Friedrich Christian zu Schaumburg-Lippe
Friedrich Christian zu Schaumburg-Lippe | |
---|---|
Fæddur | 5. júní 1906 |
Dáinn | 20. september 1983 (77 ára) |
Menntun | Georg-August-háskólinn í Göttingen |
Flokkur | Nasistaflokkurinn (1929–1945) |
Maki | Alexandra Hedwig zu Castell-Rüdenhausen (g. 1929; d. 1961) Marie Louise af Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg (g. 1962; d. 1969) Helene Mayr (g. 1971) |
Börn | 3 |
Foreldrar | Georg fursti af Schaumburg-Lippe og Marie Anna von Sachsen-Altenburg |
Friedrich Christian zu Schaumburg-Lippe (5. júní 1906 – 20. september 1983) var þýskur aðalsmaður og nasisti sem vann lengi sem aðstoðarmaður þýska áróðursmálaráðherrans Josephs Goebbels á stjórnarárum Adolfs Hitlers.
Árið 1938 gerði sendinefnd þriggja Íslendinga í Berlín Friedrich tilboð um að gerast konungur Íslands eftir áætluð sambandsslit Íslands við dönsku krúnuna. Friedrich tók boðinu alvarlega og þáði það að endingu með því skilyrði að það hlyti velþóknun þýskra stjórnvalda. Goebbels var að orðinu til samþykkur því að Friedrich tæki við konungdómi á Íslandi en utanríkisráðherrann Joachim von Ribbentrop var mótfallinn hugmyndinni og því runnu þessar ráðagerðir út í sandinn og fóru endanlega út um þúfur þegar seinni heimsstyrjöldin braust út og Ísland var hertekið af Bretum. Friedrich hafði þó áfram áhuga á upphefð á Íslandi og kom meðal annars í heimsókn til landsins árið 1973 til að þreifa fyrir sér í þeim efnum.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Friedrich Christian zu Schaumburg-Lippe fæddist árið 1906 í furstahöllinni Palais am Harrl í Bückeburg, sem þá var höfuðstaður furstadæmisins Schaumburg-Lippe innan þýska keisaraveldisins. Friedrich var fimmti og yngsti sonur furstahjónanna Georgs og Maríu Önnu og hlaut hefðbundið uppeldi og menntun sem sæmdi þýskum prinsi á fyrstu æviárum sínum. Kristján 10. Danakonungur var guðfaðir Friedrichs og meðal forfeðra og formæðra sinna gat hann meðal annars talið Friðrik Vilhjálm 1. Prússakonung, Katrínu miklu Rússakeisaraynju og Georg 1. Bretlandskonung.[1] Eftir ósigur Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni var þýska aðalskerfið hins vegar leyst upp og Friedrich var þaðan af sendur í skóla með ótignum þýskum ungmennum.[2]
Eftir grunnskólanám gekk Friedrich í Georg-August-háskólann í Göttingen og kynntist þar Baldri von Schirach, sem síðar átti eftir að verða leiðtogi Hitlersæskunnar. Schirach kynnti Friedrich fyrir hugmyndafræði nasismans, sem leiddi til þess að Friedrich fundaði með nasistaforingjanum Adolf Hitler í München veturinn 1927. Friedrich hreifst af hugsjónum og persónutöfrum Hitlers og hlaut inngöngu í Nasistaflokkinn eftir tveggja ára umhugsunarfrest.[3]
Eftir að nasistar komust til valda í Þýskalandi árið 1933 varð Friedrich persónulegur aðstoðarmaður Josephs Goebbels, áróðursmeistara Nasistaflokksins. Þeir Goebbels urðu nánir vinir og prinsinn fylgdi Goebbels gjarnan í heimsóknir til erlendra ráðamanna til að ljá nasistastjórninni fornan virðingarblæ. Prinsinn stóð með Goebbels í öllum innanflokksdeilum nasista og bakaði sér þannig óvild áhrifamanna á borð við Robert Ley, Joachim von Ribbentrop, Alfred Rosenberg, Heinrich Himmler og Martin Bormann.[4]
Tilboð um konungdóm á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Vorið 1938 áttu þrír Íslendingar fund með Friedrich í þýska áróðursráðuneytinu í Ordenspalais í Berlín. Íslendingarnir sögðust vilja stofna sjálfstætt og óháð konungsríki á Íslandi og gerðu Friedrich það tilboð að gerast konungur þess. Friedrich tók tilboðinu alvarlega og las sér til um sögu og menningu Íslands til að reyna að ákvarða hvort vert væri að taka því. Eftir að hafa íhugað tilboðið svaraði Friedrich Íslendingunum að hann væri reiðubúinn til að gerast konungur Íslands að því gefnu að Adolf Hitler veitti samþykki sitt fyrir því. Friedrich skrifaði formlegt bréf þar sem hann baðst lausnar frá störfum sínum hjá áróðursráðuneytinu svo hann gæti tekið við konungdómi á Íslandi. Í kjölfarið bauð Goebbels Friedrich og konu hans til kvöldverðar á sveitasetri sínu þar sem hann lagði blessun sína við áformin og sendi lausnarbeiðni Friedrichs áfram til þýska utanríkisráðuneytisins.[5] Þar strandaði ráðagerðin hins vegar og nokkrum vikum síðar tilkynnti Goebbels Friedrich að utanríkisráðherrann Joachim von Ribbentrop hefði hafnað áætluninni.[6] Líkur eru á að Goebbels hafi sjálfur ekki tekið hugmyndinni um konungdóm Friedrichs alvarlega en að prinsinn hafi ekki skynjað gamansemi yfirmanns síns yfir málinu.[7] Næsta ár hófst seinni heimsstyrjöldin og allar hugmyndir um að koma þýskum aðalsmanni til konungdóms á Íslandi urðu bersýnilega óframkvæmanlegar eftir hernám Íslands árið 1940.
Í endurminningum sínum, sem komu út árið 1952, nafngreindi Friedrich ekki Íslendingana sem gerðu honum tilboðið en sagði þá hafa verið hljómsveitarstjóra, þekktan rithöfund, og áhrifamann úr íslenska Íhaldsflokknum. Talið er fullvíst að hljómsveitarstjórinn hafi verið Jón Leifs, sem var búsettur í Þýskalandi og hafði árið 1937 talað opinskátt fyrir því í grein í tímaritinu Iðunni að Ísland yrði sjálfstætt konungsríki með eigin konung.[8][9] Nöfn hinna tveggja Íslendinganna eru á huldu. Getgátur um nöfn þeirra eru umdeildar og ekki hægt að færa sönnur á það hverjir voru á ferð.[7] Enginn þessara manna hafði neitt umboð til að bjóða Friedrich konungdóm yfir Íslandi en hugsanlega hafa þeir ímyndað sér að ef til styrjaldar kæmi gætu Þjóðverjar tryggt þennan ráðahag með hervaldi.[10]
Síðari æviár
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1944, þegar gangur styrjaldarinnar var farinn að snúast gegn Þjóðverjum, féll Friedrich í ónáð hjá Nasistaflokknum og var sviptur öllum embættum að tilskipan Hitlers sjálfs. Prinsinn var síðan sendur í útlegð til Austurríkis, þar sem hann var undir eftirliti SD-deildar SS-sveitanna. Óvíst er hvers vegna Friedrich féll í ónáð hjá flokksforystunni en í endurminningum sínum taldi hann að Ley og Bormann hefðu rægt hann við Hitler og bendlað hann við samsæri gegn leiðtoganum.[11]
Við lok stríðsins í maí árið 1945 handtóku bandarískir hermenn Friedrich í Austurríki. Honum var haldið í bandarískum fangabúðum í þrjú ár og hann fenginn til að bera vitni gegn fyrrum samstarfsmönnum sínum við Nürnberg-réttarhöldin.[12] Eftir að prinsinum var sleppt settist hann að ásamt fjölskyldu sinni í Bæjaralandi og skrifaði endurminningar um störf sín hjá þriðja ríkinu þar sem hann kom Hitler og Goebbels einatt til varnar og skellti skuldinni af ódæðisverkum nasista mestmegnis á aðra þýska ráðamenn.[13]
Á síðari æviárum sínum hóf Friedrich bréfaskipti við íslensk stjórnvöld og minnti á tilboðið um konungdóm sem honum hafði verið gert árið 1938. Friedrich gerði sér vonir um að Íslendingar sýndu honum einhverja sæmd, til dæmis með því að sæma hann íslenskum ríkisborgararétti samhliða hinum þýska og skipa hann íslenskan ræðismann ævilangt til þess að styrkja samband Íslands við Vestur-Þýskaland. Jafnframt stakk hann upp á því að stjórn Íslands sæmdi hann séríslenskum aðalstitli, t.d. greifi af Reykjavík (graf von Reykjavík).[14]
