Fara í innihald

Íslenska sauðkindin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sauðburður)

Íslenska sauðkindin er sauðfé af stuttrófukyni af Norður-evrópskum uppruna.[1] Fram á 17. öld var stuttrófufé algengasta kyn sauðkinda um alla norðvestur Evrópu.

Erfðafræðilega er nútímasauðfé á Íslandi það sama og það var í upphafi byggðar [2] og er það skyldast fjárstofnum á Norðurlöndum, færeyska fénu og norska stuttrófufénu (spælsau) enda segja Íslendingasögurnar frá því að landnámsmenn komu með búfénað með sér þegar þeir settust hér að um 900 e. kr.

Íslenska sauðkindin hefur stutta fætur miðað við önnur sauðkyn og er laus við ull á fótum og andliti. Upphaflega var þessi stofn líklega hyrndur [3], en nú er hluti af stofninum kollóttur og hefur verið það að minnsta kosti frá 17. öld .[4]

Litir íslensku sauðkindarinnar eru fjölskrúðugir.[5] Algengasti litur á ull er hvítur, en einnig eru til rauðgul, svört og mórauð ullarhár. Litur á sauðfénu getur fylgt litamynstri, til dæmis botnótt og golsótt en einnig getur íslenskt sauðfé verið tvílitt eða flekkótt.

Stofninn náði hámarki 1978 voru þá um 891.000 kindur á Íslandi, eða um fjórar kindur á hvern íbúa. Árið 2007 var heildarfjöldinn kominn niður í um 450.000[6] og 2022 fjöldinn talin vera 287.000.[7]

Nafngiftir og orðsifjar

[breyta | breyta frumkóða]

Orðin , sauður og sauðfé eru öll gömul í málinu en kind hafði til forna aðra merkingu, það er ‘ætt, kyn’. Talið er að kind í nútímamerkingu sé stytting úr sauðkind, það er ‘sauðarkyn’. Orðið sauður ‘sauðkind, geltur hrútur, ásauður’ er samgermanskt þótt merkingin sé ekki alls staðar hin sama.[8]

Fullorðin kvenkyns kind kallast ær en karlkynið nefnist hrútur. Afkvæmi kinda kallast lömb, hrútlömb eða gimbill eru karlkyns en gimbrar kvenkyns. Geltur hrútur kallast geldingur fyrsta veturinn en síðar sauður. Kindur á fyrsta vetri kallast einu nafni gemlingar eða gemsar.

Samheiti við kind eru ær, rolla og sauðkind.

Móðurlaus lömb sem gefið er úr pela eða flösku kallast heimalningar (heimaalningar) eða heimalingar, heimagangar eða pelalömb. Lömb sem eru móðurlaus en fá ekki mjólk úr pela kallast graslömb.

Innfluttir sjúkdómar

[breyta | breyta frumkóða]

Á 19. öld vaknaði áhugi á ræktun og kynbótum á Íslandi. Voru þá flutt inn sauðfé af erlendum kynjum sem var ætlað til að kynbæta íslenska féð og þá sérstaklega ullina. En innflutta féð bar með sér sjúkdóma sem íslenska féð var óvarið fyrir, en voru landlægir í öðrum löndum. Þetta var t.d fjárkláði, mæðiveiki og riða með innfluttu fé. Í dag er innflutningur á sauðfé til landsins bannaður vegna sóttvarna.

Um aldaraðir voru sauðkindur á Íslandi aðal mjólkurframleiðendur heimamanna. Mjólk úr ám kallast sauðamjólk og sauðaostur er ein af þeim afurðum sem hægt er að vinna úr henni. Sauðamjólk var notuð um aldir á Íslandi og þóttu afurðir úr henni, svo sem smjör, fremri afurðum úr kúamjólk. Með breyttum búskaparháttum hefur þessi hefð nánast glatast að öllu.

Nú er sauðfjárrækt einkum stunduð fyrir kjötframleiðslu. Kindurnar ganga lausar á beitilande eða afrétti yfir sumartíman ásamt lömbunum og er að því leiti einskonar lífrænn sauðfjárbúskapur. Í lok ágúst og í september fara fram smalamennskur og réttir. Þegar lömbunum er slátrað 4-5 mánaða gömlum eru lömbin orðin um 30-40 kg.

