Guillermo Subiabre

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Guillermo Subiabre.

Guillermo Subiabre Astorga (f. 25. febrúar 1903 - d. 11. apríl 1964) var knattspyrnumaður frá Síle. Hann sem keppti fyrir hönd þjóðar sinnar á Ólympíuleikunum 1928 og fyrstu heimsmeistarakeppninni árið 1930 þar sem hann skoraði tvö mörk.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Guillermo Subiabre fæddist í borginni Osorno þar sem hann hóf að leika með áhugamannaliðinu Rangers F.C. Hann skráði sig í sjóherinn og gekk um leið til liðs við Santiago Wanderers frá Valparaiso, elsta knattspyrnufélag Síle og eitt það elsta í Rómönsku Ameríku. Frammistaðan þar tryggði honum sæti í landsliðinu sem lék á heimavelli í Copa America árið 1926. Þar skoraði Subiabre tvö mörk, í stórsigri á Bólivíu og í tapi gegn Úrúgvæ.

Lykilmaður síleska landsliðsins í keppninni 1926 var framherjinn David Arellano, fyrirliði og markakóngur keppninnar. Hann hafði skömmu fyrr stofnað knattspyrnufélagið Colo-Colo ásamt hópi ungra manna í Santíagó. Kynni þeirra leiddu til þess að Subiabre gekk til liðs við Colo-Colo í kjölfar Suður-Ameríkukeppninnar í árslok 1926 og varð þegar hluti af gríðarsterkri sveit sem var nýbúin að vinna Santíagó-meitarakeppnina, sterkasta knattspyrnumót Síle, án þess að tapa leik.

Colo-Colo réðst í hálfs árs keppnisferð í janúar 1927 þar sem leiknir voru 43 leikir í 8 löndum, í Suður-Ameríku, Norður-Ameríku en flestir þó á Spáni og í Portúgal. Sá sorgaratburður varð um miðbik ferðarinnar að í leik gegn Real Valladolid að David Arellano meiddist alvarlega og lést í kjölfarið vegna innri blæðinga. Keppnisferðinni var þó haldið áfram og tók Subiabre við leiðtogahlutverkinu af hinum fallna félaga.

Subiabre hélt aftur til Evrópu sumarið 1928, í það skiptið til að leika með landsliði Síle á Ólympíuleikunum í Amsterdam. Sautján lið voru skráð til keppni og þurfti Síle því að keppa um laust sæti í 16-liða úrslitunum við Portúgal. Leikurinn tapaðist 4:2. Ferðalagið var þó ekki alveg til einskis því skipuleggjendur settu upp aukakeppni fjögurra liða sem fallið höfðu snemma úr leik. Þar unnu Sílebúar lið Mexíkó 3:1, þar sem Subiabre skoraði þrennu. Í úrslitaleiknum gerðu Síle og Holland 2:2 jafntefli. Eftir leikinn var varpað hlutkesti um hvort liðið teldist sigurvegari. Hollendingar unnu en í ands góðrar íþróttamennsku var ákveðið að afhenda Sílebúum bikarinn.

Tveimur árum síðar mætti Síle til leiks á HM í Úrúgvæ og lenti í eina fjögurra liða riðlinum í keppninni. Í fyrsta leik unnu Sílemenn lið Mexíkó 3:0, þar sem athygli vakti að Subiabre gat ekki dulið óánægju sína í leikslok, þrátt fyrir sigurinn, yfir að hafa ekki náð að skora sjálfur. Í næsta leik skoraði hann eina markið í 1:0 sigri á Frökkum. Við tók hreinn úrslitaleikur gegn Argentínu um sigur í riðlinum. Subiabre náði þar að minnka muninn í 2:1 snemma leiks en Argentína bætti við þriðja markinu og þar við sat.

Subiabre varð þrívegis Santíagó-meistari með Colo-Colo á árunum 1928-30 og var útnefndur heiðursfélagi árið 1934 eftir að hafa lagt skóna á hilluna. Að knattspyrnuferlinum loknum gerðist hann starfsmaður hjá sílesku skattstofunni en átti þó reglulega eftir að koma að málum hjá Colo-Colo sem stjórnarmaður eða þjálfari. Hann lést árið 1964.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]