Fara í innihald

Mál Yazans Tamimi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Yazan Tamimi)

Mál Yazans Tamimi var umsókn palestínskrar fjölskyldu um alþjóðlega vernd á Íslandi og framkvæmd fyrirhugaðrar brottvísunar þeirra, sem stöðvuð var að morgni 16. september 2024 að beiðni dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur. Fjölskyldan fékk í kjölfarið alþjóðlega vernd á Íslandi til tveggja ára en málið olli ágreiningi innan ríkisstjórnar Íslands.

Meðferð umsóknarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Yazan Tamimi (f. 2012) kom fyrst til Íslands með foreldrum sínum 16. maí 2023 og fjölskyldan lagði fram umsóknir um alþjóðlega vernd daginn eftir. Áður höfðu þau haft viðkomu á Spáni í þrjá daga en Spánn var jafnframt landið sem veitti fjölskyldunni vegabréfsáritun til að ferðast inn á Schengen-svæðið. Ísland mun þó hafa verið fyrirhugaður áætlunarstaður fjölskyldunnar sem flúði Palestínu sérstaklega til að fá aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir Yazam sem er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne. Samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar ber Spánn ábyrgð á umsókn fjölskyldunnar, bæði sem útgáfuríki vegabréfsáritunarinnar og sem fyrsti áfangastaður fjölskyldunnar á Schengen-svæðinu. Stjórnvöld á Spáni féllust á að taka við fjölskyldunni. Þann 21. mars 2024 staðfesti Kærunefnd Útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að umsókn fjölskyldunnar yrði ekki tekin til efnislegrar meðferðar á Íslandi heldur yrðu þau send aftur til Spánar. Ekki var talið að veikindi Yazans ættu að koma í veg fyrir þann flutninginn þar sem hann ætti að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar.[1]

Þessari niðurstöðu var harðlega mótmælt af aðgerðarsinnum og ýmsum samtökum sem töldu að ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til sérstakra réttinda barna og fatlaðs fólks samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum.[2] Þá voru stjórnvöld sökuð um að gera of lítið úr skaðlegum áhrifum af flutningi drengsins til Spánar en fyrir lágu læknisvottorð um að rof á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu gæti reynst honum lífshættulegt.[3] Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kvaðst í ágúst 2024 ekki geta haft afskipti af einstökum málum og sagðist bera fullt traust til stjórnvalda útlendingamála.[4] „Það er líka ljóst að verði rof á þess­ari þjón­ustu get­ur það verið lífs­hættu­legt og stytt hans ævi. Benda má á að 30% drengja með Duchenne-vöðvarýrn­un deyja í kjöl­farið á falli eða hnjaski,[5] sagði í lækn­is­vott­orði Yaz­an. Fag­fé­lög og samtök á borð við ÖBÍ, Þroska­hjálp, No Borders, Ein­stök börn og Duchenne sam­tök­in fordæmdu áætlaða brot­vís­un­ vegna þeirra óafturkræfu afleiðinga sem hún myndi hafa á heilsu drengsins.

Guðjón Reykdal Óskarsson, doktor í líf- og læknavísindum, sem er sjálfur með sjúkdóminn, lýsti þungum áhyggjum vegna brottvísunar Yazan. [6]

„Ef engin meðferð er þá lifa drengir ekki nema bara að unglingsárum. Mér finnst skrýtið ef læknar hjá Útlendingastofnun segi að þetta sé ekki alvarlegur sjúkdómur. Ef að maður hefur farið í gegnum læknanám, og ég hef farið í gegnum lyfjafræði og erfðafræði, hver einasta kennslubók nefnir þennan sjúkdóm sem sérstaklega alvarlegan. Þegar ég heyrði að hann yrði sendur úr landi þá fylltist ég alveg ótta,“ sagði Guðjón á samstöðufundi með Yazan. [7]

Í úrskurði kærunefndar í málinu sagði hins vegar „Kærunefnd hefur við framangreint mat litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningsins um réttindi fatlaðs fólks auk framangreindra upplýsinga um aðstæður á Spáni. Ekki verður séð að A muni eiga á hættu að brotið verði gegn réttindum hans samkvæmt efnisreglum umræddra samninga.[8] Hún hefur sætt gagnrýni frá bæði sérfræðingum og aðgerðarsinnum fyrir embættisverk sín tengt þessu máli[9]. Málefni Yazans komst í heimsréttirnar sama dag og brottflutningurinn átti að eiga sér stað[10].

