Fáni Albaníu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Albaníu

Fáni Albaníu er rauður fáni með mynd af svörtum tvíhöfða erni í miðjunni. Rauði liturinn táknar hugrekki, styrk og hreysti en tvíhöfða örninn táknar fullvalda ríkið Albaníu. Fáninn var lýstur þjóðfáni Albaníu þegar landið hlaut sjálfstæði sitt frá Tyrkjaveldi árið 1912.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Kastrioti-aðalsættarinnar.[1] Sagan segir að Gjergj Kastriot Skanderbeg hafi flaggað rauðum fána með svörtum erni yfir Krujë.[2]

Í herförum Jóhanns Hunyadi í Niš árið 1443 svikust Skanderbeg og nokkur hundruð Albanir undan merkjum Tyrkjasoldáns og gengu til liðs við Ungverjana. Í 25 ár vann Skanderbeg frækna sigra gegn Tyrkjum. Hann tók upp tvíhöfða örn Býsansríkisins sem eigin einkennisfána og hlaut viðurnefnið Athleta Christi frá páfanum vegna hernaðarsigra sinna.[3] Á miðöldum notuðu ýmsar albanskar aðalsættir örninn á skjaldarmerkjum sínum og örninn varð smám saman tákn Albana allra.[4] Skjaldarmerki Kastrioti-ættarinnar, sem sýndi svartan tvíhöfða örn á rauðum fleti, varð frægt þegar Skanderbeg leiddi uppreisn gegn Tyrkjaveldi og vann sjálfstæði Albaníu frá 1443 til 1479. Þetta varð fáni Lezhë-bandalagsins, sem varð fyrsta sameinaða albanska ríkið á miðöldum og elsta þing heims sem enn varðveitir skjöl sín.[5][6][7][8]

Á 18., 19. og 20. öld tóku albanskir þjóðernissinnar tvíhöfða örninn upp á ný sem einkennismerki sjálfstæðisbaráttu þeirra undan Tyrkjaveldi.[9][4] Þann 28. nóvember 1912 var sjálfstæðisyfirlýsing Albaníu lesin upp í Vlora og fáninn, sem Ismael Qemali dró að húni, var tekinn upp sem þjóðfáni nýja ríkisins.[9][4]

Albanska fánanum hefur verið breytt mörgum sinnum við stjórnarskipti í landinu. Á ríkisárum Zogs konungs (1928–1939) var kórónu bætt inn á fánann en við hernám Ítala í Albaníu var fasískur axarvöndur settur í staðinn. Eftir seinni heimsstyrjöldina setti kommúnistastjórnin fimmarma gullna stjörnu inn á fánann en hann var fjarlægður þann 7. apríl 1992 eftir hrun kommúnismans í Albaníu.

Skipsfánar Albaníu eru frábrugðnir hinum almenna þjóðfána. Kaupskipsfáninn samanstendur af þremur lóðréttum borðum í rauðum, svörtum og rauðum lit. Herskipsfáninn er svipaður þjóðfánanum nema hvað örninn er á hvítum fleti og rauð lína liggur yfir neðri hluta fánans. Örninn á albanska fánanum er sýndur á báðum hliðum albönsku fimm leka myntarinnar sem slegin var árin 1995 og 2000.[10]

Frá árinu 1969 flögguðu albanskir íbúar í Kósovó gjarnan albanska fánanum.[11] Fáninn var einkennismerki hins óviðurkennda Kósóvulýðveldis á tíunda áratuginum. Núverandi lýðveldið Kósovó notar annan fána sem var valinn til að forðast að hygla einu tilteknu þjóðarbroti líkt og fánar Bosníu og Hersegóvínu og Kýpur.

Litir[breyta | breyta frumkóða]

Rauður Svartur
RGB 255/0/0 0/0/0
Sextánundakerfi #FF0000 #000000
CMYK 0/100/100/0 0/0/0/100

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Hodgkison, Harry (2005). Scanderbeg: From Ottoman Captive to Albanian Hero. ISBN 1-85043-941-9.
 2. The Flag Bulletin (enska). Flag Research Center. 1. janúar 1987. „History records that the 15th century Albanian national hero, Skanderbeg (i.e. George Kastriota), had raised the red flag with the black eagle over his ancestral home, the Fortress of Kruje“
 3. Mucha, Crampton & Louda 1985, bls. 36.
 4. 4,0 4,1 4,2 Elsie 2010, "Flag, Albanian", bls. 140: "The eagle was a common heraldic symbol for many Albanian dynasties in the Late Middle Ages and came to be a symbol of the Albanians in general. It is also said to have been the flag of Skanderbeg...As a symbol of modern Albania, the flag began to be seen during the years of the national awakening and was in common use during the uprisings of 1909-1912. It was this flag that Ismail Qemal bey Vlora raised in Vlora on 28 November 1912 in proclaiming Albanian independence."
 5. Matanov 2010, bls. 363.
 6. Pickard & Çeliku 2008, bls. 16.
 7. Schmitt 2009.
 8. „Kuvendi i Lezhës (1444)“. letersia.fajtori.com (albanska).
 9. 9,0 9,1 Elsie 2001, "Eagles", bls. 78.
 10. „Albanian coins in circulation – Issue of 1995, 1996 and 2000“. Bank of Albania. 2004–2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2009. Sótt 9. mars 2012.
 11. Malcolm 1998, bls. 325.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]