Fara í innihald

Mary Robinson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mary Robinson
Mary Robinson árið 2014.
Forseti Írlands
Í embætti
3. desember 1990 – 12. september 1997
ForsætisráðherraCharles Haughey
Albert Reynolds
John Bruton
Bertie Ahern
ForveriPatrick Hillery
EftirmaðurMary McAleese
Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna
Í embætti
12. september 1997 – 12. september 2002
ForveriJosé Ayala Lasso
EftirmaðurSérgio Vieira de Mello
Persónulegar upplýsingar
Fædd21. maí 1944 (1944-05-21) (80 ára)
Ballina, County Mayo, Írlandi
ÞjóðerniÍrsk
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkurinn (1977–1981)
Óflokksbundin (frá 1981)
MakiNicholas Robinson (g. 1970)
TrúarbrögðKaþólsk
Börn3
HáskóliTrinity-háskólinn í Dyflinni
Harvard-háskóli
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður, erindreki
Undirskrift

Mary Robinson (f. 21. maí 1944) er írskur stjórnmálamaður sem var forseti Írlands frá 1990 til 1997. Hún var sjöundi forseti landsins og fyrsta konan til að gegna því embætti. Eftir forsetatíð sína var hún mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna frá 1997 til 2002.

Mary Robinson fæddist undir nafninu Mary Burke árið 1944 og var dóttir kaþólskra læknishjóna. Foreldrar hennar þóttu tiltölulega frjálslyndir og Mary hlaut uppeldi í samræmi við það. Samband hennar við foreldra sína stirðnaði um hríð árið 1970 þegar hún giftist skopmyndateiknaranum og lögfræðingnum Nicholas Robinson, sem var mótmælendatrúar. Foreldrar Mary mættu ekki í brúðkaup þeirra en sættir tókust með þeim nokkru síðar.[1]

Mary Robinson nam lögfræði við Trinity-háskólann í Dyflinni með góðum árangri. Þegar hún var 25 ára varð hún yngsti lagaprófessorinn í sögu skólans. Robinson sat í efri deild írska þingsins fyrir Verkamannaflokkinn frá 1969 til 1981 og átti auk þess sæti í borgarstjórn Dyflinnar, í Alþjóðanefnd lögfræðinga og ýmsum öðrum lögfræðisamtökum. Hún var jafnframt virk í kvenréttindabaráttu og var fyrsti formaður Samtaka stjórnmálakvenna. Árið 1988 var hún útnefnd „kona Evrópu“.[1]

Sem þingmaður lagði Robinson árið 1970 fram frumvarp um að aflétta banni við getnaðarvörnum á Írlandi, átta árum áður en það varð að veruleika. Hún barðist einnig fyrir því að ákvæði um bann við hjónaskilnaði yrði fjarlægt úr írsku stjórnarkránni og fyrir rýmri heimild til þungunarrofs. Robinson sagði sig úr Verkamannaflokknum árið 1981 vegna deilu um samninga Breta og Íra en náði endurkjöri á írska þingið sem óháður frambjóðandi sama ár.[1]

Forseti Írlands (1990–1997)

[breyta | breyta frumkóða]

Robinson bauð sig fram til forseta Írlands í kosningum árið 1990 og þótti í fyrstu ólíkleg til sigurs.[2] Á kjördag vann hún hins vegar sigur gegn Brian Lenihan, frambjóðanda stjórnarflokksins Fianna Fáil, með 52,8% atkvæða gegn 47,2. Robinson lýsti því yfir að hún hygðist færa forsetaembættið nær almenningi og benti meðal annars á fordæmi Vigdísar Finnbogadóttur Íslandsforseta í þeim efnum.[1] Vegna takmarkaðra valda forsetaembættisins var því í fyrstu spáð að Robinson myndi verða „fangi í garðinum“ á forsetabústaðnum.[3]

Í innsetningarræðu sinni sagði Robinson meðal annars að hún vonaðist til þess að geta fært „hönd kærleika og vináttu“ til stríðandi fylkinga í deilunni á Norður-Írlandi. Árið 1993 vakti mikla athygli þegar Robinson heilsaði Gerry Adams, leiðtoga Sinn Féin, stjórnmálaarms írska lýðveldishersins, með handabandi áður en friðarsamningur hafði verið gerður og á meðan Adams þótti enn „óæskilegur“.[1]

Eitt erfiðasta málið sem kom upp á forsetatíð Robinsons viðkom fóstureyðingum og það hvort fjórtán ára gamalli stúlku sem hafði orðið ólétt eftir nauðgun skyldi heimilað að fara til Bretlands í þungunarrof. Þótt forseta Írlands væri að jafnaði ekki heimilt að tjá sig um svo viðkvæm pólitísk málefni sagði Robinson um málið í ræðu árið 1992 að hún fyndi fyrir „tilfinningalegu hjálparleysi“ vegna þess og að Írland yrði að „færast nær samfélagi þar sem meiri samúð ríkir, [...] taka [sig] á og stuðla að framförum í þessu viðkvæma máli“.[1]

