HS Orka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

HS Orka er orkufyrirtæki í Reykjanesbæ sem annast orkuframleiðslu og raforkusölu. Það var áður hluti af Hitaveitu Suðurnesja. Í maí 2008 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Samkvæmt lögunum bar Hitaveitu Suðurnesja hf. að aðskilja formlega í sérstökum félögum einkaleyfisstarfsemi og samkeppnisstarfsemi. Hitaveitu Suðurnesja hf var skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki, HS Veitur hf sem annast dreifingu á rafmagni, hitaveitu og ferskvatni og HS Orka hf annast orkuframleiðslu og raforkusölu. Lögformlegur aðskilnaður HS Orku hf. og HS Veitna hf. miðast við 1. júlí 2008 en stjórnunarlegur og bókhaldslegur aðskilnaður varð síðar um árið. Á hluthafafundi Hitaveitu Suðurnesja 1. desember 2008 var fyrirtækinu skipt upp þannig að HS orka taldist 73 % en HS veitur 27 % af virði Hitaveitu Suðurnesja. Skipuð var sérstjórn um HS Orku og var Ásgeir Margeirsson stjórnarformaður. Einungis Reykjanesbær og Geysir Green Energy sem áttu 67 % hlutafjárs samþykktu skiptinguna. (Morgunblaðið, 2.des. 2008, bls 4 og 8) Reykjanesbær átti 34%, Geysir Green Energy 32%, Orkuveita Reykjavíkur 16%, Hafnarfjarðarbær 15 % og Grindavík, Garður og Vogar innan við 1 % hvert.

Vorið 2007 var 15,2 % hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja auglýstur til sölu. Hitaveita Suðurnesja hafði allt frá árinu 1998 óskað eftir viðræðum um kaup á hlut ríkisins (Viðskiptablaðið 19.1.2007 Líklegt að forkaupsréttur verði nýttur). Sveitafélögum gaft hins vegar ekki kostur á að kaupa þann hlut því tekið var fram af einkavæðinganefnd fjármálaráðuneytis að sá hlutur yrði aðeins seldur til einkaaðila. Orkuveita Reykjavíkur hafði keypt hlut Grindavíkur í Hitaveitu Suðurnesja og ætlaði að kaupa hlut Hafnarfjarðarbæjar en Samkeppniseftirlit hafði úrskurðað að Orkuveitan mætti einungis eiga 10 % hlut. (Mbl. 21. des. 2008 bls. 6) Í maí 2007 var hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja seldur til Geysis Green Energy fyrir 7,6 milljarða króna.

Saga orkuveitu á Suðurnesjum[breyta | breyta frumkóða]

Árin 1971 og 1972 voru boraðar tvær holur um 5 km norðan Grindavíkur, skammt frá Svartsengi í þeim tilgangi að finna heitt vatn sem nota mætti til húshitunar í Grindavík. Holurnar voru 240 og 403 m djúpar og kom í ljós að þarna var háhitasvæði þar sem hiti var yfir 200° C á undir 1.000 m dýpi og vatnið sem kom úr borholunum var salt með um 2/3 af seltu sjávar. Ekki var því hægt að nýta vatnið beint til húshitunar heldur yrði að koma til varmaskiptistöðvar. Árið 1973 var Svartsengissvæðið rannsakað frekar og boraðar tvær holur 1713 og 1519 m djúpar og gerðar mælingar sem gáfu til kynna að umfang heita vatnsins þarna á um 600 m dýpi væri um 400 ha.

Á fundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 10. september 1973 var skipuð Hitaveitunefnd Suðurnesja og boðaði sú nefnd til undirbúningsstofnfundar Hitaveitu Suðurnesja í Festi í Grindavík 15. desember 1973. Í framhaldi af þessu var Hitaveita Suðurnesja stofnuð en lög um hana voru samþykkt á Alþingi 18. desember 1974 og þau síðan staðfest af forseta Íslands 31. desember 1974. (Lög nr. 100 frá 31. desember 1974) Í 1. grein laganna segir svo:

„Tilgangur fyrirtækisins skal vera að virkja jarðhita í Svartsengi við Grindavík eða annars staðar á Reykjanesi ef hagkvæmt þykir, reisa þar varmaskiptastöðvar og leggja aðveituæðar til þéttbýliskjarna á Suðurnesjum, leggja dreifikerfi og annast sölu á heitu vatni til notenda. Hitaveita Suðurnesja skal reisa kyndistöðvar teljist slíkt nauðsynlegt vegna rekstraröryggis.“

Eignarhlutar í Hitaveitu Suðurnesja skiptust við stofnun þannig að ríkissjóður átti 40% og sveitarfélögin sjö sem þá voru á Suðurnesjum áttu 60% sem skiptust í samræmi við íbúafjölda þann 1. desember 1974.

Raforkulög tóku gildi um áramót 2005-6 þar sem raforkusala var gefin frjáls. Í janúar 2006 fékk Hitaveita Suðurnesja ásamt sex öðrum veitufyrirtækjum (Norðurorku, Orkubúi Vestfjarða, Orkuveitu Húsavíkur, OR, RARIK og Rafveitu Reyðarfjarðar) leyfi iðnaðarráðherra til að stunda raforkuviðskipti óháð dreifisvæði.

Tengdar greinar[breyta | breyta frumkóða]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi fyrirtækjagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.