Fara í innihald

Fornegypsk trúarbrögð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hjarta hins látna vegið, úr Dauðrabók skrifarans Hunefers frá tímum nítjándu konungsættarinnar.

Fornegypsk trúarbrögð eru flókin og marglaga fjölgyðistrú sem var mikilvægur þáttur í samfélagi Forn-Egypta. Egyptar til forna trúðu á fjöldann allan af guðum, gyðjum og öðrum goðmögnum sem tengdust náttúrunni með ýmsum hætti. Goðsögur um þessa guði tengjast gjarnan tilteknum náttúrufyrirbærum sem þeim er ætlað að skýra.

Konungar Forn-Egypta, faraóarnir, voru af guðlegum uppruna og dýrkaðir sem guðir bæði í lifanda lífi og eftir dauða sinn. Opinber trúarbrögð landsins snerust mikið um dýrkun konungsins sem var milliliður milli heima manna og guða. Faraó færði guðunum fórnir til að viðhalda jafnvægi náttúrunnar. Opinberar trúarathafnir fóru fram í íburðarmiklum musterum. Stórfenglegar musterisbyggingar, pýramídarnir og heimildir um trúarathafnir sýna að gríðarmikið hefur verið lagt í framkvæmd opinberra trúarbragða svo að á tímabilum virðist líf almennings og yfirstéttarinnar vart hafa getað snúist um nokkuð annað. Utan við opinberu trúarbrögðin var síðan alþýðutrú þar sem almenningur átti sín samskipti við guðina.

Hinir flóknu fornegypsku grafsiðir eru áberandi einkenni fornegypskra trúarbragða. Forn-Egyptar lögðu mikið upp úr því að varðveita fimm hluta sálarinnar svo hún kæmist til undirheima. Upphaflega voru lík grafin beint í sandinn og þornuðu þannig náttúrulega, en þegar tekið var upp á því að setja látna höfðingja í grafhýsi, fundu Forn-Egyptar upp aðferðir við að smyrja líkið og búa til múmíur. Hinn látni var síðan dýrkaður og fórnarathafnir haldnar við grafhýsið í nokkurn tíma eftir andlátið.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Guðir Forn-Egypta eiga sér uppruna í dýraguðum sem voru verndarguðir héraða og bæja á forsögulegum tíma. Þegar elstu konungsættirnar náðu að skapa stórt miðstýrt ríki varð átrúnaður á suma þessa guði að ríkistrú með eigin stofnunum og prestum. Höfuðguðir, miðstöðvar átrúnaðar og völd presta breyttust eftir því hvernig stjórn landsins var háttað í þau þrjú árþúsund sem trúin var við lýði.

Þegar öflugir nágrannar tóku að leggja Egyptaland eða hluta þess undir sig 1. árþúsundið f.Kr. veiktust opinberu trúarbrögðin þar sem þau snerust einkum um dýrkun konungsins. Ptólemajarnir sem ríktu yfir Egyptalandi eftir sigra Alexanders mikla og gerðu helleníska menningu að menningu yfirstéttarinnar, héldu hinum forna átrúnaði við og ýttu undir konungsdýrkunina. Á þeim tíma runnu ýmsir egypskir guðir saman við gríska guði. Þegar Rómverjar lögðu landið undir sig 30 f.Kr. breiddist átrúnaður á ákveðna guði eins og Ísisi út um heiminn.

Koptíska kirkjan var stofnuð í Alexandríu af Markúsi guðspjallamanni árið 42 og kristni breiddist smám saman út þaðan um leið og hinum hefðbundnu trúarbrögðum hnignaði. Þegar kristni varð ríkistrú í Rómaveldi á 4. öld var síðustu leifum hinna fornu opinberu trúarbragða hent. Alþýðutrúin lifði þó áfram nokkurt skeið eftir það.