Júra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Júratímabilið)
Ýmsar tegundir af risaeðlum voru uppi á Júratímabilinu.

Júra er jarðsögulegt tímabil sem nær frá endalokum trías fyrir 201,3 milljón árum til upphafs Krítar fyrir 146 milljón árum. Eins og með önnur jarðsöguleg tímabil eru jarðlögin sem marka upphaf og endi júratímabilsins vel skilgreind en nákvæmum aldursgreiningum skeikar sem nemur 5 til 10 milljónum ára. Júra er miðtímabil miðlífsaldar og er betur þekkt sem tímabil risaeðlanna. Upphaf tímabilsins miðast við trías-júrafjöldaútdauðann. Tveir aðrir fjöldaútdauðaatburðir áttu sér stað á tímabilinu; thouars-útdauðinn fyrir um 183 milljón árum og tíþónútdauðinn undir lok tímabilsins.

Nafngiftin júra kemur frá Alexandre Brogniart eftir miklum sjávarkalksteinslögum í Júrafjöllum þar sem Þýskaland, Frakkland og Sviss mætast. Í upphafi Júratímabilsins hóf risameginlandið Pangea að brotna upp í Gondvana í suðri og Lárasíu í norðri. Við þetta urðu til fleiri strendur og loftslagið varð rakt svo margar af eyðimörkum Tríastímabilsins voru þaktar regnskógum. Dýralíf Tríastímabilsins sem einkenndist af frumeðlum breyttist svo að risaeðlur urðu ríkjandi. Fyrstu fuglarnir komu fram á þessum tíma eftir að hafa þróast frá einni grein kjöteðla. Fyrstu eðlurnar komu einnig fram og fyrstu spendýrin. Krókódílar gerðust vatnadýr. Í höfunum lifðu sæeðlur eins og fiskeðlur og svaneðlur. Flugeðlur voru ríkjandi í lofti.