Teiknimyndablaðið Svalur
Teiknimyndablaðið Svalur (franska: Spirou eða Le Journal de Spirou) er belgískt teiknimyndablað sem gefið er út í hverri viku. Blaðið hóf göngu sína árið 1938 og hefur í gegnum tíðina birt ævintýri margra kunnustu teiknimyndapersóna samtímans.
Sagan
[breyta | breyta frumkóða]Belginn Jean Dupuis stofnaði útgáfufyrirtækið Dupuis árið 1922 með það að markmiði að gefa út bækur og tímarit á frönsku og hollensku. Árið 1938 réðst hann í útgáfu teiknimyndablaðs fyrir börn og unglinga. Það hlaut nafnið Le journal de Spirou og fékk Dupuis listamanninn Rob-Vel til að skapa titilpersónu sem prýtt gæti haus blaðsins og forsíðu. Útkoman varð lyftudrengurinn Svalur (franska: Spirou), sem öðlaðist fljótlega sjálfstætt líf í vinsælum teiknimyndasagnaflokki.
Framan af voru þýddar bandarískar teiknimyndasögur uppistaðan í efni blaðsins. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar rofnuðu hins vegar tengslin vestur um haf. Á sama tíma kom fram kynslóð belgískra og franskra teiknimyndasagnahöfunda sem lögðu grunn að öflugri sjálfstæðri teiknimyndasagnahefð í löndunum tveimur.
Teiknimyndasagnaritin Svalur og Tinni (franska: Tintin) gegndu veigamiklu hlutverki við útbreiðslu þessara verka, en síðarnefnda blaðið kom út á árunum 1946 til 1983. Svalur og Tinni áttu í harðvítugri samkeppni um áratuga skeið. Milli þeirra ríkti þó þegjandi samkomulag um ýmsa þætti samkeppninnar. Höfundar sem birtu sögur í öðru blaðinu skrifuðu ekki fyrir hitt blaðið, nema í algjörum undantekngingartilvikum. Nokkur dæmi voru þó um að höfundar færðu sig frá öðru blaðinu yfir á hitt.
Hollensk útgáfa teiknimyndablaðsins Svals, Robbedoes, hóf göngu sína árið 1938. Þar sem hollenska málsvæðið er talsvert minna en hið franska, lét Robbedoes undan síga fyrir minnkandi tímaritalestri barna. Á níunda áratugnum var blaðsíðum þess fækkað niður í 32 í hverju tölublaði (samanborið við 64 síður í frönsku útgáfunni) og var útgáfu blaðsins endanlega hætt árið 2005.
Nafnbreytingar
[breyta | breyta frumkóða]Ýmsar smábreytingar hafa verið gerðar á nafni tímaritsins frá því að útgáfa hófst.
- 1938-1947 Le journal de Spirou
- 1947-1988 Spirou
- 1988-1994 Spirou Magaziiiine
- 1994-2006 Spirou
- 2006-2008 Spirou HeBDo
- 2008- Spirou
Kunnar teiknimyndasögur
[breyta | breyta frumkóða]Meðal kunnra teiknimyndasagna sem birst hafa í Tímaritinu Sval í gegnum tíðina má nefna: Sval & Val, Samma & Kobba, Lukku-Láka, Viggó viðutan, Yoko Tsuno, 421, Boule & Bill, Strumpana, Hinrik & Hagbarð og Steina sterka.
Frægir starfsmenn
[breyta | breyta frumkóða]Meðal kunnra fyrrverandi og núverandi starfsmanna tímaritisins eru: