Fara í innihald

Greg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Michel Régnier (5. maí 193129. október 1999), þekktur sem Greg, var belgískur myndasöguhöfundur og teiknari. Hans kunnasta verk voru sögurnar um Alla Kalla (franska: Achille Talon). En einnig kom hann að handritsgerð nokkurra kunnra myndasagnaflokka.

Michel Régnier fæddist árið 1931 og var aðeins sextán ára þegar fyrstu myndasögur hans birtust í belgískum blöðum. Fljótlega tók hann upp listamannsnafnið Greg. Hann komst snemma í kynni við Franquin og hóf störf hjá Teiknimyndablaðinu Sval árið 1954. Þar varð hann snemma vinsæll höfundur og samdi fjölda handrita.

Mörg ævintýra hans gerast í Villta-Vestrinu. Þannig samdi hann 19 sögur um kúrekann Chick Bill með teiknaranum Tibet, en sá sagnaflokkur telur í allt 70 bækur. Hann samdi sextán sögur um sægarpinn Bernard Prince, ellefu bækur um lögreglumanninn og njósnarann Bruno Brazil, fimmtán bækur um kúrekann Comanche og átján sögur um Luc Orient, vísindamann sem berst við geimverur. Allir eiga þessir sagnaflokkar það sameiginlegt að vera spennusögur í raunsæislegum teiknistíl.

Samhliða samdi Greg fyrir listamenn sem teiknuðu fremur í skrípamyndastíl. Þannig gerði hann handrit að sex sögum um kærustuparið Modeste og Pompon sem Franquin teiknaði og þremur sögum um breska spæjarann Clifton, sem var skopstæling á James Bond. Þá samdi hann ellefu bækur um skötuhjúin Olivier og Colombine ásamt teiknaranum Dany, sem kunnastur er fyrir teikningar af léttklæddum og íturvöxnum konum.

Sjá nánari umfjöllun á greininni Alli Kalli

Þótt mikill tími færi í að semja fyrir aðra, lagði Greg aldrei pensilinn sjálfur á hilluna. Hann endurvakti félagana Zig og Puce í sex bókum, en það var myndasöguflokkur sem notið hafði mikilla vinsælda á þriðja og fjórða áratugnum.

Veigamesti hlutur lífsstarfs hans var þó sagnaflokkurinn um lífskúnstnerinn og skapofsamanninn Alla Kalla. Um hann samdi og teiknaði Greg 42 bækur og hafa aðrir höfundar tekið upp þráðinn eftir dauða hans.

Tinna-ævintýrið sem ekki varð

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1958 var Hergé höfundur Tinna-bókanna orðinn uppiskroppa með hugmyndir að nýjum sögum. Hann bað Greg um að semja handrit að næstu bók og hófst handa við teikna eftir því. Sagan, sem átti að heita Le Thermozéro, hefði orðið sú fyrsta í bókaflokknum sem Hergé samdi ekki sjálfur. Ekkert varð þó úr verkefninu þar sem Hergé sá sig um hönd og ákvað að hann vildi ekki hleypa öðrum að ritun Tinna. Síðar kom til greina að nota handrit Gregs í teiknimynd um ævintýri Tinna, en ekkert varð úr því heldur.

Hergé íhugaði einnig að nýta handritið í ævintýri Öllu, Siggu og Simbós, sagnaflokki um tvö systkini og gæluapa þeirra. Að lokum var fallið frá þeirri hugmynd.

Síðar átti Greg þó eftir að sinna öðrum verkefnum fyrir Hergé, í tengslum við teiknimyndir um Tinna. Hann var handritshöfundur Tinna og Hákarlavatnsins, en bók eftir þeirri mynd er oft prentuð með öðrum Tinna-bókum þótt hún teljist ekki formlega hluti af sagnaflokknum.

Svalur og Valur

[breyta | breyta frumkóða]

Á seinni hluta ferils síns sem teiknari og höfundur Svals og Vals-bókanna var Franquin undir miklu álagi og leitaði því aðstoðar hjá öðrum. Greg var fenginn til að semja nokkur handrit og er skráður höfundur sumra bókanna. Ekki er þó alltaf gott að segja til um þátt hans í verkunum, því Franquin lagði mikið til málanna á fyrri stigum og var kunnur fyrir að víkja allverulega frá handritum þeim sem hann fékk í hendur. Öfugt við suma aðra kunna myndasöguhöfunda var Franquin þo ófeiminn við að gefa samverkamönnum sínum heiður fyrir aðstoðina.

Á árunum 1958 til 1961 samdi Greg handrit að sex sögum um þá félaganna. Þær eru: