Aalst

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Fáni
Upplýsingar
Hérað: Austur-Flæmingjaland
Flatarmál: 78,12 km²
Mannfjöldi: 81.062 (1. janúar 2011)
Þéttleiki byggðar: 1.038/km²
Vefsíða: [1] Geymt 21 desember 2007 í Wayback Machine
Borgarmynd

Aalst (franska: Alost) er borg í Belgíu. Með 78 þúsund íbúa er hún næststærsta borgin í héraðinu Austur-Flæmingjalandi, á eftir Gent.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Aalst liggur við ána Dender vestarlega í Belgíu. Næstu stærri borgir eru Brussel til suðausturs (25 km), Gent til norðvesturs (25 km) og Antwerpen til norðausturs (60 km). Hollensku landamærin eru 25 km til norðurs, en þau frönsku 50 km til suðvesturs. Aalst liggur í dalverpi við ána Dender og er miðborgin aðeins í 10 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er eilítil hafnaraðstaða fyrir meðalstóra fljótabáta.

Fáni og skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Fáni Aalst samanstendur af þremur lóðréttum röndum (frá vinstri til hægri): Rauð, hvít og gul. Uppsetningin er eins og belgíski eða franski fáninn, nema hvað litirnir hafa verið teknir úr borgarlitunum. Í hvítu röndinni er rautt sverð, sem er elsti hluti skjaldarmerkisins. Skjaldarmerkið sýnir rauða sverðið sem silfursmiðurinn Nicolaas Colijn smíðaði fyrir borgina 1394. Sverðið táknar sjálfstæði borgarinnar, sem og herstyrkur hennar. Til vinstri er tvíhöfða örn þýska ríkisins en til hægri er flæmska ljónið. Skjaldarmerkið eins og það er í dag var samþykkt 1819 og staðfest 1841.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Aalst 1651

Aalst kemur fyrst við skjöl árið 870 og hét kallast þá Villa Alost en Alost er enn franska heiti borgarinnar í dag. Fram á 12. öld var Aalst eigið greifadæmi, en leystist upp í greifadæminu Flandri (Flæmingjalandi) 1166. Í gegnum aldirnar var mikið ræktað af humli í kringum borgina en hann var notaður í bjórgerð. Einnig var mikill vefnaður stundaður í Aalst. 1360 geysaði mikill eldur í borginni, sem nær gjöreyddi henni. 1473 setti Dirk Martens upp fyrstu prentvél Niðurlanda í borginni. Frakkar sátu um Aalst 1578 er þeir áttu í stríði við Spánverja en í þá daga var suðurhluti Niðurlanda eign Spánar. Borgin féll eftir fjóra daga og rifu Frakkar niður borgarmúrana, en hún var frönsk allar götur til 1706. Á því ári töpu Frakkar orrustunni við Ramillies í Belgíu gegn Hollendingum og Englendingum í spænska erfðastríðinu en við það varð Aalst hluti af Flæmingjalandi. Frakkar hertóku borgina á nýjan leik 1795 og héldu henni til 1813 er Prússar hröktu Frakka burt. Aalst var hertekin af Þjóðverjum í heimstyrjöldunum báðum. Við frelsun borgarinnar í september 1944 skemmdist borgin talsvert í götubardögum við bandamenn.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Skrautvagn í karnevalinu í Aalst 2010

Karnevalið í Aalst er ákaflega vinsælt í Belgíu allri. Það er haldið í febrúar og stendur yfir í þrjá daga. Í hátíðinni er karnevalsprins kjörinn og má hann stjórna borginni meðan hátíðin er í gangi. Í skrúðgöngunni eru fólk klætt skrúðklæðum og skrúðvagnar eru dregnir eftir götunum. Hátíðinni lýkur á dúkkubrennu. Karnevalið er á UNESCO-lista yfir meistaraverk munnlegs og óáþreifanlegs arfs mannkyns.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Eendracht Aalst, sem leikur í 1. deild (úrvalsdeild). Besti árangur félagsins er 4. sætið árið 1995.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Aalst viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Ráðhúsið og klukkuturninn eru á heimsminjaskrá UNESCO
  • Gamla ráðhúsið heitir Schepenhuis á hollensku. Það var reist í lok 12. aldar og því elsta ráðhúsið í Belgíu sem enn stendur. Í húsinu er skjalasafn með skjölum sem ná aftur til 12. aldar. Til ráðhússins telur klukkuturn (Belfort) sem reistur var á 15. öld. Þar er klukknaverk með 52 bjöllum. Bæði ráðhúsið og klukknaturninn voru sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1999.
  • Marteinskirkjan átti að verða höfuðdómkirkja fyrir Aalst. Framkvæmdir hófust 1480 og áttu að taka 180 ár. En sökum fjárhagserfiðleika var kirkjusmíðinni hætt 1566 og varð hún aldrei þá stærð sem upphaflega áætlað var. Kirkjan er enn ókláruð í dag. Þó skartaði hún mikið magn listaverka. Flest voru þau þó stolin eða eyðilögð af Spánverjum, Frökkum og jafnvel Hollendingum á 16. öld. Aðeins eitt málverk eftir Peter Paul Rubens varð eftir. 29. mars 1947 braust út eldur í kirkjunni, sem skemmdi hana talsvert. Íbúum í nágrenninu tókst að bjarga málverki Rubens við illan leik. Viðgerðir eru enn í gangi.
  • Gamla Begínuhverfið (Oude Begijnhof) er frá 13. öld og var þá við hliðina á Affligemklaustrinu. Með tímanum hurfu húsin þó eitt af öðru, þannig að í dag standa eingöngu tvö íbúarhús, ein kirkja og ein kapella eftir. Kirkjan heitir Katrínarkirkjan og var reist var 1787. Öll eru húsin friðuð í dag.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

* Fyrirmynd greinarinnar var „Aalst (Oost-Vlaanderen)“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 4. nóvember 2012.