Lugano
Lugano | |
---|---|
Kantóna | Ticino |
Flatarmál | |
• Samtals | 32 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 275 m |
Mannfjöldi | |
• Samtals | 62.792 þúsund (2.013) |
Vefsíða | www.lugano.ch |
Lugano er stærsta borgin í kantónunni Ticino í Sviss með 63 þús íbúa (2013) og er ört vaxandi. Hún er syðsta stóra borgin í Sviss og hefur á síðustu árum þróast í að vera þriðja stærsta bankakerfi landsins.
Lega og lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Lugano liggur við norðanvert Luganovatn, syðst í kantónunni, mitt á milli stóru vatnanna Lago Maggiore og Comovatn. Hún hefur verið flokkuð sem jaðarsvæði ítölsku borgarinnar Mílanó. Næstu borgir eru Locarno til norðvesturs (20 km), Como á Ítalíu til suðausturs (20 km) og Mílanó á Ítalíu til suðurs (80 km).
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Lugano er hvítur kross á rauðum grunni, líkt og danski þjóðfáninn. Bókstafirnir L V G A eru í fjórum hornum merkisins. Þeir eru stytting á borgarheitinu, en bókstafurinn V var áður fyrr notaður fyrir U. Merkið er allar götur frá 12. öld.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Lugano er dregið af latneska orðinu lucus, sem merkir helgur skógur eða bara skógur.
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Elstu heimildir um byggð í Lugano eru um langbarðakonunginn Liutprand, sem eignaði sér ýmis verðmæti þar í bæ árið 724 og færði kirkjunni í Como að gjöf. Á næstu öldum var borgin bitbein milli borganna Como og Mílanó. 1335 náði Visconti-ættin eignarhaldi á borginni og hélst það til 1499,en þá réðust Frakkar inn í hertogadæmið Mílanó. Eftir fransk/ítalska stríðið í upphafi 16. aldar hertóku Svisslendingar héraðið og var það, ásamt borginni, að leppríki. Frakkar voru aftur á ferðinni 1798 og var Lugano þá innlimuð helvetíska lýðveldinu. Stofnuð var kantónan Lugano og varð borgin Lugano þá að höfuðborg hennar. Við endurskipulagningu lýðveldisins 1803 voru kantónurnar Lugano og Bellinzona sameinaðar í nýja kantónu, sem hlaut nafnið Ticino. Þá var ákveðið að borgirnar Lugano, Bellinzona og Locarno skyldu vera höfuðborg Ticino til skiptis í sex ár í senn. Lugano var því höfuðborg 1827 – 33, 1845 – 51 og síðast 1863 – 69. Þetta fyrirkomulag hélst til 1878, er þingið settist endanlega að í Bellinzona. Á síðustu árum hefur Lugano vaxið mjög, bæði við samruna nágrannabæja, sem og við tilflutning nýrra íbúa. Margir bankar eru starfræktir þar (rúmlega 100) og er borgin í dag orðin þriðja stærsta bankaborgin í Sviss. 90% vinnufærra manna starfa í þjónustugeiranum.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]- Íshokkífélagið HC Lugano er árangursríkasta liðið í íþróttinni í Sviss en það hefur sjö sinnum orðið svissneskur meistari (síðast 2006), eftir endurskipulagningu deildarinnar 1985.
- Knattspyrnufélagið FC Lugano er þrefaldur svissneskur meistari (síðast 1949) og þrefaldur bikarmeistari (síðast 1993). Svissneski þjálfarinn Ottmar Hitzfeld lék á yngri árum með félaginu 1978 – 1980.
- Körfuboltaliðið BC Lugano Tigers leikur í efstu deild. Félagið er þrefaldur svissneskur meistari (síðast 2006) og varð bikarmeistari 2001.
Viðburðir
[breyta | breyta frumkóða]- Estival Jazz er Jazz-hátíð sem haldin er árlega í Lugano. Hátíðin stendur yfir í fimm daga og tekur fyrir hin ýmsu afbrigði Jazz tónlistar. Allt í allt er hér um 20 – 30 útitónleika að ræða með nafntoguðum tónlistarmönnum. Hátíðn var fyrst haldin 1979 og er í dag orðin að stærstu Jazz-hátíð Evrópu með um 250 þúsund gesti. Meðal þeirra sem hafa troðið upp á hátíðinni má nefna Miles Davis, Dizzy Gillespie, Keith Jarrett, Ray Charles, B.B. King og marga fleiri.
- Í Lugano fór fram fyrsta söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) árið 1956. Þá sigraði svissneska söngkonan Lys Assia.
Gallerí
[breyta | breyta frumkóða]-
Loftmynd af Lugano
-
Dómkirkjan San Lorenzo
-
Freska í Maríukirkjunni sem sýnir krossfestingu Jesú
-
Lugano og Luganovatn
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Lugano“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2011.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Lugano“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2011.