Vísitala atvinnufrelsis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vísitala atvinnufrelsis (e. Index of Economic Freedom) er vísitala, sem nokkrir hagfræðingar undir forystu Miltons Friedmans og James Gwartneys hafa smíðað til að mæla atvinnufrelsi í ólíkum löndum. Að verkinu stendur fjöldi rannsóknastofnana um heim allan undir forystu Fraser Institute í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada. Smám saman hafa höfundar vísitölunnar endurbætt mælinguna og fært hana út. Vísitalan var síðast gefin út 2006 og þá unnið úr tölum frá 2004. Á Íslandi sér Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE, um söfnun upplýsinga og kynningu á vísitölunni.

Samsetning[breyta | breyta frumkóða]

Vísitala atvinnufrelsis er sett saman úr mælingum á fimm sviðum: 1) umfangi ríkisins, 2) réttaröryggi og friðhelgi eignarréttar, 3) aðgangi að traustum peningum, 4) frelsi til alþjóðlegra viðskipta, 5) reglum um lánamarkað, vinnumarkað og rekstur fyrirtækja. Gefin eru stig frá 0 upp í 10.

Helstu niðurstöður[breyta | breyta frumkóða]

Atvinnufrelsi hefur aukist í heiminum. Það var að meðaltali 5,1 árið 1980, en er 6,5 eftir síðustu mælingu (2004). Í þeim 102 löndum, þar sem atvinnufrelsi var mælt 1980, hefur það aukist í 98 þeirra á þessu tímabili, en minnkað í fjórum. Atvinnulíf er frjálsast í eftirfarandi löndum samkvæmt þessari mælingu:

Atvinnulíf er ófrjálsast í Simbabve, Myanmar (Búrma), Vestur-Kongó, Austur-Kongó, Venesúela, Gíneu-Bissá, Alsír, Búrúndí, Rúanda og Miðafríkulýðveldinu. Tölur eru þó ekki tiltækar um nokkur önnur lönd, sem sennilega búa við mjög mikið ófrelsi í atvinnumálum, svo sem Norður-Kóreu og Kúbu.

Atvinnufrelsi á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Ísland er eitt þeirra ríkja, þar sem atvinnufrelsi hefur aukist hvað mest síðustu þrjátíu árin. Það hefur farið úr 64. í níunda sæti meðal landa heims. Atvinnufrelsi á Íslandi var:

 • 1970 6,3 (26. af 54 löndum)
 • 1975 4,7 (53. af 72 löndum)
 • 1980 5,1 (64. af 105 löndum)
 • 1985 5,3 (61. af 111 löndum)
 • 1990 6,6 (26. af 113 löndum)
 • 1995 7,4 (17. af 123 löndum)
 • 2000 7,7 (12. af 123 löndum)
 • 2004 7,9 (9. af 130 löndum)

Sennilega hefur atvinnufrelsi aukist enn meir síðan, m. a. vegna skattalækkana og einkavæðingar ríkisfyrirtækja á 10. áratug 20. aldar.

Samband atvinnufrelsis og lífskjara[breyta | breyta frumkóða]

Sterkt samband kemur við þessa mælingu í ljós milli atvinnufrelsis og góðra lífskjara almennings.

 • Í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnulíf er frjálsast, er meðallandsframleiðsla á mann (per-capita GDP) 24.402 Bandaríkjadalir. Í þeim fjórðungi, þar sem atvinnulíf er ófrjálsast, er hún aðeins 2.998 Bandaríkjadalir.
 • Sterkt samband er líka milli atvinnufrelsis og hagvaxtar. Í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnulíf er frjálsast, er hagvöxtur 2,1%. Í þeim fjórðungi, þar sem atvinnulíf er ófrjálsast, er hann -0,2%, þ. e. landsframleiðsla á mann minnkar.
 • Fleira má nefna. Í frjálsasta fjórðungnum er atvinnuleysi 5,9%, en í hinum ófrjálsasta 12,9% að meðaltali.
 • Í frjálsasta fjórðungnum er meðalaldur 77,8 ár, en í hinum ófrjálsasta 55 ár.
 • Í frjálsasta fjórðungnum er atvinnuþátttaka barna 0,3% vinnu, en í hinum ófrjálsasta 19,3%.
 • Í frjálsasta fjórðungnum eru meðaltekjur 10% fátækasta hluta þjóðarinnar 6.519 Bandaríkjadalir, en í ófrjálsasta fjórðungnum 826 Bandaríkjadalir.
 • Í frjálsasta fjórðungnum eru lýðræði og mannréttindi virt mun meir en í hinum ófrjálsasta. Á mælikvarða frá 1 upp í 7, þar sem 1 merkir mesta vernd réttinda og 7 hina minnstu, er í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnulíf er frjálsast, meðaltalið 1,8, en í þeim fjórðungi landa, þar sem atvinnulíf er ófrjálsast, er þetta meðaltal 4,6.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]