Íslenska sauðkindin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sauðburður)
Pair of Icelandic Sheep.jpg
Oveja islandesa, Grábrók, Vesturland, Islandia, 2014-08-15, DD 098.JPG

Íslenska sauðkindin er sauðfé af stuttrófukyni með norrænum uppruna.[1] Víkingar fluttu með sér meðal annars skandinavískt sauðfé þegar þeir settust að á Íslandi fyrir meira en 1000 árum síðan. Íslenska sauðkindin hefur stutta fætur miðað við önnur sauðkyn og er laus við ull á fótum og andliti. Litir íslensku sauðkindarinnar eru fjölskrúðugir.[2]

Stofninn náði hámarki 1978 og nú eru rúmlega 480.000 kindur á Íslandi. Á 19. öld vaknaði áhugi á ræktun og kynbótum á Íslandi. Það leiddi til sjúkdóma sem íslensku kindurnar eru afar næmar fyrir. Í dag er innflutningur á sauðfé til landsins bannaður vegna sóttvarna. Erfðafræðilega er nútímasauðfé á Íslandi það sama og það var í upphafi byggðar.[3]

Sauðburður[breyta | breyta frumkóða]

Sauðburður vísar til þess þegar sauðkindur fæða lömb á vorin. Talað er um að kindurnar beri, oftast bera þær tveimur lömbum og er þá talað um að þær séu tvílembdar. Sumar bera einungis einu lambi en til er dæmi um að kind hafi borið fimm lömb. Það gerðist til dæmis árið 2002 á bænum Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi.[4] Fyrstu lömbin sem fæðast ár hvert eru gjarnan kölluð lambadrottingin og lambakóngur. Þegar ær ber mörgum lömbum getur orðið erfitt fyrir hana að hafa öll lömbin á spena því hún er einungis með tvo. Ef aðstæður eru þannig að t.d. ær ber einungis einu lambi á svipuðum tíma þá er gjarnan reynt að venja eitt af þrílembingunum undir hana.

Íslenskt lamb með móður sinni.

Fjöldi kinda er mjög misjafn eftir bæjum. Á stórum fjárbýlum er mikil vinna þegar sauðburðartíðin stendur yfir. Ef fjöldi kinda á sama búinu er um 1000 þá telst það mjög stórt fjárbú. Sauðburður er mjög annasamur tími hjá sauðfjárbændum. Þeir þurfa að vera á vakt allan sólarhringinn því stundum eru margar kindur að bera í einu og kindur eiga það til að stela lömbum frá hvor annari. Einnig er nauðsynlegt í flestum tilfellum að setja kindur í stíu fyrstu daganna til að tryggja að lömbin komist á spena. Ef kindin drepst frá lömbunum þá verða lömbin móðurlaus og ef ekki tekst að venja þau undir aðra á, þá verða bændurnir að sjá um að gefa þeim mjólk úr pela. Móðurlaus lömb kallast gjarnan heimalningar. Öll lömb sem komast á legg eru merkt svo hægt sé að vita undan hvaða kind þau eru ef þau verða viðskila við móður sína. Einnig halda bændur bókhald um hversu mörg lömb hver kind bar. Lömb geta verið alla vega á litinn. Algengast er að þau séu hvít eða svört, en þau geta líka verið mórauð, gul eða rauðgul.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Chessa B, Pereira F, Arnaud F, Amorim A, Goyache F, Mainland I, og fleiri (2009). „Revealing the History of Sheep Domestication Using Retrovirus Integrations“ (PDF). Science. 324 (5926): 532–6. Bibcode:2009Sci...324..532C. doi:10.1126/science.1170587. ISSN 0036-8075. PMC 3145132. PMID 19390051. Sótt 9 June 2017.
  2. Hverjir eru íslensku sauðalitirnir og hversu margir eru þeir?“ á Vísindavefnum
  3. Íslenska sauðkindin Morgunblaðið. Sótt 21. febrúar 2012
  4. Ær bar fimm lömbum sem öll lifðu.  (11. Maí 2002) sótt af: [1]