Sovétlýðveldið Úkraína
Sovétlýðveldið Úkraína | |
Українська Радянська Соціалістична Республіка (úkraínska) (Úkrajínska Radjanska Sotsíalístítsjna Respúblíka) Украинская Советская Социалистическая Республика (rússneska) (Úkraínskaja Sovetskaja Sotsíalístítsjeskaja Respúblíka) | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Пролетарі всіх країн, єднайтеся! (umritun: Proletarí vsíkh krajín, jedajtesja!) (Úkraínska) Verkamenn allra landa sameinist! | |
Þjóðsöngur: Internatsjónalinn Державний гімн Української Радянської Соціалістичної Республіки | |
Höfuðborg | Kharkov (1919–1934) Kænugarður (1934–1991) |
Opinbert tungumál | Rússneska, úkraínska |
Stjórnarfar | Flokksræði
|
Þjóðhöfðingi | Grígoríj Petrovskíj (fyrstur) Leoníd Kravtsjúk (síðastur) |
Sovétlýðveldi | |
• Stofnun | 1919 |
• Sjálfstæði undan Sovétríkjunum | 1991 |
Flatarmál • Samtals |
603.700 km² |
Mannfjöldi • Samtals (1989) • Þéttleiki byggðar |
51.706.746 85,64/km² |
VÞL (1990) | 0.725 |
Gjaldmiðill | sovésk rúbla |
Þjóðarlén | .su |
Úkraínska sósíalíska sovétlýðveldið (úkraínska: Українська Радянська Соціалістична Республіка, umritað Úkrajínska Radjanska Sotsíalístítsjna Respúblíka; rússneska: Украинская Советская Социалистическая Республика, umritað Úkraínskaja Sovetskaja Sotsíalístítsjeskaja Respúblíka) var sovétlýðveldi þar sem nú er ríkið Úkraína sem var til frá árinu 1919 til ársins 1991. Mestalla sögu sína var úkraínska sovétlýðveldið eitt af lýðveldum Sovétríkjanna.
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Millistríðsárin
[breyta | breyta frumkóða]Eftir rússnesku borgarastyrjöldina varð meirihluti þess landsvæðis sem í dag tilheyrir Úkraínu að sambandslandi (sovétlýðveldi) innan Sovétríkjanna. Vestasti hluti Úkraínu var hins vegar innlimaður í Pólland, einræðisríki sem reyndi að koma á þvingaðri aðlögum úkraínsku svæðanna að pólskri menningu. Búkóvína og Karpató-Úkraína voru hins vegar limaðar annars vegar inn í Rúmeníu og hins vegar í hina nýstofnuðu Tékkóslóvakíu.[1]
Sovétlýðveldið Úkraína hlaut formlega aðild að Sovétríkjunum í desember árið 1922. Stjórnsýsla landsins var í kjölfarið aðlöguð að sovéskum stjórnarháttum. Þetta fól meðal annars í sér hreinsanir á stjórnarandstæðingum, bælingu á úkraínskri menningu, aukna miðstýringu í efnahagsmálum og harðar aðgerðir í þágu iðnvæðingar. Jafnframt var landbúnaðurinn samyrkjuvæddur. Samyrkjuvæðingin, brottvísanir og aftökur á stjórnarandstæðingum og hungursneyð leiddu til fjöldadauða á árunum 1932 til 1933 sem kallast holodomor.[1] Höfuðborg sovétlýðveldisins til ársins 1934 var Kharkov (nú Kharkív) en eftir það var Kænugarður, sem var að meirihluta úkraínskumælandi, gerður að höfuðstað.
Seinni heimsstyrjöldin
[breyta | breyta frumkóða]Eftir innrásina í Pólland við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar voru landsvæði sem höfðu tilheyrt Póllandi á millistríðsárunum innlimuð í Sovétríkin og gerð hluti af úkraínska sovétlýðveldinu. Um var að ræða landsvæði fylkjanna Ívano-Frankívsk, Lvív, Rívne, Ternopíl og Volyn. Árið 1941 lögðu Þjóðverjar þetta landsvæði undir sig og stýrðu því ásamt stórum hluta af úkraínska sovétlýðveldinu til ársins 1943. Undir lok styrjaldarinnar hröktu Sovétmenn Þjóðverja frá Úkraínu og endurheimtu landsvæðin ásamt héruðunum sem þeir höfðu innlimað frá Póllandi.[1]
Á Teheranráðstefnunni árið 1946 viðurkenndu bandamenn innlimun Sovétmanna á pólsku héruðunum ásamt innlimun þeirra á landsvæði frá Tékkóslóvakíu (Zakarpatska-fylki) og Rúmeníu (Tsjernívtsífylki). Mikill hluti pólskra íbúa þessara svæða var fluttur nauðungarflutningum til Alþýðulýðveldisins Póllands.
Árið 1944 lét stjórn Stalíns breyta stjórnarskrá Sovétríkjanna svo að sérhvert sovétlýðveldi innan sambandsríkisins gæti rekið eigið utanríkisráðuneyti. Stalín tókst að telja Bandaríkjamenn og Breta á að leyfa bæði úkraínska og hvítrússneska sovétlýðveldinu að eiga sjálfstæðar aðildir að hinum nýstofnuðu Sameinuðu þjóðum. Með þessu móti fengu Sovétríkin tvö atkvæði til viðbótar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Meginásetningur Stalíns kann þó að hafa verið sá að launa úkraínskum og hvítrússneskum kommúnistum, sem áttu í baráttu gegn kaþólskum þjóðernissinnum heima fyrir. Árið 1946 hafði kaþólska austurkirkjan í Vestur-Úkraínu til dæmis verið leyst upp og hún var ekki endurreist fyrr en árið 1990.[2]
Eftirstríðsárin
[breyta | breyta frumkóða]Á eftirstríðsárunum voru tiltekin landsvæði innan Sovétríkjanna færð undir stjórn úkraínska sovétlýðveldisins. Frekari sovétvæðing átti sér stað á nýjum yfirráðsvæðum en áfram var ákveðinn munur milli vesturhluta Úkraínu, sem var þjóðernissinnaðari og undir meiri áhrifum frá Mið-Evrópu, og austurhlutans, sem var iðnvæddari og undir meiri rússneskum áhrifum.[1]
Árið 1954 lét Níkíta Khrústsjov, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, færa Krímskaga frá stjórn rússneska sovétlýðveldisins og gerði hann hluta að úkraínska sovétlýðveldinu.[1] Þessi tilfærsla var gerð í tilefni af því að þá voru liðin 300 ár síðan Úkraína og Rússland sameinuðust.[3]
Tíu árum áður höfðu sovésk stjórnvöld flutt um það bil 194.000 innfædda Krímtatara nauðungarflutningum frá Krímskaga, af um 218.000 sem bjuggu þar árið 1939.[4] Sovétmenn vantreystu Krímtöturum þar sem þeir töldu marga þeirra hafa átt í samstarfi við þýska hernámsliðið á tíma seinni heimsstyrjaldar. Í raun höfðu um 20.000 Krímtatarar gengið í sjálfboðasveitir Þjóðverja en um 50.000 höfðu unnið með rauða hernum. Um 42.000 Krímtataranna sem vísað var frá Krímskaga sultu eða létust úr sjúkdómum í lestarvögnum á leið til Mið-Asíu og Síberíu.[4] Mörgum moskum og öðrum byggingum Krímtatara var lokað, þeim eytt eða þeim breytt í hesthús, verslanir eða vörugeymslur.[5]
Stuttu eftir nauðungarflutninga Krímtataranna var jafnframt um 14.500 Grikkjum, 12.000 Búlgörum og 11.300 Armenum vísað burt frá Krímskaga.[6] Á Sovéttímanum jukust rússnesk menningaráhrif á Krímskaga verulega og mjög dró úr áhrifum annarra menningarhópa. Zaporízjzja-kósakkar voru meðal þjóðernishópanna sem höfðu flutt til Krímskaga eftir að Rússar unnu hann af Krímkanatinu árið 1783. Grikkir og Krímtatarar höfðu lengi búið á skaganum en vegna þjóðernishreinsana voru þeir að mestu horfnir þaðan á tíma úkraínska sovétlýðveldisins.