Robinson átti í stormasömu sambandi við Charles Haughey, sem var forsætisráðherra Írlands í byrjun forsetatíðar hennar. Haughey var lítt hrifinn af tilraunum Robinsons til að víkka út forsetaembættið og gera það að andliti og sameiningartákni Írlands. Robinson vann mikilvægan sigur í deilu við Haughey árið 1991 þegar Dalai Lama kom í heimsókn til Írlands. Hún hafði stutt Dalai Lama og sjálfstæðisbaráttu Tíbets á þingmannsárum sínum og vildi því ólm hitta hann, en Haughey vildi ekki að þjóðhöfðingi Írlands fundaði með leiðtoga Tíbets. Robinson gekk hart fram uns Haughey lét til leiðast og gaf henni leyfi til að hitta Dalai Lama. Haughey hrökklaðist úr embætti síðar sama ár og upp frá því bötnuðu samskipti Robinsons við ríkisstjórnina nokkuð.[4]

Verulegar menningarbreytingar urðu á Írlandi á forsetatíð Robinsons og mörgum þótti forsetinn vera táknmynd hins nýja, umburðarlynda frjálslyndissamfélags sem hefði á þessum tíma velt hinu einangraða og íhaldssama kaþólska samfélagi úr sessi.[4] Þrátt fyrir miklar vinsældir ákvað Robinson að bjóða sig ekki fram til endurkjörs þegar sjö ára kjörtímabili hennar lauk og ákvað þess í stað að þiggja útnefningu til að gerast mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. Það þótti til marks um hve miklar breytingar hefðu orðið á Írlandi á forsetatíð hennar að í forsetakosningunum árið 1997 voru fjórar konur í framboði en aðeins einn karlmaður.[5]

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna (1997–2002)

[breyta | breyta frumkóða]

Robinson var formaður mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna frá 1997 til 2002. Hún var í því embætti þegar hryðjuverkin 11. september 2001 voru framin í Bandaríkjunum. Hún barðist fyrir því að hugtakið „glæpur gegn mannkyni“ yrði notað um verknaðinn en mistókst að ná sínu fram.[6]

Sem mannréttindafulltrúi stýrði Robinson ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttamisrétti og útlendingahatur sem haldin var í Durban í Suður-Afríku árið 2001. Erfitt reyndist að ná fram sameiginlegri niðurstöðu á ráðstefnunni því Bandaríkjamenn sniðgengu hana vegna ósættis við að framkoma Ísraela í garð Palestínumanna og hernám Palestínu væri flokkuð sem kynþáttahatur.[7] Arabaríki sem sóttu ráðstefnuna sættu sig hins vegar ekki við að þeirri skilgreiningu yrði breytt. Að lokum var niðurstaða samþykkt þar sem kaflinn sem fjallaði um framgöngu Ísraela sem kynþáttahyggju var fjarlægður en í staðinn var lögð áhersla á slæma stöðu Palestínumanna og réttur þeirra til stofnunar sjálfstæðs ríkis viðurkenndur.[8]

Robinson lét af embætti mannréttindastjóra árið 2002. Eftir störf hennar hjá Sameinuðu þjóðunum var hún um hríð forstöðumaður mannréttindasamtakanna Oxfam[9] og fór fyrir samtökunum „Realizing Rights: Ethical Globalization Initiative“ í New York.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „Forseti fólksins“. Morgunblaðið. 26. maí 1996. Sótt 20. júlí 2019.
  2. Jón Baldvin Hannibalsson (14. nóvember 1990). „Þekktasti og umdeildasti málflutningsmaður Írlands“. Alþýðublaðið. Sótt 21. júlí 2019.
  3. „Mary Robinson, forseti Írlands, reynir að auka áhrif embættisins“. Tíminn. 18. mars 1992. Sótt 21. júlí 2019.
  4. 4,0 4,1 Davíð Logi Sigurðsson (29. nóvember 1998). „Upplýst um deilur við Charles Haughey“. Morgunblaðið. Sótt 21. júlí 2019.
  5. Ásgeir Sverrisson (30. október 1997). „Í fótspor frú Robinson“. Morgunblaðið. Sótt 21. júlí 2019.
  6. 6,0 6,1 Davíð Logi Sigurðsson (16. apríl 2005). „Orðin sem við notum skipta afar miklu máli“. Morgunblaðið. Sótt 21. júlí 2019.
  7. „Tökum framtíðina í okkar eigin hendur“. Dagblaðið Vísir. 1. september 2001. Sótt 21. júlí 2001.
  8. „Samkomulag náðist um lokaályktunina“. Dagblaðið Vísir. 10. september 2001. Sótt 21. júlí 2001.
  9. „Ungbarnadauðinn alvarlegasti vandinn“. Fréttablaðið. 17. apríl 2005. Sótt 21. júlí 2001.


Fyrirrennari:
Patrick Hillery
Forseti Írlands
(3. desember 199012. september 1997)
Eftirmaður:
Mary McAleese
Fyrirrennari:
José Ayala Lasso
Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna
(12. september 199712. september 2002)
Eftirmaður:
Sérgio Vieira de Mello