Fara í innihald

Mary McAleese

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mary McAleese
Mary McAleese árið 2011.
Forseti Írlands
Í embætti
12. september 1997 – 10. nóvember 2011
ForsætisráðherraBertie Ahern
Brian Cowen
Enda Kenny
ForveriMary Robinson
EftirmaðurMichael D. Higgins
Persónulegar upplýsingar
Fædd27. júní 1951 (1951-06-27) (72 ára)
Belfast, Norður-Írlandi
ÞjóðerniÍrsk
StjórnmálaflokkurÓflokksbundin (frá 1997)
Fianna Fáil (fyrir 1997)
MakiMartin McAleese (g. 1976)
TrúarbrögðKaþólsk
Börn3
HáskóliDrottningarháskólinn í Belfast
Trinity-háskólinn í Dyflinni
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður, blaðamaður
Undirskrift

Mary Patricia McAleese (f. 27. júní 1951) er írskur stjórnmálamaður sem var forseti Írlands frá 1997 til 2011. Hún var önnur konan til að gegna embætti forseta landsins á eftir forvera sínum, Mary Robinson. McAleese var fyrsti kvenforseti sögunnar sem tók við embætti af annarri konu.[1] McAleese vann forsetakosningar Írlands árið 1997 og var sjálfkjörin til annars kjörtímabils árið 2004. Í bæði skiptin var hún formlega óflokksbundinn frambjóðandi, en hún hafði áður verið meðlimur í hægriflokknum Fianna Fáil. McAleese er fyrsti forseti Írlands sem hefur komið frá Norður-Írlandi eða frá Ulster.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Mary McAleese fæddist undir nafninu Mary Leneghan árið 1951 í kaþólsku hverfi í Belfast á Norður-Írlandi. Hún fæddist til fremur fátækrar fjölskyldu og ólst upp meðal írskra þjóðernissinna. Fjölskylda hennar neyddist til að flytja til írska lýðveldisins vegna átakanna á Norður-Írlandi.[3] Árið 1975, þegar McAleese var 24 ára gömul, tók hún við kennarastöðu við Trinity-háskóla í Dyflinni sem Mary Robinson hafði áður sinnt. Eftir að hafa kennt lögfræði við háskólann í fjögur ár vann McAleese sem sjónvarpsfréttamaður í tvö ár.[4]

McAleese tók virkan þátt í kvenréttindastörfum á Írlandi og stóð meðal annars fyrir stofnun fyrsta kvennaathvarfsins á Norður-Írlandi. Leiðir skildu hins vegar með McAleese og írskum kvenréttindahreyfingum þar sem McAleese var mótfallin rýmri rétti til þungunarrofs og hjónaskilnaðar. Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1986 barðist McAleese gegn því að lagabreyting til að heimila fráskildum hjónum að giftast á ný yrði samþykkt. Írar höfnuðu lagabreytingunni í atkvæðagreiðslunni en McAleese taldi þá niðurstöðu vera sigur fyrir írskar konur því hjónaskilnaður væri fyrst og fremst „flóttaleið fyrir karlmanninn, möguleiki á að kasta frá sér ábyrgð með samþykki samfélagsins“.[5]

McAleese bauð sig fram til forseta Írlands árið 1997 með stuðningi Fianna Fáil eftir að Mary Robinson forseti ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Í kosningabaráttu sinni boðaði McAleese nokkurs konar blöndu af kaþólskri íhaldssemi og róttækri umbótahyggju. Hún studdi til dæmis áframhaldandi bann við þungunarrofi en studdi aftur á móti einnig frjálslynd stefnumál eins og mannréttindi samkynhneigðra og rétt presta til að ganga í hjónaband. Í kosningabaráttunni sakaði mótframbjóðandinn Derek Nally McAleese um að vera stuðningsmaður Sinn Féin, stjórnmálaarms írska lýðveldishersins. Ásökun hans var byggð á trúnaðarupplýsingum sem hafði verið lekið úr írska utanríkisráðuneytinu en McAleese brást við með því að lýsa yfir að hún myndi aldrei leggja blessun sína við starfsemi hryðjuverkahópa eins og IRA. Þessi atlaga Nally að McAleese kostaði hana ekki fylgi og kann raunar að hafa aukið fylgi hennar.[4]

McAleese vann öruggan sigur í kosningunum með 55,6% atkvæða í annarri umferð. Sem forseti ferðaðist McAleese oft til Norður-Írlands til að blanda geði við landa sína þar og tók gjarnan við norður-írskum gestum á forsetabústaðnum. Hún reyndi einnig að auka sættir milli trúarhópa með því að sækja messu hjá írsku biskupakirkjunni þann 7. desember árið 1997. Kaþólskir íhaldsmenn gagnrýndu McAleese fyrir að sækja messuna en kannanir sýndu þó að meirihluti Íra studdu verknaðinn.[6]

McAleese hlaut ekki mótframboð í forsetakosningum árið 2004 og var því sjálfkjörin til annars sjö ára kjörtímabils. McAleese naut almennra vinsælda meðal Íra og því var lítill vilji meðal stjórnarandstöðuflokkanna til að kosta mótframboð gegn henni.[7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Biography – Mary McAleese“ (enska). Árhúsaháskóli. 3. október 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. apríl 2012. Sótt 21. júlí 2019.
  2. „Irish president's journey from Belfast's Ardoyne to the Aras“ (enska). The Belfast Telegraph. 20. maí 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júlí 2012. Sótt 21. júlí 2019.
  3. „Unfinished business with North Belfast“ (enska). Belfastmedia.com. Sótt 21. júlí 2019.
  4. 4,0 4,1 Ásgeir Sverrisson (30. október 1997). „Í fótspor frú Robinson“. Morgunblaðið. Sótt 21. júlí 2019.
  5. „Hjónabandið á að vara ævina út“. Tíminn. 20. júlí 1986. Sótt 21. júlí 2019.
  6. Communion with non-Catholic Christians: risks, challenges, and opportunities eftir Jeffrey Thomas VanderWilt, bls. 51–3. Collegeville, Minnesota, 2003.
  7. „President would defeat Higgins, poll shows“ (enska). The Irish Times. 7. febrúar 2004. Sótt 22. júlí 2019.


Fyrirrennari:
Mary Robinson
Forseti Írlands
(12. september 199710. nóvember 2011)
Eftirmaður:
Michael D. Higgins