Fara í innihald

Lier (Belgía)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Fáni
Upplýsingar
Hérað: Antwerpen
Flatarmál: 49,7 km²
Mannfjöldi: 34.123 (1. janúar 2011)
Þéttleiki byggðar: 687/km²
Vefsíða: [1]

Lier (franska: Lierre) er borg í Belgíu og er með 34 þúsund íbúa. Íbúar eru hollenskumælandi. Í borginni eru nokkrar byggingar á heimsminjaskrá UNESCO.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Lier liggur við ána Nete í héraðinu Antwerpen, nyrst í Belgíu. Næstu stærri borgir eru Antwerpen til norðvesturs (10 km), Mechelen til suðurs (10 km) og Turnhout til norðausturs (35 km). Brussel liggur 40 km til suðurs. Hollensku landamærin liggja tæp 30 km til norðurs. Hægt er að sigla frá Lier um Nete og Dijle til Antwerpen en einnig um Albert-skipaskurðinn um nánast allt landið.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Filippus Spánarkonungur og Jóhanna af Kastilíu (í hásætinu) voru gefin saman í Lier
 • 760. Talið er að heilagur Gummarus hafi stofnað borgina þetta árið.
 • 1212 hlaut Lier almenn borgarréttindi.
 • 1225 var hafist handa við að reisa Péturskirkjuna en hún er elsta nústandandi bygging í borginni.
 • 1496 (20. október) er haldið konungsbrúðkaup í Lier, er Filippus hinn fagri og Jóhanna (hin vitskerta) af Kastilíu gengu í hjónaband. Filippus varð síðar fyrsti Spánarkonungur af Habsborgarætt. Einn sona þeirra, Karl, varð síðar Karl V keisari.
 • 1524 flytur Kristján II, konungur Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, til Lier eftir að hafa verið gerður útlægur úr Norðurlöndum. Hann dvelur þar í sex ár.
 • 1914. 9. september funda konungur Belga og yfirmenn belgíska hersins í Lier en þá voru Þjóðverjar að ráðast inn í landið. 5. október fellur Lier í hendur Þjóðverja, sem ræna borgina og brenna hana.
 • 1998 er gamla hverfið Begijnhof, sem og gamla ráðhúsið, sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Gummarushelgigangan er mikil skrúðganga í Lier til heiðurs heilögum Gummarusi, stofnanda og verndardýrðlingi borgarinnar. Gangan fer fram fyrsta sunnudag eftir 10. október árlega. Í göngunni er helgiskrín með líkamsleifum heilags Gummarusar keyrt um götur miðborgarinnar en skrínið vegur heil 800 kg.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er Lierse SK, sem fjórum sinnum hefur orðið belgískur meistari (síðast 1997) og tvisvar bikarmeistari (1969 og 1999). Síðan 2011 leikur Árni Gauti Arason með félaginu.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Gummarusarkirkjan
 • Gummarusarkirkjan er höfuðkirkja borgarinnar og helguð heilögum Gummarusi, verndardýrðlingi borgarinnar. Kirkjan var reist 13781540 í gotneskum stíl og var Rumboltskirkjan í Mechelen fyrirmyndin. Turn kirkjunnar brann niður 1609 og aftur 1702. Hann var endurreistur 1754 í rókókóstíl og er 83 metra hár. Þar er klukknaverk með 52 klukkum sem samanlagt vega 30 tonn. Það var í þessari kirkju sem brúðkaup Filippusar hins fagra og Jóhönnu af Kastilíu fór fram 20. október 1496.
 • Gamla Begínuhverfið (Begijnhof) var reist snemma á 13. öld en sökum eyðileggingar eru mörg húsanna í dag frá 17. öld. Begijnhof var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1998, eins og flest önnur slík hverfi á Niðurlöndum.
 • Zimmerturninn (Zimmertoren) er heiti á klukkuturni í borginni. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann var reistur en 1425 kemur hann við skjöl. Upphaflega var turninn hluti af borgarmúrunum og til stóð að rífa hann á 19. öld. Þegar úrsmiðurinn Louis Zimmer gaf borginni mikið klukknaverk, kallað Jubelklok, sem er bæði tímaklukka og stjörnuúr. Þá var ákveðið að setja klukknaverkið upp í turninum og heitir hann síðan eftir Zimmer. Turninn sjálfur fékk ærlega andlitslyftingu í leiðinni og var verkið allt vígt 29. júní 1930.
 • Gamla ráðhúsið í Lier var í upphafi vefnaðarverslun á 14. öld, en borgarráð fékk aðstöðu í húsinu. 1418 flutti vefnaðarverslunin í annað hús og hefur byggingin síðan þá verið ráðhús borgarinnar. Á 18. öld var byggingunni breytt. 1998 var ráðhúsið og turninn við hliðina sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]