sýndi þar einnig árin 1960 og 1966. Bragi hefur gert veggskreytingar í Hrafnistu og Þelamerkurskóla og myndlýst kvæðið Áfangar eftir Jón Helgason. Hann hefur haldið fimm einkasýningar í Norræna húsinu og fjölda minni sýninga í Reykjavík og úti á landi. Hann hélt einkasýningu í Kaupmannahöfn árið 1956. Bragi hefur tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og um öll Norðurlönd og víðs vegar annars staðar í Evrópu, í tíu fylkjum Bandaríkjanna, í Rússlandi, Japan og Kína. Hann tók þrisvar þátt í tvíæringnum í Rostock og einu sinni Evróputvíæringnum (1988). Hann hélt sýningu á 366 myndverkum, Heimur augans, í öllum sölum Kjarvalsstaða 1980.

Bragi sat í sýningarnefnd Félags íslenzkra myndlistarmanna frá 1969 til 1972 og var formaður hennar í tvö ár, frá 1971 til 1973. Hann var fulltrúi í alþjóðlegri nefnd varðandi Biennalinn í Rostock frá 1967 til 1981 og var heiðursgestur 1981. Honum var veitt heiðursskjal fyrir grafík í Kraká í Póllandi árið 1968. Hann hlaut bjartsýnisverðlaun Brøste árið 1982.

Myndir eftir Braga eru meðal annars í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns ASÍ, Listasafns Kópavogs, Listasafns Borgarness, Listasafns Selfoss, Listasafns Siglufjarðar, Listasafns Colby College í Maine og Norður-Þýska listasafnins, Listasafns Rostock, Listasafns Alþingis, og eru í eigu margra banka, opinberra stofnanna og einkasafna á Íslandi og víðar.

Bragi hefur skrifað fjölda greina um íslenska list í íslensk og erlend blöð og rit. Ritsmíð í sérútgáfu um Albrecht Dürer kom út 1973. Ritsmíð um þýska núlistamannin Mario Reis kom út 1979. Hann var ritstjóri fyrir hönd Íslands við N.K.F. blaðið frá 1974 til 1976. Bragi hefur birt grein um íslenska myndlist frá landnámsöld til nútímans í kynningarriti um Ísland (Anders Nyborg/ Loftleiðir) sem kom út 1974.