Fara í innihald

Píus 12.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Píus XII.)
Píus 12.
Píus 12. árið 1951.
Skjaldarmerki Píusar 12.
Páfi
Í embætti
2. mars 1939 – 9. október 1958
ForveriPíus 11.
EftirmaðurJóhannes 23.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. mars 1876
Róm, Ítalíu
Látinn9. október 1958 (82 ára) Castel Gandolfo, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur (með vatíkanskan ríkisborgararétt)
TrúarbrögðKaþólskur
Undirskrift

Píus 12. (2. mars 1876 – 9. október 1958), fæddur undir nafninu Eugenio Maria Giuseppe Giovanni Pacelli, var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1939 til 1958. Píus var páfi á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og framganga hans á stríðsárunum hefur um margt verið umdeild. Andstæðingar Píusar hafa sér í lagi gagnrýnt hann fyrir meint aðgerðarleysi hans á meðan á helförinni stóð og gengið svo langt að uppnefna hann „páfa Hitlers“. Píus á sér þó einnig marga málsvara sem benda á að þótt hann hafi ekki opinberlega fordæmt Hitler eða Mussolini á stríðsárunum hafi kirkjan á páfatíð hans unnið hörðum höndum á bak við tjöldin við að bjarga lífum evrópskra gyðinga.

Eugenio Maria Giuseppe Giovanni Pacelli fæddist þann 2. mars árið 1876 í Róm. Faðir hans var æðsti lögfræðingur páfastólsins og Pacelli-fjölskyldan hafði starfað fyrir Páfagarð í um tvær aldir. Pacelli hlaut grunnmenntun í guðfræði í heimahúsum þar sem hann var talinn of veikburða til að ganga í skóla en tók síðar doktorsgráður í guðfræði, heimspeki og kirkjulögum.[1]

Pacelli gekk ungur í utanríkisþjónustu Páfagarðs og var árið 1911 viðstaddur krýningu Georgs 5. Bretlandskonungs í London sem sendifulltrúi Píusar 10. páfa. Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar tók Pacelli þátt í margvíslegum friðarumleitunum páfans Benedikts 15. milli stríðsaðilanna og þótti standa sig svo vel að árið 1917 var Pacelli vígður erkibiskup[2] og sendur sem sendiherra páfa til Þýskalands. Þegar Spartakistauppreisnin braust út í Þýskalandi við stríðslok gerðu sósíalískir byltingarmenn árás á aðsetur Pacelli vopnaðir vélbyssum en Pacelli tókst að telja þá á að hafa sig á brott og láta hann óáreittan.[1][3]

Árið 1930 útnefndi Píus 11. páfi Pacelli utanríkiskardínála Vatíkansins. Í því embætti ferðaðist Pacelli víða um heim í umboði páfans, meðal annars um alla Evrópu, til Mið-Ameríku og til Bandaríkjanna. Á næstu árum varð Pacelli í auknum mæli nokkurs konar opinber talsmaður og staðgengill páfans eftir því sem heilsu Píusar 11. hrakaði. Þegar Píus 11. páfi lést árið 1939 var Pacelli kjörinn eftirmaður hans í þriðju atkvæðagreiðslu kardínálanna.[1] Pacelli tók sér páfanafnið Píus 12. og varð páfi þann 2. mars, á 63 ára afmælisdegi sínum.[2]

Páfatíð (1939–1958)

[breyta | breyta frumkóða]

Píus varð páfi á miklum rósturtíma í Evrópu. Seinni heimsstyrjöldin hófst sama ár og hann tók við páfastólnum. Þar sem ófriðarblikur höfðu verið á lofti þótti Píus, sem var veraldarvanur og hafði lengi verið nokkurs konar veraldlegur stjórnandi Vatíkansins, vel í stakk búinn til að gæta hagsmuna kaþólikka sem páfi. Þegar styrjöldin braust út gætti Píus þess að taka ekki beina pólitíska afstöðu til ófriðarins og viðhélt formlega pólitísku hlutleysi Vatíkansins.[2] Afstaða Píusar hefur síðar verið umdeild og gagnrýnendur hans hafa einkum fordæmt hann fyrir meint aðgerðaleysi eða fálæti hans gagnvart ofsóknum nasista á gyðingum og öðrum minnihlutahópum á stríðsárunum. Í bókinni Þögn Píusar 12. færði rithöfundurinn Carlo Falconi meðal annars rök fyrir að Píusi hefði verið vel kunnugt um fjöldamorð á rétttrúuðum serbum í Króatíu sem framin voru af þýskri leppstjórn fasistans Ante Pavelić en að Píus hafi svikist undan áskorunum um að mótmæla morðunum formlega.[4] Píus veitti Pavelić persónulega áheyrn í apríl árið 1941 en viðurkenndi aldrei formlega ríkisstjórn hans eins og Pavelić hafði vonast til.[5]