Brottvísun reynd

[breyta | breyta frumkóða]

Að kvöldi 15. september fór stoðdeild Ríkislögreglustjóra inn á Rjóðrið, sem er hjúkrunar- og endurhæfingardeild Landspítalans fyrir langveik eða fötluð börn, til að sækja Yazan sem var þar staddur í hvíldarinnlögn. Móðir hans var þar með honum en faðir hans var sóttur á heimili fjölskyldunnar. Farið var með fjölskylduna á Keflavíkurflugvöll þar sem til stóð að fjölskyldan yrði flutt til Barselóna með flugi um morguninn. Klukkan 6:04 að morgni 16. september hringdi Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra í Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra og lýsti yfir áhyggjum af framkvæmd brottvísunar og hvernig gætt væri að réttindum fatlaðs fólks, en þau mál falla undir verksvið ráðherrans. Bæði Guðmundur Ingi og Svandís Svavarsdóttir innviðaráherra höfðu einnig verið í samskiptum við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um morguninn vegna málsins og farið fram á að brottflutningi fjölskyldunnar yrði frestað til þess að hægt væri að ræða málið innan ríkisstjórnarinnar. Bjarni hringdi í kjölfarið í Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og fór fram á frestun framkvæmdar. Með símtali dómsmálaráðherra til ríkislögreglustjóra og svo textaskilaboðum var lögregla því beðin um að falla frá brottflutningi, rúmlegum hálftíma fyrir áætlaða brottför til Barselóna.[11]

Gæsalappir

Frá Bjarna: Ákvörðun um brottvísun stendur eðli málsins samkvæmt. Óska eftir að framkvæmd brottvísunar verði frestað í þeim tilgangi að tækifæri gefist til að eiga samráð innan stjórnarinnar. Óskað er eftir því af ráðherrum.“

— Guðrún Hafsteinsdóttir, textaskilaboð til ríkislögreglustjóra kl. 7:46 16. september 2024.

Eftirmálar

[breyta | breyta frumkóða]

Haldinn var óformlegur fundur í ríkisstjórn um málið síðar um daginn eftir að fallið hafði verið frá brottflutningi fjölskyldunnar. Engin sérstök niðurstaða var af fundinum en eftir hann sagði Bjarni Benediktsson að ákvörðun um brottvísun fjölskyldunnar stæði óbreytt. Aðspurður sagðist Guðmundur Ingi ekki hafa hótað forsætisráðherra stjórnarslitum en Svandís Svavarsdóttir sagði þó að óvíst væri að ríkisstjórnarsamstarfið hefði lifað af ef orðið hefði af framkvæmd brottvísunarinnar.[12] Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði stjórnsýsluna í málinu í raun mjög óeðlilega og að engin sérstök lagastoð væri fyrir því að ráðherra gripi inn í störf lögreglu með þessum hætti.[13] Í október 2024 var upplýst nánar í fjölmiðlum um samskipti félagsmálaráðherra við ríkislögreglustjóra og forsætisráðherra að morgni 16. september og kom fram nokkur gagnrýni á störf Guðmundar Inga, þá sér í lagi að hann skyldi hafa haft beint samband við ríkislögreglustjóra fremur en við dómsmálaráðherra sem er yfirmaður lögreglu. Svandís Svavarsdóttir, sem þá var nýkjörin formaður Vinstri grænna, lýsti þó fullum stuðningi við embættisfærslur Guðmundar Inga í málinu. Mál Yazans olli þannig frekari erfiðleikum í samstarfi stjórnarflokkanna sem þegar var orðið stirt vegna útlendingamála almennt og fleiri málaflokka. 13. október 2024 lýsti Bjarni Benediktsson yfir endalokum stjórnarsamstarfsins vegna óyfirstíganlegra erfiðleika í samstarfinu. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor lítur svo á að mál Yazans Tamimi og fjölskyldu hans hafi verið „þúfan sem velti hlassinu“ í aðdraganda stjórnarslita ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar[14] Síðar kom í ljós að sjálfstæðismennirnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Gunnarsson höfðu einnig verið í samskiptum við ríkislögreglustjóra að morgni 16. september, þrátt fyrir að gegna þá engum embættum sem varða málaflokkinn, en þau eiga það sameiginlegt að hafa áður gegnt embætti dómsmálaráðherra.[15]

