Langlúra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Glyptocephalus cynoglossus)
Langlúra
Þykkvalúra
Þykkvalúra
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki Animalia
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Geisluggar Actinopterygii
Ættbálkur: Flatfiskar Pleuronectiformes
Ætt: Flyðruætt Pleuronectidae
Ættkvísl: Glyptocephalus
Tegund:
G. cynoglossus

Tvínefni
Glyptocephalus cynoglossus
Linnaeus (1758)

Langlúra (fræðiheiti: Glyptocephalus cynoglossus) er flatfiskur af flyðruætt, fremur langvaxinn og þunnur. Hún er stóreyg og ljós-rauðgrá að ofan, en hefur svartar flykrur á neðra borði. Langlúran finnst beggja vegna Atlantshafs, allt í kringum Ísland en langmest sunnan og vestan við landið. Hún er botnfiskur líkt og aðrir flatfiskar og lifir helst á ýmiskonar smádýrum og smáfiskum. Langlúran þykir afbragðs matfiskur og hefur afli á Íslandsmiðum verið á bilinu eitt til tvö þúsund tonn undanfarin ár.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Langlúran er beinfiskur, langur og flatur. Hún hefur lítinn haus, smáan kjaft og tennur hennar eru litlar og þéttstæðar. Hægri hlið hennar er dökk á meðan vinstri hlið hennar er ljós með þéttum svörtum dílum á. Augu langlúrunnar eru stór. Bakuggi hennar byrjar til hliðar við vinstra auga hennar og nær hann aftur að styrlu, en styrtlan er bogadregin í endann, frekar löng og mjó. Vinstra auga langlúrunnar er einnig aftar en það hægra. Hreistur hennar er smátt, og rák hennar er bein nema að hún beygir ofan við eyruggann. Langlúra getur orðið allt að 78 cm. Á Íslandsmiðum hefur þó ekki mælst stærri langlúra en 66 cm. Litur langlúrunnar á hægri hlið er dökkur, rauðgrár eða brúnn.[1]

Heimkynni[breyta | breyta frumkóða]

Heimkynni langlúrunnar eru í Norður-Atlantshafi. Í NA-Atlantshafi lifir hún frá Múrmansk til Noregs, og niður með Noregi inn til Danmerkur. Í Norðursjó lifir hún við Bretland, Færeyjar og Ísland. Í NV-Atlantshafi er hana að finna við Norður-Ameríku og við nýja Skotland. Á Íslandsmiðum er langlúran útbreidd, mest er hún sunnan- og vestanlands, en minna er um hana fyrir austan og norðan.[1]

Lífshættir[breyta | breyta frumkóða]

Langlúran er botnfiskur og vill hún helst halda sig á leir- eða sandbotni. Mesta dýpi sem langlúran hefur fundist á eru 1400 m. Við Ísland er hún þó mest veidd á 25-500 m dýpi. Langlúran þolir breitt hitastig, eða frá -1°C og upp í 10°C. Hrygning langlúrunnar á sér stað í mars og varir fram í júní. Hrygningin fer fram við suður- og vesturströnd Íslands. Egg hennar eru smá og klekjast út á 8 dögum. Lirfurnar eru þá um 5 mm. Þegar seiðin hafa náð 4-5 cm á lengdina hverfa þau til botns. Vöxturinn er hægur og fer eftir aðstæðum, þ.e. hita og fæðu. Hrygnan stækkar hraðar en hængurinn, og er aldur hennar talinn vera allt að 14-16 ára.[1]

Fæða og óvinir[breyta | breyta frumkóða]

Fæða langlúrunnar eru mest burstaormar, smákrabbar, skeldýr og slöngustjörnur. Hún étur þó einnig aðra fiska og þá helst litla fiska á borð við sandsíli og mjóna. Óvinir langlúrunnar er ýmsir ránfiskar á borð við þorsk og ufsa. Ýmis sníkjudýr herja einnig á hana eins og aðra fiska, þá bæði inn og útvortis.[1]

Nytsemi[breyta | breyta frumkóða]

Langlúran hefur verið nýtt hér frá 1986 að einhverju marki, en þá fóru menn að sækja beint í hana og varð aflinn 4600 tonn, en minnkaði strax eftir það. Undanfarin ár hefur hann aukist aftur og er nú um 2200 tonn, en Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til að kvótinn verði ekki meiri en 1600 tonn vegna lélegrar nýliðunar. Langmest af aflanum kemur í net og mest af honum frystur í landi.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson, & Ólafur Karvel Pálsson (1998). Sjávarnytjar. Reykjavík: Mál og menning.
  2. Hreiðar Þór Valtýsson (2008). Main species - Witch flounder. Sótt 27. apríl 2009 frá Icelandic Fisheries[óvirkur tengill].