Fara í innihald

Peyo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Peyo

Pierre Culliford (25. júní 192824. desember 1992), þekktur sem Peyo, var belgískur teiknari, þekktastur fyrir að hafa skapað Strumpana.

Pierre Culliford fæddist í Brussel, sonur ensks föður og belgískrar móður. Hann reyndist drátthagur frá unga aldri og var sendur til myndlistarnáms. Hann tók sér snemma listamannsnafnið Peyo, en kveikjan að því var vitlaus framburður ensks skyldmennis á nafni hans, Pierre. Eftir útskrift hóf hann störf hjá CBA, skammlífu teiknimyndafyrirtæki, þar sem hann kynntist listamönnum á borð við Franquin, Morris og Eddy Paape. Þegar CBA varð gjaldþrota hófu þremenningarnir störf hjá tímaritinu Sval en Peyo fékk ekki ráðningu.

Hann hóf sjálfstæðan feril sem myndasöguhöfundur árið 1946 og samdi stuttar skrítlur og sögur fyrir ýmis belgísk blöð. Sama ár leit persónan Hinrik (franska: Johan) fyrst dagsins ljós. Hún átti eftir að þróast mikið á næstu árum og verða annar helmingur hins vinsæla tvíeykis Hinriks og Hagbarðs. Þær sögur birtust í tímaritinu Sval eftir að Peyo var loks ráðinn þangað árið 1952.

Í einni sögunni um þá Hinrik og Hagbarð kynnti Peyo til sögunnar litla bláa skógarálfa, Strumpana. Þótt þeir hafi í fyrstu aðeins verið hugsaðir sem aukapersónur í einni bók, voru vinsældir þeirra slíkar að höfundurinn kallaði þá aftur til leiks og hóf fljótlega að rita sjálfstæðar sögur um ævintýri persónanna. Alls samdi hann sextán bækur um Strumpana og eftir dauða hans tók sonurinn Thierry Cuilliford upp þráðinn og samdi álíka margar sögur.

Hann samdi sjö ævintýri um Steina sterka, ógnarsterkan smápjakk sem missir ofurkrafta sína við það eitt að fá kvef. Þá átti hann þátt í einni bók um ævintýri Svals og Vals, Svaðilför til Sveppaborgar.

Sjálfur leit Peyo þó ætíð á sögurnar um miðaldahetjurnar Hinrik og Hagbarð sem sitt helsta sköpunarverk. Þær bækur urðu þrettán talsins.

Helstu verk

[breyta | breyta frumkóða]