Fara í innihald

Pehr Evind Svinhufvud

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pehr Evind Svinhufvud
Pehr Evind Svinhufvud á millistríðsárunum.
Forseti Finnlands
Í embætti
2. mars 1931 – 1. mars 1937
ForsætisráðherraJuho Sunila
Toivo Mikael Kivimäki
Kyösti Kallio
ForveriLauri Kristian Relander
EftirmaðurKyösti Kallio
Forsætisráðherra Finnlands
Í embætti
4. júlí 1930 – 18. febrúar 1931
ForsetiLauri Kristian Relander
ForveriKyösti Kallio
EftirmaðurJuho Sunila
Í embætti
27. nóvember 1917 – 27. maí 1918
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurJuho Kusti Paasikivi
Ríkisstjóri Finnlands
Í embætti
18. maí 1918 – 12. desember 1918
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurGustaf Mannerheim
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. desember 1861
Sääksmäki, Stórfurstadæminu Finnlandi, rússneska keisaradæminu
Látinn29. febrúar 1944 (82 ára) Luumäki, Finnlandi
ÞjóðerniFinnskur
StjórnmálaflokkurUngfinnski flokkurinn (fyrir 1918)
Samstöðuflokkurinn (frá 1918)
MakiEllen Timgren
BörnPehr Yngve, Ilmo Gretel, Aino Mary Alfthan, Eino Gustaf, Arne Bertel og Veikko Eivind
HáskóliHáskólinn í Helsinki
StarfLögmaður, dómari
Undirskrift

Pehr Evind Svinhufvud af Qvalstad (15. desember 1861 – 29. febrúar 1944) var þriðji forseti Finnlands frá 1931 til 1937. Svinhufvud var lögmaður, dómari og stjórnmálamaður í Stórfurstadæminu Finnlandi, sem þá var sjálfsstjórnarsvæði innan rússneska keisaradæmisins, og lék lykilhlutverk í finnsku sjálfstæðishreyfingunni. Það var Svinhufvud sem lagði fram sjálfstæðisyfirlýsingu Finnlands við finnska þingið árið 1917.[1]

Frá desember 1917 var Svinhufvud fyrsti ríkisstjórnarleiðtogi sjálfstæðis Finnlands sem formaður finnska öldungaþingsins.[1] Hann var leiðtogi ríkisstjórnar hvítliða í finnsku borgarastyrjöldinni á meðan Mannerheim leiddi her þeirra. Eftir styrjöldina varð Svinhufvud fyrsti þjóðhöfðingi Finnlands til bráðabirgða sem ríkisstjóri á meðan unnið var að stofnun finnsks konungsríkis í bandalagi við Þýskaland. Svinhufvud steig til hliðar sem ríkisstjóri á seinni hluta ársins 1918 og Mannerheim tók við. Hann varð síðar forsætisráðherra Finnlands frá 1930 til 1931[2][3] áður en hann var kjörinn forseti. Í forsetatíð sinni lét Svinhufvud bæla niður Mäntsälä-uppreisnina.

Svinhufvud var íhaldsmaður og finnskur þjóðernissinni sem veitti kommúnisma og vinstristefnu almennt harða mótspyrnu. Hann var því ekki forseti sem hlaut náð í augum allrar þjóðarinnar en undir gælunafninu Ukko-Pekka („Pétur frændi“) var hann engu að síður mjög vinsæll.[4] Á fyrstu árunum eftir sjálfstæði var Svinhufvud sér í lagi hrósað fyrir baráttu hans í þágu lagalegra réttinda á tíma rússnesku keisarastjórnarinnar. Eftir hrun Sovétríkjanna á tíunda áratugnum hefur Svinhufvud aftur verið litinn jákvæðari augum.[5]

Pehr Evind Svinhufvud var af sænsku aðalsættinni Svinhufvud af Qvalstad, sem hafði hlotið aðalstign árið 1574. Finnsk kvísl ættarinnar hófst með liðþjálfanum Pehr Gustaf Svinhufvud af Qvalstad, sem settist að í Rapola í Sääksmäki eftir Norðurlandaófriðinn mikla árin 1700-21. Faðir Pehr Evinds, skipstjórinn Pehr Gustaf Svinhufvud, drukknaði þegar sonur hans var tveggja ára gamall. Eftir að afi hans fyrirfór sér og fjölskyldubýlið var selt á nauðungaruppboði flutti Pehr Evind ásamt móður sinni og systur til Helsinki, þar sem móðir hans sá ein fyrir fjölskyldunni.