Hvað Yazan Tamimi og fjölskyldu hans varðar, þá var ekki gerð önnur tilraun til brottflutnings þeirra til Spánar. Frestur til þess að framkvæma flutningin rann út síðar í september og í kjölfar þess fékk umsókn fjölskyldunnar um alþjóðlega vernd efnislega meðferð og var samþykkt.[16]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Úrkurður Kærunefndar útlendingamála nr. 287/2024“. www.stjornarradid.is. Sótt 13. október 2024.
  2. „„Þetta má ekki gerast". www.mbl.is. 26. ágúst 2024. Sótt 13. október 2024.
  3. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (10. maí 2024). „Senda á ellefu ára palestínskan dreng með hrörnunarsjúkdóm úr landi - Vísir“. visir.is. Sótt 13. október 2024.
  4. Guðmundur Hilmarsson (27. ágúst 2024). „Segir ráðherra ekki geta haft afskipti af stjórnvaldsákvörðunum“. www.mbl.is. Sótt 13. október 2024.
  5. Ragnarsson, Rafn Ágúst (22. ágúst 2024). „Skora á flug­fé­lög að neita að flytja Yazan úr landi - Vísir“. visir.is. Sótt 19. október 2024.
  6. Hrafnkelsdóttir, Linda H. Blöndal (23. júní 2024). „Þekkja af eigin raun Duchenne sjúkdóminn - RÚV.is“. RÚV. Sótt 19. október 2024.
  7. Hrafnkelsdóttir, Linda H. Blöndal (23. júní 2024). „Þekkja af eigin raun Duchenne sjúkdóminn - RÚV.is“. RÚV. Sótt 19. október 2024.
  8. „Stakur úrskurður“. www.stjornarradid.is. Sótt 8. október 2024.
  9. Helgadóttir, Ragnhildur (16. september 2024). „„Nýtt ömurleikamet í hvernig er verið að hola mannréttindi á Íslandi að innan". Heimildin. Sótt 17. september 2024.
  10. „Iceland halts deportation of seriously ill Palestinian boy after public protests“. september 2024.
  11. Freyr Gígja Gunnarsson (9. október 2024). „Textaskilaboð ráðherra og ríkislögreglustjóra varpa nýju ljósi á mál Yazans Tamimi“. RÚV. Sótt 13. október 2024.
  12. Andri Yrkill Valsson (17. september 2024). „Þvertaka fyrir hótanir um stjórnarslit en augljós titringur vegna brottvísunar Yazans“. RÚV. Sótt 13. október 2024.
  13. Benedikt Sigurðsson (17. september 2024). „„Þetta er ekki eðlileg stjórnsýsla". RÚV. Sótt 13. október 2024.
  14. Böðvarsdóttir, Elín Margrét (13. október 2024). „„Enn­þá í tölu­verðu óvissuástandi um fram­vinduna" - Vísir“. visir.is. Sótt 19. október 2024.
  15. Arnar Þór Ingólfsson (18. október 2024). „Jón Gunnars og Áslaug Arna hringdu í ríkislögreglustjóra vegna Yazans“. Heimildin. Sótt 19. október 2024.
  16. Lovísa Arnardóttir (8. október 2024). „Yazan og fjöl­skylda komin með vernd“. visir.is. Sótt 13. október 2024.