Sumarólympíuleikarnir 1948

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Wembley var aðalíþróttavöllur Ólympíuleikanna 1948.

Sumarólympíuleikarnir 1948 voru haldnir í Lundúnum í Bretlandi frá 29. júlí til 14. ágúst. Leikarnir báru þess merki hversu skammt var frá lokum seinni heimsstyrjaldarinanr. Ekki voru reist ný mannvirki, heldur notast við leikvanga sem fyrir voru. Aðstaða íþróttamanna var fábrotin og tóku sum keppnislið með sér vistir að heiman vegna matarskömmtunar.

Aðdragandi og skipulagning[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1939 hafði verið ákveðið að Ólympíuleikarnir 1944 færu fram í Lundúnum. Þeir féllu þó niður vegna stríðsins. Miklar efasemdir voru um að Bretar hefðu burði til að halda leikanna 1948 vegna eyðileggingar stríðsins og vildu ýmsir að Bandaríkjamönnum yrði falin framkvæmd þeirra. Georg 6. lagði hins vegar mikla áherslu á að leikarnir yrðu haldnir samkvæmt áætlun og taldi það mikilvægt til að þjóðin rétti úr kútnum.

Það var ekki fyrr en í mars 1946 að Alþjóðaólympíunefndin ákvað að Lundúnir skyldu hýsa leikana. Aðrar borgir sem sóttust eftir upphefðinni voru Baltimore, Minneapolis, Los Angeles, Fíladelfía og Lausanne í Sviss. Hinn skammi undirbúningstími og erfiðleikar í kjölfar stríðsins hafði talsverð áhrif á framkvæmd mótsins. Þýskaland og Japan fengu ekki að keppa á þessum Ólympíuleikum vegna styrjaldarinnar og Sovétríkin afþökkuðu boð um þátttöku.

Ákveðið var að tendra Ólympíueldinn í Ólympíu í Grikklandi líkt og gert hafði verið í Berlín tólf árum fyrr og hlaupa með hann á keppnisstaðinn. Hefur þessi hefð haldist upp frá því í tengslum við leikana.

Keppnisgreinar[breyta | breyta frumkóða]

Keppt var í 136 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn[breyta | breyta frumkóða]

Bandaríkin unnu til flestra gullverðlauna. Næstir komu Svíar og þá Frakkar.

Fanny Blankers-Koen var kjörin frjálsíþróttakona 20. aldar af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu árið 1999.

Hollenska hlaupakonan Fanny Blankers-Koen varð hetja frjálsíþróttakeppninnar. Hún vann fern gullverðlaun í hlaupagreinum, þrátt fyrir að vera þrítug og tveggja barna móðir (og ófrísk af því þriðja eins og síðar kom í ljós). Fram að þeim tíma hættu íþróttakonur undantekningarlítið keppni þegar þær hófu hjúskap.

Micheline Ostermeyer frá Frakklandi vann til gullverðlauna í kúluvarpi og kringlukasti, auk bronsverðlauna í hástökki. Auk frjálsíþróttanna var Ostermeyer einhver kunnasti píanóleikari sinnar tíðar í Frakklandi.

Finninn Tapio Rautavaara sigraði í keppni í spjótkasti. Auk þess að vera um þær mundir einn helsti íþróttagarpur Finnlands, var hann einn vinsælasti dægurlagasöngvarinn í heimalandinu auk þess að leika í fjölda kvikmynda.

Svíin William Grut sigraði í nútímafimmtarþraut.

Bandaríkjamaðurinn Bob Mathias sigraði í tugþraut. Hann var einungis sautján ára að aldri og yngstur allra til að hljóta gull í frjálsum íþróttum. Gantaðist hann sjálfur með að rétt væri að fagna titlinum með því að byrja að raka sig! Síðar átti Mathias sæti í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Repúblikanaflokkinn.

Ungverjinn Károly Takács sigraði í skammbyssuskotkeppninni af 25 metra færi. Afrek hans vakti mikla athygli, þar sem hann missti hægri höndina í stríðinu og þurfti því að æfa sig frá grunni í að skjóta með vinstri. Edwin Vásquez frá Perú vann gullverðlaunin í 50 metra skammbyssuskotfimi. Er hann eini gullverðlaunahafinn í Ólympíusögu landsins.

Tyrkneskir glímukappar hlutu sex af sextán gullverðlaunum í fjölbragðaglímukeppninni og Svíar fimm.

Finninn Veikko Huhtanen var sigursælastur fimleikamanna með fimm verðlaun, þar af þrenn gullverðlaun. Voru það flest verðlaun einstaks keppanda á leikunum. Á bogahesti urðu þrír Finnar efstir og jafnir að stigum og deildu því með sér gullverðlaunum.

Svíar urðu Ólympíumeistarar í knattspyrnu. Í liði þeirra voru félagarnir Gunnar Nordahl, Gunnar Gren og Nils Liedholm. Þeir gengu skömmu síðar til liðs við ítalska stórliðið A.C. Milan.

Þátttaka Íslendinga á leikunum[breyta | breyta frumkóða]

Íslendingar sendu stóran hóp til keppni á leikunum í Lundúnum. Tólf frjálsíþróttamenn og átta keppendur í sundi, þar af þrjár konur. Til tals kom að senda lið knattspyrnumanna en til þess kom ekki vegna ágreinings innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Þess í stað voru fjórir knattspyrnumenn sendir utan til að fylgjast með keppninni og læra af henni.

Íslenskt íþróttalíf var í talsverðum blóma um þessar mundir og voru sumir bestu frjálsíþróttamenn landsins í fremstu röð. Bestum árangri Íslendinga náði Örn Clausen sem varð tólfti í tugþraut af 35 keppendum. Örn var aðeins nítján ára og hafði ekki keppt áður í tugþrautinni. Tvíburabróðir hans Haukur varð þrettándi í 100 metra hlaupi og í kringum tuttugasta sætið í 200 metrunum. Þá varð Óskar Jónsson fimmtándi í 800 metra hlaupi á nýju Íslandsmeti.

Í sundkeppninni komst Sigurður Þ. Jónsson í undanúrslit í 200 metra bringusundi og hafnaði í fjórtánda sæti. Var það besti árangur íslenskra sundmanna í Lundúnum.

Verðlaunaskipting eftir löndum[breyta | breyta frumkóða]

Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1  Bandaríkin 38 27 19 84
2  Svíþjóð 16 11 17 44
3  Frakkland 10 6 13 29
4 Fáni Ungverjalands Ungverjaland 10 5 12 27
5  Ítalía 8 11 8 27
6  Finnland 8 7 5 20
7 Tyrkland 6 4 2 12
8 Tékkóslóvakía 6 2 3 11
9  Sviss 5 10 5 20
10  Danmörk 5 7 8 20
11 Holland 5 2 9 16
12  Bretland 3 14 6 23
13 Argentína 3 3 1 7
14  Ástralía 2 6 5 13
15  Belgía 2 2 3 7
16 Egyptaland 2 2 1 5
17 Mexíkó 2 1 2 5
18 Suður-Afríka 2 1 1 4
19  Noregur 1 3 3 7
20 Jamæka 1 2 0 3
21  Austurríki 1 0 3 4
22  Indland 1 0 0 1
Perú 1 0 0 1
24 Júgóslavía 0 2 0 2
25 Kanada 0 1 2 3
26 Portúgal 0 1 1 2
Úrúgvæ 0 1 1 2
28 Ceylon 0 1 0 1
Kúba 0 1 0 1
Spánn 0 1 0 1
Trínidad og Tóbagó 0 1 0 1
32 Kórea 0 0 2 2
Panama 0 0 2 2
34  Brasilía 0 0 1 1
Íran 0 0 1 1
Pólland 0 0 1 1
Púertó Ríkó 0 0 1 1
Alls 138 135 138 411