Pehr Evind gekk í sænskumælandi gagnfræðaskólann Svenska Normallyceum í Helsinki og hóf nám í Háskólanum í Helsinki þegar hann var sextán ára gamall árið 1878. Hann lauk fyrst prófi í sagnfræði og síðan í lögfræði. Eftir að hafa unnið við lögfræðistörf í nokkur ár var hann ráðinn sem aðstóðardómari við áfrýjunardómstól árið 1902. Frá 1891 til 1897 var hann meðlimur í skattalaganefnd finnska landsþingsins. Sem höfuð aðalsættar sinnar hlaut hann sæti í efri málstofu landsþingsins árið 1894.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnmálaferill Svinhufvuds hófst árið 1902 þegar hann tók sér forystuhlutverk í baráttu á móti aukinni Rússavæðingu Finnlands sem keisarastjórnin hafði hafið með febrúar-stefnuskránni árið 1899. Svinhufvud tók þátt í þessari baráttu á mörgum sviðum: Sem dómari, sem meðlimur í leynifélaginu Kagal og sem verjandi sjálfstæðissinnans Lennarts Hohenthal.

Finnska ríkisþingið var endurstofnað árið 1907. Svinhufvud hlaut sæti á þinginu strax sama ár og var kjörinn forseti þess. Beinskeyttar ræður hans á þingi leiddu tvisvar til þess að keisarinn leystu upp þingið, árin 1909 og 1910. Ósveigjanleiki Svinhufvuds leiddi til þess að þingið glataði nokkrum áhrifum og mat á störfum hans hefur því breyst í gegnum árin.

Svinhufvud var handtekinn í nóvember 1914 og var fluttur til Tomsk í Síberíu. Hann sat þar í fangelsi þar til rússneska febrúarbyltingin braust út árið 1917. Svinhufvud dvaldi við tiltölulega frjálslega meðferð í fangavistinni og gat því átt í samskiptum við finnsku jääkäri-hreyfinguna. Honum var fagnað sem hetju þegar hann sneri heim til Finnlands. Frá nóvember 1918 stóð Svinhufvud, sem leiðtogi öldungaþingsins, fyrir viðræðum við nýja sovétstjórn Leníns um aðskilnað Finnlands frá Rússlandi. Hann fól hershöfðingjanum Carl Gustaf Emil Mannerheim, sem hafði snúið heim til Finnlands í desember 1917, að stofna finnskan her upp úr hernaðarhreyfingum hvítliða og herliðum sem höfðu hlotið menntun í Þýskalandi.

Á tíma sjálfstæðisbaráttunnar og finnsku borgarastyrjaldarinnar varð Svinhufvud afhuga fyrri hugmyndum sínum um þingbundið lýðveldi og fór þess í stað að aðhyllast harkalegri stefnu um stofnun finnsks konungsríkis. Hann vildi stuðla að sáttum milli deiluaðila í Finnlandi og veitti því haustið 1918 allt að 36.000 handteknum hermönnum úr röðum rauðliða sakaruppgjöf. Svinhufvud taldi að bandalag við Þýskaland yrði besta tryggingin fyrir varðveitingu á sjálfstæði Finnlands og studdi því að þýskur fursti, Friðrik Karl af Hessen, yrði krýndur konungur Finnlands til að innsigla bandalagið. Svinhufvud sagði af sér sem forsætisráðherra þegar ljóst var orðið að „þýska lausnin“ var orðin ómöguleg í ljósi ósigurs Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni.

Endurkoma í ráðherrastól og forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]
Pehr Evind Svinhufvud, þriðji forseti Finnlands.

Þegar Svinhufvud dró sig úr stjórnmálum varð hann fyrst framkvæmdastjóri lánastofnunarinnar Suomen Vakuus í Åbo og síðar bóndi í Luumäki. Hann var virkur í borgaralegri sjálfboðavinnu en var ekki alveg horfinn úr stjórnmálum: Hann var fyrst tilnefndur forsetaframbjóðandi Samstöðuflokksins árið 1925 en tapaði fyrir öðrum frambjóðanda úr eigin flokki.

