Fara í innihald

Klemens 8.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Klemens VIII)
Steinmynd af Klemens 8. eftir Jacopo Ligozzi 1600-1601.

Klemens 8. (24. febrúar 15363. mars 1605) sem hét upphaflega Ippolito Aldobrandini, var páfi frá 30. janúar 1592 til dauðadags. Hann fæddist í Fano í Marke en fjölskylda hans var frá Flórens.

Hann varð kardináli 1585 og var sendur sem legáti til Póllands þar sem hann átti hlut í því að fá Maximilían 3. erkihertoga látinn lausan en hann var í haldi Pólverja eftir misheppnaða tilraun til að taka völdin eftir lát Stefáns Báthory.

Hann var kjörinn páfi eftir lát Innósentíusar 9. 1591 sem málamiðlun milli óska Filippusar 2. og ítölsku kardinálanna. 1593 tók Hinrik 4. af Navarra upp kaþólska trú til að geta gerst konungur Frakklands. 1595 leysti Klemens hann undan öllum syndum, gagnstætt óskum Filippusar. Á móti aðstoðaði Hinrik Klemens við að bæta hertogadæminu Ferrara við lönd kirkjunnar þegar Alfons 2. hertogi af Ferrara lést barnlaus 1597.

1597 setti hann upp ráðið Congregatio de Auxiliis til að kveða úr um deilu dóminíkana og jesúíta um hlutverk frjáls vilja gagnvart ómótstæðilegri náð og lauk með því að fordæma áherslu molinisma á frjálsan vilja.

Árið eftir, eða 1598, hafði Klemens milligöngu um sáttagerð, Friðsarsamninginn í Vervins, milli Hinriks og Filippusar, sem fól í sér að Filippus kallaði hersveitir sínar burt frá Frakklandi.

1600 var hátíðarár og þrjár milljónir pílagríma komu til Rómar. Það ár staðfesti Klemens dauðadóm yfir Giordano Bruno sem var brenndur á báli 17. febrúar. Fimm árum síðar lést Klemens úr þvagsýrugigt sem hrjáði hann á efri árum. Hans var einkum minnst fyrir stjórnkænsku sína og þá hörku sem hann sýndi sakamönnum og gyðingum.


Fyrirrennari:
Innósentíus 9.
Páfi
(1592 – 1605)
Eftirmaður:
Leó 11.