Ullin rúin af kindunum, þegar þær eru teknar inn að hausti og svo er tekið það sem er kallað snoð í kringum byrjun mars. Ekki eru þó allir sem taka af kindunum tvisvar heldur láta nægja að rýja einu sinni og kallast það vetrarull.

Ull af íslensku sauðfé skiptist í tvo þræði: innri þræði sem kallast þel og ytri þræði sem kallast tog. Innri þræðirnir eru stuttir, mjúkir og viðkvæmir og einkennast af miklum einangrunareiginleikum. Ytri þræðirnir eru langir, grófir og harðir og hrinda frá sér vatni. Önnur sauðfjárkyn hafa aðra samsetningu ullar, til dæmis er merinó-ull nær eingöngu þel. Ullarhárið er brunaþolið en það brennur ekki heldur bráðnar aðeins við mjög háan hita.

Sauðburður

[breyta | breyta frumkóða]

Sauðburður vísar til þess þegar sauðkindur fæða lömb á vorin. Talað er um að kindurnar beri, oftast bera þær tveimur lömbum og er þá talað um að þær séu tvílembdar. Sumar bera einungis einu lambi en til er dæmi um að kind hafi borið fimm lömb. Það gerðist til dæmis árið 2002 á bænum Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi.[9] Fyrstu lömbin sem fæðast ár hvert eru gjarnan kölluð lambadrottingin og lambakóngur. Þegar ær ber mörgum lömbum getur orðið erfitt fyrir hana að hafa öll lömbin á spena því hún er einungis með tvo. Ef aðstæður eru þannig að t.d. ær ber einungis einu lambi á svipuðum tíma þá er gjarnan reynt að venja eitt af þrílembingunum undir hana.

Íslenskt lamb með móður sinni.

Fjöldi kinda er mjög misjafn eftir bæjum. Á stórum fjárbýlum er mikil vinna þegar sauðburðartíðin stendur yfir. Ef fjöldi kinda á sama búinu er um 1000 þá telst það mjög stórt fjárbú. Sauðburður er mjög annasamur tími hjá sauðfjárbændum. Þeir þurfa að vera á vakt allan sólarhringinn því stundum eru margar kindur að bera í einu og kindur eiga það til að stela lömbum frá hvor annari. Einnig er nauðsynlegt í flestum tilfellum að setja kindur í stíu fyrstu daganna til að tryggja að lömbin komist á spena. Ef kindin drepst frá lömbunum þá verða lömbin móðurlaus og ef ekki tekst að venja þau undir aðra á, þá verða bændurnir að sjá um að gefa þeim mjólk úr pela. Móðurlaus lömb kallast gjarnan heimalningar. Öll lömb sem komast á legg eru merkt svo hægt sé að vita undan hvaða kind þau eru ef þau verða viðskila við móður sína. Einnig halda bændur bókhald um hversu mörg lömb hver kind bar. Lömb geta verið alla vega á litinn. Algengast er að þau séu hvít eða svört, en þau geta líka verið mórauð, gul eða rauðgul.

  1. Chessa B, Pereira F, Arnaud F, Amorim A, Goyache F, Mainland I, og fleiri (2009). „Revealing the History of Sheep Domestication Using Retrovirus Integrations“ (PDF). Science. 324 (5926): 532–6. Bibcode:2009Sci...324..532C. doi:10.1126/science.1170587. ISSN 0036-8075. PMC 3145132. PMID 19390051. Sótt 9. júní 2017.
  2. Íslenska sauðkindin Morgunblaðið. Sótt 21. febrúar 2012
  3. Ólafur R. Dýrmundarsson(1975) Sauðfjárrækt, Hvanneyri, Bændaskólinn á Hvanneyri.
  4. Þorvaldur Thoroddsen (1919) Lýsing Íslands 3. bindi, Kaupmannahöfn, Hið Íslenzka Bókmentafélag, 415 s.
  5. „Hverjir eru íslensku sauðalitirnir og hversu margir eru þeir?“. Vísindavefurinn.
  6. (17 February 2007). Íslenska sauðkindin . Morgunblaðið.
  7. „Búpeningur eftir landsvæðum frá 1980“. PxWeb. Sótt 29. ágúst 2023.[óvirkur tengill]
  8. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=74712
  9. Ær bar fimm lömbum sem öll lifðu.  (11. Maí 2002) sótt af: [1]