Fara í innihald

Vöðuselur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Phoca groenlandica)
Vöðuselur

Ástand stofns
Ástand stofns: Í lítilli hættu
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Ætt: Selaætt (Phocidae)
Ættkvísl: Selaættkvísl (Phoca)
Tegund:
P. groenlandica

Tvínefni
Phoca groenlandica
Erxleben, 1777

Vöðuselur (fræðiheiti: Phoca groenlandica eða Pagophilus groenlandicus) er skjöldóttur selur sem lifir í Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafi. Hann er talsvert algengur flækingur við Ísland. Íslenska nafnið er dregið af því að áður fyrr gengu stórar vöður af þessum sel til Íslands og voru þeir þá veiddir í stórum stíl, en úr þessu dró verulega á 19. öld.

Vöðuselur er svipaður landsel að stærð, um 170 til 180 cm langur fullvaxinn og 120 til 140 kg á þyngd. Fullvaxinn er brimillinn svartskjöldóttur með svartan haus og svartan dindil. Urtan er svipuð á lit en þó heldur ljósari. Ungir selir eru einlitir gráir með svörtum blettum. Vöðuselirnir eru félagslynd dýr og eru oftast margir saman á ferðinni.

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]
Útbreiðsla vöðusels

Vöðuselurinn skiptist í þrjá stóra stofna eftir kæpingarsvæðum. Óljóst er hvort og hvernig þeir blandast utan kæpingartímans.

Vöðuselurinn mjög háður hafís og fylgir honum allt árið. Hann heldur sig gjarnan í rekísbreiðum og að vetrarlagi í jaðri hafíshellunnar.

Æti og lifnaðarhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Vöðuselir éta mest loðnu, síli og síld, en þeir éta einnig þorsk, rækju, ljósátu og smokkfisk. Þeir kafa iðulega allt að 100 metra dýpi.

Vöðuselir fara árlega langar leiðir milli kæpingarstöðva og fæðustöðva, þær lengstu um 2 500 km.

Á kæpingartímanum safnast vöðuselir í stóra hópa með fleiri þúsund dýr á sama stað. Kóparnir fæðast í febrúar lok eða byrjun apríl og eru þá um 80-85 cm á lengd og 10-11 kg á þyngd. þegar kóparnir fæðast eru fæðingarhárin gul á lit en hvítnar á fáeinum dögum. Þegar kópurinn er um tvær og hálfa viku gamall fer hann að fara úr fæðingarhárinu og fær silfurgráan feld með óreglulegu dökku munstri. Við 14 mánaða aldur verða blettirnir stærri og greinilegri. Brimillinn heldur þessu litarfari fram að kynþroska þegar hann fær hin sérstæða svartskjöldótta lit. Urturnar fá hins vegar ekki þennan lit fyrr en um 12 ára aldur. Bæði urtur og brimlar verða kynþroska milli 4 og 6 ára aldur.

Kóparnir eru á spena í um 12 daga og bæta þá sig um 30-40 kg á þeim tíma. Eftir að kópurinn hættir á spena hefur urtan mök við einn eða fleiri brimla og reynir síðan að éta eins mikið og hún getur áður en hún fer úr hárum. Kóparnir far að synda um 4 vikna aldur og sjá um sig sjálfa upp frá því. Brimlarnir halda sig við kæpingasvæði eins lengi og það stendur yfir í von um að geta haft mök við eins margar urtur og færi gefst á. Vöðuselirnir safnast í stóra hópa í apríllok og maí til að fara úr hárum. Á meðan á því stendur, tvær til þrjár vikur, éta selirnir ekkert.

Ísbirnir og háhyrningar eru aðalóvinirnir, fyrir utan veiðimenn, en einnig er viða til að rostungar hafi drepið vöðusel.

Veiði og nyt

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir utan hringanóra hefur vöðuselurinn verið mikilvægasta veiðidýr Inuíta á Grænlandi. Á suðurhluta Grænlands er selveiði aðallega stunduð sem aukastarf sjómanna en á norður og austur Grænlandi og í byggðum Inuíta í Kanada er veiðinn enn aðalstarf árið um kring og er bæði kjötið og skinnin nýtt.

En það eru þó ekki Inuítar sem hafa stundað mest veiði á vöðusel heldur einkum Kanadamenn, Norðmenn og Rússar. Einkum hefur verið sóst eftir kópaskinn áður en þeir færu úr fæðingarhárunum. Algeng veiðiaðferð var að rota kópana og síðan flá þá á staðnum. Hafa miklar deilur staðið um þessa veiðiaðferð þar sem ýmis samtök, t.d. Greenpeace, og einstaklingar hafa sakað veiðimennum að flá kópana lifandi. Þeir hafa hins vegar borið þessar ásakanir af sér sem lygar, en víst er að þessi selveiði getur verið mikið blóðbað þar sem þúsundir sela eru samankomnir til að kæpa.

Vöðuselur á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Vöðuselur sést á Íslandi á veturna og vorin þegar mikill hafís er við landið. Hann er algengur flækingur hér. Áður fyrr komu vöðuselir reglulega, stundum í stórum hópum (eða kjórum eins og stórar selahjarðir voru kallaðar) norðan og vestan. Þótti mikið happ þegar vöðurnar komu að landinu og var mikið lagt á sig til að veiða selinn. Veiðar voru stundaðar á vöðuselum frá miðjum vetri og fram undir páska. Ein af veiði aðferðunum var svo nefnd uppidráp, en þau fólust einfaldlega í því að rota selinn á landi. Önnur veiðiaðferð var kölluð ráarveiði eða skutulveiði og fór þannig fram að selurinn var skutlaður tveimur skutlum, dreginn að bátnum og rotaður. Frá seinustu áratugum 19. aldar hefur lítið verið um vöðusel við Ísland og engar selavöður sem áður tíðkuðust [1].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. http://safn.isafjordur.is/vidhengi/byggda/Safnvisir.pdf Geymt 29 október 2007 í Wayback Machine Safnvísir Byggðasafns Vestfjarða 2005
 • Páll Hersteinsson, ritstj. og aðalhöfundur: Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Vaka-Helgafell, Reykjavík 2004. ISBN 9979-2-1721-9
 • Ronald M. Nowak: Walker's Mammals of the World. Johns Hopkins University Press, 1999 ISBN 0-8018-5789-9
 • Selasetur Íslands
 • Red List: Pagophilus groenlandicus Geymt 24 október 2007 í Wayback Machine
 • Marinbio.org
 • Pinnpeds Geymt 26 maí 2008 í Wayback Machine
 • Norsk Polarinstitutt Geymt 11 september 2007 í Wayback Machine
 • „Hvað geta selir verið lengi í kafi í einu?“. Vísindavefurinn.
 • „Hvað eru margir selir við Ísland?“. Vísindavefurinn.
 • „Er það satt að ísbirnir éti stundum dýr sem eru þrisvar sinnum stærri en þeir sjálfir?“. Vísindavefurinn.