Yoko Tsuno
Yoko Tsuno er aðalsöguhetja í samnefndum belgískum teiknimyndaflokki sem birtist í teiknimyndablaðinu Sval og gefin út á bókarformi af útgáfufélaginu Dupuis. Roger Leloup, hefur teiknað og samið bókaflokkinn frá upphafi. Fyrsta Yoko Tsuno-bókin kom út árið 1972, en sú 30. og síðasta til þessa árið 2022.
Sögurnar
[breyta | breyta frumkóða]Ævintýrin um Yoko Tsuno eru æsilegar vísindaskáldsögur þar sem hátækni kemur við sögu. Yoko Tsuno er rafmagnsverkfræðingur á þrítugsaldri. Hún er japönsk af uppruna en búsett í Belgíu. Sögusviðið er þó jörðin öll og raunar einnig fjarlæg sólkerfi.
Tvær aukapersónur fylgja Yoko Tsuno í flestum ævintýra hennar. Villi (franska: Vic Video) og Palli (franska: Pol Pitron) eru annars vegar rödd skynseminnar og hins vegar fulltrúi gáska og hvatvísi í sögunum. Táningsstúlkan Monya kemur við sögu í mörgum bókanna. Hún er ættleidd frænka Yoko Tsuno, en kom í raun úr framtíðinni frá árinu 3827 og býr yfir hæfileikum til tímaferðalaga sem reynt hefur á í nokkrum sögum.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Forlagið gaf út þrjár Yoko Tsuno-bækur á árunum 1985 til 1987 í þýðingu Þorvalds Kristinssonar og Bjarna Fr. Karlssonar. Bækur þessar voru nr. 12, 13 og 14 í upphaflegu útgáfunni.
- 1. Kastaladraugurinn, útg. 1985. Kom fyrst út 1982 sem La Proire et L´Omre.
- 2. Drottningar dauðans, útg. 1986. Kom fyrst út 1983 sem Les Archandes de Vinéa.
- 3. Vítiseldur, útg. 1987. Kom fyrst út 1984 sem Le Feu de Wotan.