Íslensk stjórnvöld tóku tillögum Friedrichs fálega og buðu honum aldrei í heimsókn til landsins. Árið 1973 áréð Friedrich að ferðast til Íslands á eigin vegum til að ganga úr skugga um hvort hann ætti eitthvað þangað að sækja. Prinsinn hlaut hvorki viðhöfn né áheyrn stjórnvalda þegar til landsins var komið og lítið var fjallað um komu hans í íslenskum fjölmiðlum. Friedrich dvaldi í einn sólarhring á landinu og skrifaði upp úr ferðinni stutta bók með titlinum König von Island?, sem hann sendi síðar Kristjáni Eldjárn forseta landsins.[7] Friedrich sneri vonsvikinn heim til Þýskalands og lést árið 1983 í smábænum Bad Reichenhall í Bæjaralandi.[15]
Ritverk
[breyta | breyta frumkóða]- „Der Adel ist tot - es lebe der Adel“ í Woe war der Adel? (Berlín, 1934).[16]
- Deutsche Sozialisten am Werk. Ein sozialistisches Bekenntnis deutscher Männer (Berlin, 1935)
- Gegen eine Welt von Vorurteilen (Reihe: Hirts deutsche Sammlung, 1937)
- Fahnen gegen Fetzen (Berlin, 1938)
- Zwischen Krone und Kerker (Wiesbaden, 1952)
- Souveräne Menschen. Kleine Lebensregeln, grossgeschrieben (Druffel, Leonie am Starnberger See 1955, 1962)
- „Dr. G.“. Ein Porträt des Propagandaministers (Wiesbaden, 1964); (Lizenz für Arndt Kiel 1990)
- Verdammte Pflicht und Schuldigkeit: Weg und Erlebnis 1914-1933 (Leoni am Starnberger See, 1966).[16]
- Damals fing das Neue an. Erlebnisse und Gedanken eines Gefangenen 1945–1948 (Pfeiffer, Hannover, 1969)
- Sonne im Nebel. Aus eigenen Erlebnissen geschildert, als Beweis gegen den Zufall und für die Ordnung allen Seins {H. F. Kathagen, Witten 1970}
- "Als die goldne Abendsonne..." Aus meinen Tagebüchern der Jahre 1933–1937 (Wiesbaden, 1971).[16] Þetta eru útgefnar dagbækur prinsins.
- Ich stehe und falle mit meinem deutschen Volke. Das ist mein Sozialismus!, (1985)
- Was Hitler Really a Dictator? (á ensku og þýsku), þýðing eftir Victor Diodon (Nordwind, 1994).[17]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Örn Helgason (1992). Kóng við viljum hafa!. Reykjavík: Bókaútgáfan Skjaldborg. ISBN 9979571276.
- Tilvísanir
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 102.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 92.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 93-95.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 96.
- ↑ „Þegar Íslendingar vildu fá þýzkan prins fyrir konung!“. Vísir. 3. febrúar 1953. Sótt 13. september 2019.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 90.
- ↑ 7,0 7,1 7,2 Jakob F. Ásgeirsson (1. mars 2010). „Ruglið um þýska prinsinn sem taldi sig kallaðan til konungdóms á Íslandi“. Þjóðmál. Sótt 13. september 2019.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 105.
- ↑ Jón Leifs (1. janúar 1937). „Ísland frá erlendu sjónarmiði“. Iðunn: nýr flokkur. Sótt 13. september 2019.
- ↑ Helgi Hrafn Guðmundsson (23. maí 2014). „The Nazi King of Iceland“ (enska). Reykjavík Grapevine. Sótt 13. september 2019.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 98.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 99.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 100.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 102.
- ↑ Kóng við viljum hafa!, bls. 104.
- ↑ 16,0 16,1 16,2 Gossman, Lionel (2009). Brownshirt Princess: A Study of the "Nazi Conscience". Cambridge: OpenBook Publishers. bls. 158.
- ↑ Prince of Schaumburg-Lippe, Friedrich Christian (1977). Was Hitler Really a Dictator?. Sótt 13. september 2019.