Jean Doisy
Jean Doisy eða Jean-Georges Evrard (13. janúar 1900 – 6. október 1955) var belgískur myndasöguhöfundur, ritstjóri og andspyrnuhetja. Hann var kunnastur fyrir ritstjórnarstörf sín hjá tímaritinu Sval.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Jean-Georges Evrard fæddist í þorpinu Jodoigne skammt frá borginni Namur. Hann var kennarasonur og sýndi snemma merki um bókmenntaáhuga. Einkum var það hinn enskumælandi menningarheimur sem átti hug hans. Tók hann til við að kenna sjálfum sér ensku og réðst tvítugur í það verk að þýða skáldsöguna David Copperfield með orðabók eina að vopni. Á árunum 1926-29 bjó hann í Nottingham á Englandi til að ná betri tökum á tungumálinu og kynna sér breska menningu. Meðan á Englandsdvölinni stóð festust marxískar skoðanir hans í sessi.
Eftir heimkomuna sá hann sér farborða með þýðingum og sem höfundur leynilögreglusagna sem nutu nokkurra vinsælda. Eftir nokkurra ára hark hóf hann störf hjá dagblaðinu Le Moustique (íslenska: Mýflugunni) sem útgefandinni Paul Dupuis hélt úti. Þar tók hann upp höfundarnafnið Jean Doisy, en alvanalegt var um þær mundir að blaðamenn skrifuðu undir slíkum tilbúnum nöfnum.
Árið 1938 hóf Dupuis-forlagið útgáfu Teiknimyndablaðsins Sval og var Doisy falin ritstjórn þess. Hann var óskoraður ritstjóri til ársins 1948 þegar Charles Dupuis, sonur stofnandans, tók yfir stóran hluta af yfirstjórn blaðsins. Doisy hélt þó áfram að gegna veigamiklu hlutverki á ritstjórninni til dauðadags 1955.
Þýddar bandarískar myndasögur voru fyrirferðarmiklar í tímaritinu Sval fyrstu árin og var Doisy mikill hvatamaður að því að auka hlut innlendra sagna í þeirra stað. Ásamt Jijé skapaði hann harðsnúna leynilögreglumanninn Valhardi sem varð einhver vinsælasta söguhetja Belgíu. Doisy reyndist einnig mikill örlagavaldur fyrir myndasögurnar um Sval og Val í tveimur efnum. Annars vegar kom hann því til leiðar að Dupuis-útgáfan keypti höfundarréttinn af persónu Svals af höfundi hennar Rob-Vel. Öfugt við ýmsar aðrar kunnar myndasöguhetjur er Svalur því í eigu útgáfufélagsins en telst ekki höfundarverk eins listamanns. Hins vegar var það að undirlagi Doisy að Jijé gerði Val að föstum fylgdarmanni Svals. Nafn persónunnar, Fantasio, var líklega einnig frá Doisy komið, en hann hafði skrifað allnokkra pistla í Svals-blaðið undir því heiti.
Á stríðsárunum tók Doisy virkan þátt í andspyrnuhreyfingunni gegn hernámi nasista. Hann beitti m.a. blaðamannatengslum sínum til að reyna að afla sannanna fyrir tilvist útrýmingarbúða Þjóðverja í Auschwitz og skipulagði brúðuleikhúsferðir undir merkjum Svals-tímaritsins um Belgíu þvera og endilanga sem voru þó fyrst og fremst yfirskyn þar sem hinn raunverulegi tilgangur var að flytja fólk og skilaboð fyrir andspyrnuna.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Grein um Jean Doisy á frönsku Wikipediu
- https://www.dupuis.com/auteurbd/doisy/2385