Fara í innihald

Sint-Niklaas

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Lega innan Austur-Flæmingjalands
Upplýsingar
Hérað: Austur-Flæmingjaland
Flatarmál: 83,80 km²
Mannfjöldi: 72.366 (1. janúar 2011)
Þéttleiki byggðar: 864/km²
Vefsíða: [1]
Borgarmynd

Sint-Niklaas er borg í Belgíu, í héraðinu Austur-Flæmingjalandi. Borgin er þekkt fyrir að vera með stærsta markaðstorgið í Belgíu. Íbúar eru 72 þúsund.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Sint-Niklaas liggur nær nyrst í Belgíu, aðeins 10 km fyrir sunnan hollensku landamærin. Næstu stærri borgir eru Antwerpen til norðausturs (20 km), Gent til suðvesturs (30 km) og Aalst til suðurs (35 km). Brussel er 40 km til suðurs. Sint-Niklaas er með fáum stærri borgum Belgíu sem ekki liggja að á eða fljóti, en Schelde rennur aðeins í fimm kílómetra fjarlægð fyrir sunnan borgina.

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerkið sýnir heilagan Nikulás, sem er verndardýrðlingur borgarinnar. Til hægri er mynd af rauðrófu, en sagan segir að Karl V keisari hafi eitt sinn sótt borgina heim ásamt fylgdarliði sínu. Bóndi nokkur vildi heiðra keisarann á markaðstorginu með því að gefa honum rauðrófu, sem keisari þáði og gaf bónda pung af peningum í staðinn. Þegar bóndinn við hliðina sá þetta, ætlaði hann að gefa keisara hest. Keisari þáði hestinn og sagðist ætla að gefa síðari bóndanum mikla gjöf, og rétti honum rauðrófuna. Síðari bóndinn varð mjög vonsvikinn við þetta en varð þó að sætta sig við þessi endalok. Síðan þá hefur rauðrófan verið hluti af skjaldarmerkinu. Því var síðast breytt 1819 og staðfest 1840.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Saga borgarinnar hófst 1217 þegar biskupinn í Tournai reisti kirkju á staðnum til heiðurs heilögum Nikulási en áður hafði svæðið verið landbúnaðarhérað. Síðan myndaðist landbúnaðarbær í kringum kirkjuna, sem hlaut sama nafn og kirkjan. Sint-Niklaas merkir heilagur Nikulás (sem ameríski jólasveinninn er einnig kenndur við). Bærinn lá á hagstæðum stað milli Gentar og Antwerpen, og var hluti af greifadæminu Flandri meðan það hélst. Aldrei var reistur varnarmúr í kringum Sint-Niklaas. 1513 veitti Karl V keisari bænum markaðsréttindi. Blómaskeið Sint-Niklaas var 17. öldin en þá hagnaðist bærinn mikið af vefnaði. Auðurinn fór í að reisa ráðhús og aðrar stórar byggingar, þar á meðal klaustur. 1690 eyddi stórbruni bænum. Velmegunin jókst í tíð Habsborgara á 18. öld. Frakkar hertóku bæinn eftir frönsku byltinguna. Napoleon sjálfur sótti bæinn heim 1803 og veitti honum opinber borgarréttindi. Á tíma iðnbyltingarinnar fór vefnaðurinn halloka. Sint-Niklaas var því ein af fáum borgum í Belgíu sem tapaði á iðnvæðingunni. Í dag eru aðalatvinnuvegir borgarinnar aðallega verslun og ferðamennska.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
Loftbelgjahátíðin á markaðstorginu

Fyrstu helgi í september er haldin loftbelgjahátíð í borginni (Vredesfeesten) og er þá bæði átt við venjulega loftbelgi, sem og risabelgir sem fastir eru á jörðinni. Hátíðin er venjulega tengd þriggja daga tónlistarhátið.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Síðustu helgi ársins er haldið alþjóðlega blakmótið Flanders Volley Gala. Hér er um liðakeppni, ekki landslið, að ræða.

Ronde van Vlaanderen er einsdags hjólreiðakeppni í Belgíu og ein sú vinsælasta í Evrópu. Sint-Niklaas hefur ætíð verið viðkomustöð í þessari keppni. Frá 1977 til 1988 var Sint-Niklaas rásmark í þessari keppni en síðan 1988 er það í Brugge.

Sint-Niklaas viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
  • Markaðstorgið í Sint-Niklaas er það stærsta í Belgíu, enda er það 3,2 hektarar að stærð. Auk þess að vera með markaði á vissum dögum, fara fram ýmsir viðburðir þar allt árið um kring, til dæmis hin árlega loftbelgjahátíð.
  • Nikulásarkirkjan var reist á 13. öld og er elsta bygging borgarinnar. Hún er helguð heilögum Nikulási, verndardýrðlingi og nafngefanda borgarinnar. Kirkjan skemmdist talsvert á siðaskiptatímanum þegar kalvínistar ruddust inn í hana og eyðilögðu helgimyndir. Innviðið var síðan gert upp í barokkstíl.
  • Frúarkirkjan er öllu nýrri kirkjan, en hún var reist 1841-44. Hún skartar sex metra háu Maríulíkneski efst á turninum.
  • Gamla ráðhúsið stendur við markaðstorgið og var reist 1876-78. Við hlið þess er klukknaturn sem er 40 metra hár. Hann er með 35 bjöllur.
  • Mercatorsafnið er einstakt í heiminum en það helgar sig lífi og verki kortagerðamannsins Gerhards Mercators sem fæddist í nágrannabænum Rupelmonde. Í safninu má meðal annars sjá tvö hnattlíkön sem Mercator sjálfur bjó til á 16. öld.