Ívan Pavlov

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ívan Petrovítsj Pavlov)
Ívan Petrovítsj Pavlov

Ívan Petrovítsj Pavlov (Иван Петрович Павлов) (14. september 1849 - 27. febrúar 1936) var rússneskur lífeðlisfræðingur. Hann er aðallega þekktur fyrir rannsóknir sínar á klassískri skilyrðingu, sem einnig hefur verið kölluð pavlovsk skilyrðing.

Árið 1904 hlotnuðust honum Nóbelsverðlaunin vegna rannsókna sinna á meltingu.

Fjölskylda, menntun[breyta | breyta frumkóða]

Pavlov fæddist í borginni Rjazan, í Rússlandi, í stóran systkinahóp og var hann elstur af ellefu systkinum. Faðir hans var prestur og var það lengi vel ætlun hans að verða prestur. Hann byrjaði í prestaskóla í heimaborg sinni þar sem hann kynntist raunvísindum sem síðar urðu hans líf og yndi.

Árið 1870 innritaðist Pavlov í efnafræði og lífeðlisfræði í Keisaralegu læknaakademíunni í St. Pétursborg. Hann lauk kandidatsnámi þaðan árið 1875 með hæstu einkunn. Hann ákvað að halda áfram með námið og kláraði aftur með hæstu einkunn árið 1879. Hann lauk doktorsprófi árið 1883. Árið 1890 var honum boðið að reka lífeðlisfræðideild Stofnun tilraunalæknisfræða, sem hann þáði. Hann stjórnaði deildinni í 45 ár, allt þar til hann féll frá. Þann tíma var þessi deild ein mikilvægasta rannsóknarstöð í lífeðlisfræði. Árið 1890 var Pavlov skipaður prófessor í lyfjafræði í Læknisfræðiakademíu hersins.

Pavlov var meðal þeirra sem drógu í efa aðferðir samtímamanna á sálfræðisviðinu og var ósáttur með hversu óvísindalegar þær voru. Pavlov var lífeðlisfræðingur að mennt og leit á sjálfan sig sem vísindamann. Pavlov hafði einnig með mjög sterkar stjórnmálaskoðanir: Hann var mjög mótfallinn stjórnmálalegu ástandi í heimalandi sínu og var hann einnig lítt hrifinn af bolsévikum og þeirra skoðunum en þrátt fyrir það var ríkið iðið við að styðja við bakið á honum.

Klassísk skilyrðing[breyta | breyta frumkóða]

Einn af hundum Pavlovs á Pavlovssafninu

Pavlov uppgötvaði skilyrðingu fyrir tilviljun; hann var að rannsaka meltingarkerfi hunda þegar hann uppgötvaði að munnvatnsframleiðsla hundana jókst áður en maturinn var kominn í munninn á þeim. Hann breytti áherslunni í rannsókninni og fór að rannsaka þetta fyrirbæri betur. Þessar rannsóknir áttu sér stað í kringum 1890–1900, en vestrænir vísindamenn komust ekki yfir nein heildstæð gögn fyrr en árið 1927 að bók á ensku um rannsóknirnar var gefin út. Þeir höfðu þó áður komist yfir einstakar þýðingar.

Í klassískri skilyrðingu er óskilyrt áreiti, það er áreiti sem vekur sjálfkrafa upp tiltekið óskilyrt svar án þess að til þurfi nám, parað við hlutlaust áreiti. Pörunin veldur því að áreitið fer einnig að vekja fram svörun. Fyrrum hlutlausa áreitið kallast nú skilyrt áreiti og svarið sem það vekur upp kallast skilyrt svar.

Frægasta dæmið um þetta eru án efa hundar Pavlovs. Ef kjötduft er sett á tungu hunda mun munnvatnsframleiðsla þeirra aukast ósjálfrátt. Kjötduftið er því í þessu tilfelli óskilyrt áreiti og munnvatnsframleiðslan óskilyrt svar. Ef ljós er kveikt eða bjöllu er hringt (hlutlaust áreiti) áður en kjötduftið er gefið parast ljósið eða bjölluhljómurinn við kjötduftið og verður að skilyrtu áreiti. Þegar ljósið eða bjallan eru birt ein og sér vekur það upp skilyrt svar, það er munnvatnsframleiðsla hundanna eykst, og það án þess að þeim sé gefið kjötduftið. Athyglisvert er að íhuga að markmið Pavlovs með hundatilrauninni var ekki að rannsaka lærdómshæfileika dýra heldur var hann upphaflega að skoða meltingarstarfsemi hunda.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Nobel Lectures, Physiology or Medicine 1901-1921, Elsevier Publishing Company, Amsterdam, 1967. (hér Geymt 5 nóvember 2005 í Wayback Machine)