Lauri Kristian Relander forseti útnefndi Svinhufvud forsætisráðherra árið 1930, á miklum rósturtíma í Finnlandi. Þetta ár voru allir kommúnískir meðlimir á ríkisþinginu handteknir og forsetinn boðaði til nýrra kosninga. Svinhufvud varð forseti árið 1931 eftir nauman kosningasigur (með 151 atkvæðum gegn 149) í þriðju kosningaumferð. Hann útnefndi Mannerheim leiðtoga þjóðaröryggisráðs og veitti honum víðar valdheimildir til að búa ríkið og herinn undir hugsanlegt stríð.

Reynt var á völd Svinhufvuds í febrúar og mars 1932 þegar borgaraleg varnarlið söfnuðust saman í Mäntsälä, um átta kílómetrum fyrir utan Helsinki. Sveitirnar hugðust ráðast á samkomu sósíaldemókrata. Lappóhreyfingin kynti undir átökin og krafðist þess að ríkisstjórnin segði af sér og sumir háttsettir herforingjar lýstu yfir stuðningi við óeirðirnar. Forsetinn tók sjálfur að sér stjórn hersins, ríkisstjórnarinnar og varnarliðanna og gaf út hranalegt útvarpsávarp þar sem hann skipaði öllum meðlimum varnarliðanna að fara heim. Atburðirnir reyndu líka mjög á persónuleg áhrif Svinhufvuds þar sem sonur hans, Eino, hafði ætlað sér að taka þátt í óeirðunum.

Rikisstjórn Toivo Kivimäki, sem var mynduð eftir Mäntsälä-uppreisnina, sat í fjögur ár. Þetta var lengri tími en flestar fyrri stjórnir Finnlands höfðu enst, og ásamt virku hlutverki forsetans í stjórnarstarfinu stuðlaði þetta að pólitískum stöðugleika og vinnufriði. Í forsetatíð Svinhufvuds var tekin upp norrænni stefna í utanríkismálum.

Eftir þingkosningar árið 1936 bættu jafnaðarmenn við sig miklu fylgi og Svinhufvud féllst því í fyrstu á að veita þeim sæti í ríkisstjórninni. Hann gekk síðar á bak orða sinna um þetta, sem stuðlaði að því að jafnaðarmenn tóku afstöðu gegn honum í forsetakosningum árið 1937, þar sem Svinhufvud tapaði endurkjöri á móti Kyösti Kallio.

Eftir forsetatíð sína hélt Svinhufvud áfram afskiptum af stjórnmálum. Á tíma vetrarstríðsins heimsótti hann Hitler og Mussolini til að reyna að afla stuðnings þeirra en hafði ekki erindi sem erfiði. Eftir upphaf framhaldsstríðsins gaf hann árið 1943 út bækling þar sem hann hvatti til stofnunar „Stór-Finnlands“ með innlimun á landsvæði frá Sovétríkjunum.

Svinhufvud átti sex börn. Hið yngsta, Veikko Eivind Svinhufvud (1908–69) var skógarvörður og þingmaður.[6]

Arfleifð Svinhufvuds í stjórnmálum einkennist af hlutverki hans sem íhaldssamur landsfaðir á síðari árum. Pólitísk eftirmæli hans hafa breyst mörgum sinnum í gegnum árin, og hafa jafnan verið mun betri á tímabilum þegar Finnlandi er talin stafa ógn af Sovétríkjunum eða Rússlandi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Tiistaina 4. p. joulukuuta – Hallituksen puheenjohtajan lausunto Suomen valtiollisen itsenäisyyden toteuttamisesta“. Toiset valtiopäivät 1917, Pöytäkirjat, osa I (finnska). Valtioneuvoston kirjapaino. 1918. bls. 310–311.
  2. „Ministerikortisto“. Valtioneuvosto. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. maí 2009.
  3. „Edustajamatrikkeli“. Eduskunta. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. febrúar 2012.
  4. Kotkaniemen tiluksilla vaalitaan presidentti Svinhufvudin perintöä (á finnsku)
  5. Svinhufvud, Pehr Evind (1861–1944) (á finnsku)
  6. Veikko Svinhufvud


Fyrirrennari:
Lauri Kristian Relander
Forseti Finnlands
(2. mars 19251. mars 1937)
Eftirmaður:
Kyösti Kallio