Píus lét vera að fordæma ofsóknir Öxulveldanna gegn gyðingum með beinum hætti. Þegar franska Vichy-stjórnin innleiddi lög til að skerða réttindi gyðinga og leyfa eignarnám á eigum þeirra staðfesti Páfagarður að kirkjan hefði ekkert við þetta að athuga þar sem hún hefði aldrei staðfest þá reglu að allir borgarar hefðu sömu réttindi. Píus fagnaði aftur á móti innrás Þjóðverja í Sovétríkin og lýsti henni í útvarpsávarpi þann 29. júní 1941 sem „göfugmannlegum riddaraskap til varnar grundvelli kristinnar menningar“.[6] Í leikritinu Staðgenglinum eftir þýska leikskáldið Rolf Hochhuth árið 1963 og bókinni Páfi Hitlers eftir John Cornwell árið 1999 var Píus harðlega gagnrýndur fyrir að hafa mætt versta þjóðarmorði sögunnar „með þögninni einni“.[7]

Bréf sem voru gerð opinber árið 2023 benda til þess að Píus hafi árið 1942 fengið ítarlegar upplýsingar um að allt að 6.000 Gyðingar hefðu verið myrtir í gasklefum í Póllandi. Bréfið var frá Lothar Koenig, þýskum jesúítapresti, til Roberts Leiber, ritara Píusar.[8]

Píus á sér aftur á móti marga málsvara og fylgismenn sem telja að gagnrýnin á hendur honum eigi ekki rétt á sér. Þeir benda meðal annars á að hann hafi snemma gefið undirmönnum sínum fyrirmæli um að koma gyðingum til hjálpar svo lítið bæri á.[9][10] Kirkjan hafi þannig bjargað tugþúsundum gyðinga á stríðsárunum með því að veita þeim hæli og annars konar hjálp.[11][12]

Eftir að stríðinu lauk tók Píus virka afstöðu gegn kommúnistastjórnum Austur-Evrópu og sér í lagi gegn ítalska kommúnistaflokknum.[13] Árið 1949 gaf Píus út úrskurð þar sem hann tilkynnti að kaþólskir kommúnistar skyldu bannfærðir fyrir villutrú. Píus sagði þá ákvörðun hafa verið siðferðislegs eðlis og hafa komið til vegna ofsókna kommúnistastjórna gegn kaþólsku kirkjunni.[1]

Píus lést eftir langvarandi veikindi í sumarhöllinni Castel Gandolfo þann 9. október árið 1958 og var jarðsettur í Róm fjórum dögum síðar.[14]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Píus XII. – Páfi hins nýja tíma –“. Samvinnan. 1. maí 1955. Sótt 9. september 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Píus páfi tólfti“. Fálkinn. 26. júní 1958. Sótt 9. september 2019.
  3. „Píus páfi 12“. Kirkjuritið. 1. maí 1956. Sótt 10. september 2019.
  4. „Tómlæti Píusar enn þá gagnrýnt“. Alþýðublaðið. 27. maí 1965. Sótt 10. september 2019.
  5. Mark Aarons and John Loftus. Unholy Trinity bls. 71–72.
  6. Dagur Þorleifsson (14. ágúst 1996). „Páfagarður og síðari heimsstyrjöld“. Tíminn. Sótt 10. september 2019.
  7. Elías Snæland Jónsson (6. nóvember 1999). „Páfinn sem brást“. Dagur. Sótt 10. september 2019.
  8. Róbert Jóhannsson; Hugrún Hannesdóttir Diego (18. september 2023). „Bréf bendir til vitneskju Píusar tólfta páfa um voðaverk nasista“. RÚV. Sótt 18. september 2023.
  9. Encyclopædia Britannica : Reflections on the Holocaust. Sótt 23. júní 2013.
  10. „Páfi verst ásökunum“. DV. 18. janúar 2010. Sótt 10. september 2019.
  11. Bogle, James (31. mars 1996). „The Real Story of Pius XII and the Jews“. Catholic League.
  12. „860,000 lives saved—the truth about Pius XII and the Jews“. National Association of Catholic Families. Autumn 1991. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. desember 2016. Sótt 10. september 2019.
  13. „Píus páfi tólfti“. Tíminn. 8. apríl 1949. Sótt 10. september 2019.
  14. „Rómverskur harmur“. Morgunblaðið. 26. október 1958. Sótt 10. september 2019.


Fyrirrennari:
Píus 11.
Páfi
(2. mars 19399. október 1958)
Eftirmaður:
Jóhannes 23.