Real Valladolid

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Real Valladolid Club de Fútbol, S.A.D., einnig þekkt sem Real Valladolid eða bara Valladolid , er spænskt knattspyrnufélag með aðsetur í Valladolid, héraðshöfuðborg Kastilíu og León. Einkennislitir félagsins eru fjólublár og hvítur og hefur svo verið allt frá stofnun þess þann 20. júní árið 1928. Liðið leikur í næstefstu deild á Spáni eftir að hafa fallið úr La Liga í lok leiktíðarinnar 2020-21. Valladolid telst ekki til sigursælustu liða Spánar, það varð deildarbikarmeistari veturinn 1983-84, hefur tvívegis leikið til úrslita í Copa del Rey og þrívegis komist í Evrópukeppni. Aðaleigandi félagsins er brasilíski fyrrum knattspyrnukappinn Ronaldo.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Lið Real Valladolid á upphafsárum félagsins.

Real Valladolid varð til við samruna tveggja félaga, Real Unión Deportiva de Valladolid og Club Deportivo Español, árið 1928 og lék sinn fyrsta kappleik í september sama ár. Liðið komst í fyrsta sinn í efstu deild árið 1948 og varð fyrsta liðið frá Kastilíu og León til að ná þeim árangri. Á sínu öðru ári í hópi þeirra bestu, leiktíðina 1949-50, komst liðið alla leið í úrslitaleik spænska konungsbikarsins en tapaði þar fyrir Athletic Bilbao, 4:1.

Lengst af mátti Valladolid sætta sig við að berjast í neðri hluta La Liga, milli þess sem félagið féll niður í næstefstu deild öðru hvoru. Leiktíðina 1970-71 mátti félagið meira að segja sætta sig við að keppa í þriðju efstu deild. Þessu sífellda flakki milli deilda lauk þó tímabundið þegar Valladolid náði að halda sér í hópi þeirra bestu frá 1980 til 1992. Á þeim árum vann félagið sinn eina stóra titil, með því að leggja Atlético Madrid árið 1984, 3:0 í úrslitum hinnar skammlífu deildarbikarkeppni. Þá komst Valladolid í úrslit spænska bikarsins vorið 1989 en tapaði 1:0 fyrir Real Madrid.

Silfurverðlaunin í bikarnum veittu Valladolid þátttökurétt í Evrópukeppni bikarhafa árið eftir. Þar komst liðið í fjórðungsúrslit og mætti þar stórliði Monaco. Báðum leikjum liðanna lauk með markalausu jafntefli, en að lokum hafði franska liðið betur í vítaspyrnukeppni og komst í undanúrslitin.

Frá aldamótum hefur Real Valladolid sjö sinnum fallið úr efstu deild eða komist upp á nýjan leik. Árið 2018 var tilkynnt um kaup brasilíska markahróksins Ronaldo á meirihluta bréfa í félaginu. Árið 2020 var eignarhluti hans orðinn rúm 80%.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

Copa del Rey:

  • Silfur (2): 1949/1950, 1988/1989