Flóðhestur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flóðhestur
Flóðhestur, Hippopotamus amphibius
Flóðhestur, Hippopotamus amphibius
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Klaufdýr (Artiodactyla)
Ætt: Flóðhestaætt (Hippopotamidae)
Ættkvísl: Hippopotamus
Tegund:
H. amphibius

Tvínefni
Hippopotamus amphibius
Útbreiðslusvæði flóðhesta. Grænt er núverandi útbreiðsla, rautt er söguleg útbreiðsla.
Útbreiðslusvæði flóðhesta. Grænt er núverandi útbreiðsla, rautt er söguleg útbreiðsla.

Flóðhestur (fræðiheiti: Hippopotamus amphibius) er klaufdýr og jurtaæta sem lifir í Afríku.

Flóðhesturinn er skyldur dvergflóðhestinum (Choeropsis liberiensis). Mjög mikill stærðarmunur er á þessu tegundum, þar sem flóðhestar eru meðal stærstu landspendýra og geta vegið allt að 3,6 tonn, á meðan dvergflóðhestar vega aðeins um 250 kg.

Að stærðarmuninum undanskildum, þá eru tegundirnar mjög líkar í útliti. Þær hafa báðar mjög stóra hausa, stutta og kubbalega fætur. Húð þeirra er mjög þykk og nærri hárlaus. Kirtlar á húð þeirra innihalda áberandi dældir, en úr þeim seytlar húðin bleiku efni sem hefur oft verið kallaður blóðsviti og verndar húðina fyrir sterkum sólargeislum. Munnur flóðhesta er gríðarstór og eru þeir með stórar skögultennur sem eru áberandi stærri meðal karldýra.

Svæði[breyta | breyta frumkóða]

Aðalbúseta flóðhesta er í djúpum vötnum með góðu aðgengi að vatnagróðri eða beitilandi. Áður fyrr þá voru flóðhestar nær allstaðar fyrir sunnan Sahara eyðimörkina í Afríku en síðustu áratugi hefur þeim verið nær útrýmt að stærstum hluta á því svæði. Það er bara einn stór stofn eftir í dag og hann er hægt að finna á syðsta hluta Nílar í austurhluta álfunnar.

Flóðhesta er þó hægt að finna á mörgum öðrum stöðum í Afríku s.s. í Botswana, Eritrea, Burkina Faso, Senegal, Kenía, Gambía, Rúanda, Chad, Mósambík, Ghana, Tansanía, Malaví, Sambía, Suður-Afríku, Súdan, Kamerún, Svasíland, Mið-Afríkulýðveldið, Austur-Kongó, Úganda og Tógó.

Flóðhestar í dýragarði.

Æxlun[breyta | breyta frumkóða]

Flóðhestar æxlast allt árið um kring. Rannsóknir hafa samt sýnt að algengasti æxlunartíminn er í kringum febrúar og ágúst mánuði og meðgöngutíminn hjá kúnum er u.þ.b. 8 mánuðir. Kálfarnir fæðast í október og apríl þegar að regntíminn er liðinn og gróðurinn farinn að blómstra. Kýrin er einungis frjó í þrjá daga og æxlast með karldýrinu á þeim tíma.

í meira en 95% tilvika þá kemur aðeins einn kálfur undir og verður hann í kringum 27-50 kg við fæðingu.

Lifnaðarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Flóðhestar eru dýr sem að halda sér oftast í hópum og getur hver hópur verið í kringum 30 dýr en það er þó ekki algilt og ekki óalgengt að þeir haldi sig út af fyrir sig. Í hverjum hóp er oftast eitt karldýr sem makast við nær allar kýrnar og sér til þess að önnur karldýr yfirtaki ekki svæðið hans.

Hjörð af flóðhestum.

Flóðhestar eru að mestu leyti næturdýr og eru oft sofandi á daginn og fara á beit á nærliggjandi graslendi að næturlagi. Þeir geta ferðast allt að 3 km frá sínu vatnsbóli til þess að komast á heppilegra beitarsvæði. Flóðhestar hafa aðlagað sig vel að lífi í vatni og eru ansi liprir í kafi. Þeir geta hins vegar verið ansi klunnalegir á landi en geta þó sprett úr spori ef þeir styggjast.

Þótt flóðhestar eru nær alfarið jurtaætur þá gleypa þeir einstaka sinnum smádýr sem verða á vegi þeirra auk þess að leggja sér hræ til munns.

Þótt að flóðhestar líti út fyrir að vera mjög rólegir og silalegir þá eru þeir mjög árásargjarnir og þola mjög illa þegar að óviðkomandi einstaklingar koma nærri hjörðinni. Talið er að flóðhestar drepi í kringum 400 manns ár hvert eða fleiri dauðsföllum í Afríku en nokkur önnur spendýr. Langflestir þeirra sem hafa látið lífið af völdum flóðhesta eru veiðimenn sem hafa hætt sér of nálægt flóðhestum á smábátum sínum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Jón Már Halldórsson, 2006, Eru flóðhestar hættulegir?, Vísindarvefurinn, Skoðað 29.11.2018: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6045

Jón Már Halldórsson, 2009, Getur þú frætt mig um flóðhesta?, Vísindarvefurinn, Skoðað 29.11.2018: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=51948

Naomi Millburn, WHERE ARE HIPPOS MOSTLY FOUND?, Pets on mom.me, Skoðað 29.11.2018: https://animals.mom.me/hippos-mostly-found-2253.html



  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.