Upplausn Sovétríkjanna og sjálfstæði Úkraínu
[breyta | breyta frumkóða]Í apríl 1986 varð sprenging í kjarnakljúfi kjarnorkuversins í bænum Tsjernobyl í norðurhluta Úkraínu. Afleiðingar slyssins urðu afdrifaríkar. Óhappið leiddi óbeint til aukins upplýsingaflæðis innan Sovétríkjanna (sjá glasnost). Það leiddi jafnframt til þjóðernisendurvakningar meðal Úkraínumanna, sem mörgum varð ljóst hve illa sovésk stjórnvöld tóku á mikilvægum málefnum. Gagnrýni jókst á hina umfangsmiklu menningarlegu og málfarslegu Rússavæðingu í Úkraínu, sér í lagi í mið- og vesturhluta sovétlýðveldisins.[7]
Í þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Sovétríkjanna sem haldin var í mars 1991 sögðust 70,2 prósent íbúa úkraínska sovétlýðveldisins vilja viðhalda Sovétríkjunum. Af öllum níu sovétlýðveldunum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni var þetta þó lægsta hlutfall kjósenda sem sögðust vilja halda Sovétríkjunum við (sex sovétlýðveldi sniðgengu atkvæðagreiðsluna).[8] Valdaránstilraunin í Moskvu í ágúst sama ár gerbreytti hins vegar pólitísku sviðsmyndinni og hraðaði upplausn Sovétríkjanna með því að grafa undan lögmæti miðstjórnar ríkisins. Tök Sovétstjórnarinnar á borgaralegum og hernaðarlegum stofnunum Úkraínu losnuðu eftir því sem leið á árið og þann 24. ágúst 1991[9] lýsti æðstaráð úkraínska sovétlýðveldisins (Vertsjovna Rada) formlega yfir sjálfstæði sovétlýðveldisins. Þegar kosið var um sjálfstæði Úkraínu í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 1. desember sama ár kusu rúmlega 90 prósent kjósenda að staðfesta sjálfstæðisyfirlýsinguna. Landið var í kjölfarið viðurkennt sem sjálfstætt ríki af alþjóðasamfélaginu og sjálfstæði þess varð einn lokahnykkurinn í endalokum Sovétríkjanna.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 "Historia – Den första staten och sovjetperioden (1918–91)". NE.se. Skoðað 22. október 2022.
- ↑ Starr, S. Frederick (1994): The Legacy of History in Russia and the New States of Eurasia, sid 183. M. E. Sharpe, Inc. ISBN 1-56324-352-0. Skoðað 22. október 2022.
- ↑ Bogi Þór Árnason (1. mars 2014). „Gjöfin gæti reynst afdrifarík“. mbl.is. Sótt 22. október 2022.
- ↑ 4,0 4,1 Pohl, J. Otto, The Deportation and Fate of the Crimean Tatars
- ↑ „UNPO: Crimean Tatars: Report“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. október 2022. Sótt 22. október 2022.
- ↑ The Ukrainian Weekly: Crimean Tatars commemorate 62nd anniversary of deportation by Stalin
- ↑ "Historia – Det postsovjetiska Ukraina (1991–)". Geymt 27 febrúar 2014 í Wayback Machine NE.se. Skoðað 22. október 2022.
- ↑ Marples, David A. (2004): The Collapse of the Soviet Union, 1985-1991, s 75. Pearson Education Ltd. ISBN 978-0-582-50599-5. Skoðað 22. október 2022.
- ↑ "VERKHOVNA RADA OF UKRAINE RESOLUTION – On Declaration of Independence of Ukraine". Rada.gov.ua. Skoðað 22. október 2022.