Oddur Sigurðsson lögmaður
Oddur Sigurðsson (í lifandi lífi oft nefndur Oddur hinn hávi) (1681 – 5. ágúst 1741) var íslenskur lögmaður á 18. öld og valdamesti maður landsins á árunum 1708 – 1718. Hann var mjög yfirgangssamur skapofsamaður og lá einatt í illdeilum og málaferlum og bar oft hærra skjöld. Árið 1724 var hann dæmdur frá æru, embætti og eignum, en fékk þó uppreisn með konungsbréfi árið 1730. Björn Th. Björnsson segir í bók sinni: Í plógfari Gefjunar að aðrir eins „þverbrestir skapsmuna eru naumast höggnir dýpra í ásýnd nokkurs manns í sögu okkar.“ [1]
Uppruni
[breyta | breyta frumkóða]Hann var sonur Sigurðar Sigurðssonar (1636 – 17. nóvember 1690) prófasts á Staðarstað, sonarsonar Odds biskups Einarssonar, og konu hans Sigríðar Hákonardóttur (1658 – 1733), dóttur Hákonar Gíslasonar sýslumanns í Bræðratungu, sonar Gísla Hákonarsonar lögmanns. Hún bjó lengi ekkja á Rauðamel syðri. Oddur fæddist á Staðarstað, fór ungur í Skálholtsskóla og lærði síðan við Kaupmannahafnarháskóla.
Hann kom heim 1704 en fór út aftur 1706 og fékk þá varalögmannsembætti. Þegar hann kom aftur 1707 ætlaði hann að ganga að eiga unnustu sína, Guðrúnu, sem var dóttir Guðmundar ríka Þorleifssonar í Brokey og konu hans, Helgu dóttur Eggerts ríka á Skarði, en hún dó þá í Stórubólu og öll systkini hennar. Oddur og Guðmundur í Brokey voru í miklu vinfengi og gaf Guðmundur honum meðal annars jörðina Narfeyri þar sem Oddur bjó næstu árin og mikið fé. Lofaði Oddur að ganga honum í sonarstað og átti von á að verða erfingi hans.
Umboðsmaður stiftamtmanns
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1708 fékk Oddur umboð Gyldenløve stiftamtmanns og má segja að næsta áratuginn hafi hann hagað sér eins og hann væri allt að því einvaldur á Íslandi. Það áttu aðrir ráðamenn erfitt með að sætta sig við og Oddur lenti fljótt í deilum við Jón biskup Vídalín og Pál Vídalín út af brauðaveitingum, dómum og fleiru og deildi um sýsluvöld yfir Dalasýslu við Pál Vídalín. Fékk hann Pál dæmdan frá lögmannsembætti 1713 en þremur árum síðar fékk hann embættið aftur.
Á þessum árum gerðist það að Oddur var handtekinn af enskum hvalveiðimönnum sem hann hafði sakað um launverslun og höfðu þeir hann í skipi hjá sér um tíma. Þær sögur gengu eftir á að hann hefði verið geltur og orti Páll Vídalín vísu um það sem Oddur reiddist mjög. Óvíst er hvort nokkuð er til í geldingarsögunni en Oddur var ókvæntur alla ævi. Hann var gáfumaður, vel menntaður og margt vel gefið, en hann var ofsafenginn í skapi og sást ekki fyrir, yfirgangssamur ribbaldi, drykkfelldur og slarksamur. Árið 1713 kom Jón biskup Vídalín við á Narfeyri í vísitasíuferð og settist að drykkju með Oddi, sem lauk með því að Oddur flaug á biskupinn og ætlaði að berja hann. Urðu af því langar málaþrætur.
Drottnunartíma Odds lauk þegar Niels Fuhrmann amtmaður kom til landsins 1718. Gyldenlöve hafði fengið honum stiftamtmannsumboðið en svipt Odd því. Oddur og Guðmundur ríki í Brokey voru þá orðnir ósáttir og vildi Guðmundur endurheimta það sem hann hafði gefið Oddi. Fuhrmann lagði Guðmundi lið og fór svo að honum voru dæmdar aftur mestallar eignirnar sem hann hafði gefið Oddi en þau Brokeyjarhjón arfleiddu Fuhrmann að stórum hluta eigna sinna.
Deilur við Jóhann Gottrup
[breyta | breyta frumkóða]Upp úr 1720 hófust miklar deilur milli Odds og Jóhanns Gottrup um Snæfellsnessýslu og Stapaumboð, sem Oddur hafði lengi haldið án þess að hafa fengið konungsveitingu fyrir því. Þurfti hann að sleppa því en Gottrup tók við. Oddur fór til Kaupmannahafnar til að reyna að rétta hlut sinn en Jóhann lét greipar sópa um eignir hans á meðan, tók sumt undir sig en eyðilagði annað. Þegar Oddur sneri aftur gekk á með stöðugum erjum og átökum á milli þeirra og manna þeirra því báðir höfðu um sig ribbaldaflokka og má segja að skálmöld hafi ríkt á Snæfellsnesi.
Fuhrmann amtmaður vék Oddi úr embætti 1724 og hann var vanvirtur á ýmsan hátt, bæði af Jóhanni og öðrum. Eftir það var hann lengst af hjá móður sinni á Rauðamel og er sagt að hún hafi jafnan æst hann til ófriðar fremur en sátta. Hann sigldi nokkrum sinnum til Kaupmannahafnar og reyndi að rétta hlut sinn og á endanum fékk hann uppreisn æru með konungsbréfi 1730 og var Jóhanni gert að skila honum aftur jörðum og fjórtán fiskibátum. Fljótlega upp úr þessu hægðist um hjá Oddi, enda voru mótstöðumenn hans farnir að týna tölunni og hann orðinn embættislaus og eignalítill. Úr því rættist þó heldur þegar móðir hans dó 1734 og hann erfði hana. Flutti hann þá suður að Leirá í Borgarfirði og bjó þar til æviloka.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Í plógfari Gefjunar; Björn Th. Björnsson, Mál og Menning, 1996, bls. 7
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir. Reykjavík, Prentsmiðja Þjóðólfs og Gutenberg, 1905-1908.
- „Viðskifti Odds Sigurðssonar lögmanns við Jóhann Gottrup sýslumann. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 20. árg 1899“.
Fyrirrennari: Lauritz Gottrup |
|
Eftirmaður: Benedikt Þorsteinsson |