Waterloo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Borgarmynd
Upplýsingar
Hérað: Vallónska Brabant
Flatarmál: 21,03 km²
Mannfjöldi: 29.731 (1. janúar 2012)
Þéttleiki byggðar: 1414/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]

Waterloo er borg í héraðinu Vallónska Brabant í Belgíu. Íbúar eru 29 þúsund og eru frönskumælandi. Í Waterloo átti sér stað hin fræga lokaorusta Napóleons.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Waterloo liggur miðsvæðis í Belgíu, nálægt landfræðilegri miðju landsins. Næstu stærri borgir eru Brussel til norðurs (15 km), Wavre til austurs (20 km) og Charleroi til suðurs (40 km). Þrátt fyrir nálægð tilheyrir Waterloo ekki höfuðborgarsvæðinu. Þar búa þó margir sem starfa í Brussel. Tæplega sex þúsund útlendingar hafa sest þar að, flest Frakkar, Ítalir, Bandaríkjamenn, Bretar og Skandinavar. Þetta er fólk sem starfar fyrir NATO eða Evrópusambandið, en höfuðstöðvar beggja eru í Brussel. Waterloo er því mjög alþjóðleg borg.

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar sýnir ljónsstyttu á lítilli hæð. Þetta er minnisvarðinn sem reistur var eftir orrustuna frægu við Waterloo 1815 er Napoleon tapaði fyrir Bretum og prússum. Skjaldarmerkið var veitt 3. mars 1914.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Waterloo er germanskt að uppruna, ekki rómanskt. Það merkir flæðiskógur. Water er vatn (sbr. water á ensku, wasser á þýsku). Loo er gamalt heiti yfir skóg á germönsku (sbr. Lohe á þýsku og ley eða leigh á ensku). Framburðurinn er [vaterló] en Íslendingar eru gjarnir á að nota enska framburðinn [voterlú]. Til eru fleiri bæir með sama heiti. Til dæmis er Waterloo til í Kanada (einn í Ontario og einn í Québec), í Ástralíu og víða í Bandaríkjunum. Járnbrautarstöðin Waterloo í London, sem og Waterloo-brúin (Waterloo Bridge) eru nefnd eftir bænum í Belgíu eftir sigur Wellington lávarðs yfir Napoleon.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Orrustan við Waterloo. Málverk eftir William Sadler.

Waterloo kom fyrst við skjöl 1102 og var þá lítill landbúnaðarbær á mikilvægum krossgötum. Bærinn varð hluti af greifadæminu Brabant þegar það var stofnað 1183. Litlar sögur fara af Waterloo næstu aldir og kom bærinn ekki við sögu í evrópskum styrjöldum. 1796 var Waterloo hertekin af Frökkum og innlimað Frakklandi. 1815 varð Waterloo hins vegar nafli heimsins er Napoleon strauk frá eyjunni Elbu og sneri til Parísar. Bandamenn söfnuðu liði og hittu á franska herinn fyrir sunnan Brussel. Englendingar undir stjórn Wellington lávarðs komu að norðan og prússar undir stjórn Blüchers herforingja komu að austan. Napoleon beið ekki boðana heldur réðist á prússneska herinn við Ligny 16. júní. Í orrustunni sigraði Napoleon. En sökum tímaleysis náðu Frakkar ekki að reka flóttann, heldur réðust þeir því næst á enska herinn við Waterloo 18. júní. Í þeirri orrustu hallaði á Englendinga. Á meðan hafði Blücher hins vegar náð að safna her sínum saman aftur og réðist því á austurvæng Frakka í þann mund er Englendingar hófu að láta undan síga. Sameiginlega tókst þeim að sigra Napoleon. Orrustan við Waterloo er ein sú þekktasta á síðari tímum. Á þessum tíma voru íbúar Waterloo aðeins rúmlega 1.500 talsins en eru tæplega 30 þúsund í dag.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Orrustan við Waterloo leikin eftir af áhugamönnum

18. júní fer árlega fram herleikur þar sem orrustan við Waterloo er leikinn eftir. Fólk fer í hermannaföt, frönsk, prússnesk, ensk, og leikur eftir orrustuna frægu. Leikarnir eru öllum opnir.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

ASUB Waterloo er eitt allra besta rugbylið Belgíu. Það hefur fjórtán sinnum orðið belgískur meistari (síðast 1998) og tólf sinnum bikarmeistari (síðast 2009).

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Waterloo viðheldur vinabæjatengsl við eftirfarandi borgir:

Waterloo er auk þess stofnmeðlimur Samtaka Napoleonsborga.

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Minnisvarði um orrustuna við Waterloo
Argenteuil-kastalinn er í dag skandinavískur skóli
  • Ljónahæðin (La Butte du Lion) er helsta kennileiti borgarinnar Waterloo og minnisvarði um orrustuna við Waterloo. Það var Vilhjálmur I, konungur Niðurlanda, sem lét reisa minnisvarðann 1823 á þeim stað þar sem sonur hans, Vilhjálmur prins af Óraníu, særðist í orrustunni. Prinsinn varð síðar Vilhjálmur 2. konungur Hollands. Minnisvarðinn samanstendur af manngerðri hæð og ljóni úr bronsi. Hæðin sjálf er 40 m há og er ummál hennar við jörðu 520 m. Efst er útsýnispallur en til að komast þangað þarf að ganga upp 226 þrep. Ljónið stendur á steinpalli og er úr bronsi. Það er 4,45 m hátt og vegur 28 tonn. Sagt er að styttan hafi verið búin til úr frönskum fallbyssum sem urðu eftir á vígvellinum. Hún var smíðuð í Liege og flutt á prömmum um ár og skurði til Brussel, en þaðan landleiðina til Waterloo. Ljónið er skjaldartákn Hollands og stendur fyrir hugrekki.
  • Château d'Argenteuil er kastali í Waterloo. Hann var reistur 1835 en eyðilagðist í bruna 1847. Hann var því endurreistur 1856-58 og voru þá fagrir kastalagarðir lagðir að auki. Kastalinn var eign De Meeus-ættarinnar, en 1949 keypti belgíska stjórnin hann. Í hann flutti þá húsmæðraskóli en síðan 1992 er kastalinn skandínavískur skóli fyrir þau fjölmörg skandínavísk börn sem í Waterloo búa.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]