Innrás Ítala í Albaníu
Innrás Ítala í Albaníu | |||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Hluti af millistríðsárunum | |||||||
Ítalskir herbílar í Albaníu. | |||||||
| |||||||
Stríðsaðilar | |||||||
Ítalía | Albanía | ||||||
Leiðtogar | |||||||
Benito Mussolini Alfredo Guzzoni Giovanni Messe Ettore Sportiello |
Zog 1. Xhemal Aranitasi Abaz Kupi Mujo Ulqinaku † | ||||||
Fjöldi hermanna | |||||||
22.000 hermenn 400 flugvélar[1] 2 orrustuskip 3 þungbeitiskip 3 léttbeitiskip 9 tundurspillar 14 tundurskeytabátar 1 tundurduflaskip 10 hjálparskip 9 flutningaskip |
8.000 hermenn[2] 5 flugvélar 3 tundurskeytabátar | ||||||
Mannfall og tjón | |||||||
Hugsanlega 700 látnir (samkvæmt Fischer)[3] 12–25 látnir (að sögn Ítala)[3][4] 97 særðir[4] |
Líklega fleiri en 700 látnir (samkvæmt Fischer)[5] 160 látnir og nokkur hundruð særðir (samkvæmt Pearson)[4] 5 flugvélar 3 tundurskeytabátar |
Innrás Ítala í Albaníu var stutt innrásarstríð sem Konungsríkið Ítalía hóf gegn Konungsríkinu Albaníu árið 1939. Stríðið var afrakstur af heimsvaldastefnu ítalska forsætisráðherrans og einræðisherrans Benito Mussolini. Albanía var fljótt sigruð, albanski konungurinn Zog 1., flúði í útlegð til Grikklands og landið varð hluti af ítalska heimsveldinu sem verndarsvæði í persónusambandi við ítölsku krúnuna.
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Benito Mussolini og tengdasonur hans, utanríkisráðherrann Galeazzo Ciano greifi, höfðu sammælst um að stefnt skyldi að innlimun Albaníu í júní 1938 „um leið og aðstæður leyfðu“. Ciano hafði sérstakan áhuga á að gera innrás í Albaníu og átti frumkvæði að því að undirbúa hana. Hann sá jafnframt um að treysta tengsl Ítala við Júgóslava og Ungverja í aðdraganda hennar.[6]
Áhugi ítölsku stjórnarinnar á Albaníu jókst sér í lagi eftir ráðstefnuna í München árið 1938, þar sem Bretar og Frakkar leyfðu Þjóðverjum að leggja undir sig Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu. Eftir ráðstefnuna bauð Adolf Hitler Mussolini að ganga formlega í hernaðarbandalag við Þýskaland og Mussolini taldi ekki annað koma til greina en að þiggja boðið. Áður en af bandalaginu yrði vildu Ítalir hins vegar reyna að fyrirbyggja framráðs Þjóðverja á Balkanskaga og tryggja eigin hernaðarlega nærveru þar.[6]
Ítalir höfðu gert samninga við Albana árin 1926 sem gerðu landið að ítölsku verndarríki og fólu Ítölum hlutdeild í vörnum landsins. Albanía var því mjög háð Ítalíu en Zog Albaníukonungur hafði þó reynt frá árinu 1931 að takmarka áhrif Ítala í landinu með því að vingast við Júgóslavíu. Árið 1936 neyddist Zog hins vegar til að gera vináttusamning við Ítala sem setti albanska herinn undir eftirlit Ítala. Í mars sama ár gerðu löndin samning um fjármál, viðskipti og efnahagsmál. Árið 1938 fengu Ítalir einkarétt á allri utanríkisverslun Albana.[6]
Eftir margra mánaða umræður var ákveðið að gera innrás í Albaníu í febrúarbyrjun 1939 en Mussolini tvísté lengi og lét fresta fyrirætlunum. Þann 25. mars 1939 sendu Ítalir Zog konungi úrslitakosti og kröfðust þess að fá að setja herlið á land í Albaníu hvenær sem þeim sýndist, að Ítölum yrði fengin umsjón með öllum víggirðingum, vegum, brúm og höfnum í landinu, að Ítalir með búsetu í Albaníu fengju öll sömu réttindi og Albanir, meðal annars rétt til að gegna ráðherrastöðum, að ítalskir fulltrúar fengju sæti í öllum ráðuneytum landsins og að sendiherra Ítala í Albaníu yrði ráðherra í stjórn Albaníu. Albanska stjórnin hafnaði úrslitakostunum og sagði þá ósamrýmanlega sjálfstæði landsins.
Eftir að Zog hafnaði úrslitakostum Ítala hófu Albanir mótmælagöngu og létu í ljós andúð á Ítölum. Mussolini notaði þetta sem átyllu til að hefja innrásina og sagðist ætla að „koma aftur á lögum og reglu“ í Albaníu. Ítalska herliðið var flutt yfir Adríahaf aðfararnótt 7. apríl á föstudeginum langa. Mikill fjöldi ítalskra herskipa varpaði akkerum fyrir utan aðalhafnir Albaníu, Durrës og Vlorë, og tvær smærri hafnir, Sarandë og Shëngjin. Skipin gerðu skothríð á hafnarbæina og sprengjuflugvélar vörpuðu sprengjum á meðan herlið Ítala gekk á land í höfnunum.[6]
Albanski herinn var fámennur og illa vopnaður og gat því ekki veitt Ítölum sterka mótspyrnu. Setulið Albana og almenningur héldu engu að síður uppi harðri mótspyrnu í Durrës og Vlorë. Abaz Kupi, yfirmaður setuliðsins í Durrës, stýrði einu árangursríku mótspyrnunni og tafði innrásina um 36 klukkustundir. Seint að kvöldi innrásardagsins viðurkenndi stjórn Zogs í höfuðborginni Tírana að albanskar hersveitir hefðu hörfað frá Durrës og Vlorë. Ítalir komu til Tírana morguninn 8. apríl og var Zog þá flúinn. Við komu ítalska innrásarhersins brutust út óeirðir í borginni og almenningur réðst bæði á konungshöllina og á ítalska ræðismannsbústaðinn.[6]
Zog flúði ásamt fjölskyldu sinni yfir fjöllin til Grikklands í bifreið sem Ciano greifi hafði gefið honum í brúðkaupsgjöf um ári áður. Þau höfðu jafnframt með sér hluta af gullbirgðum albanska landsbankans. Ítalska herliðið kom til Kortitza á grísku landamærunum 11. apríl og var hertöku landsins þar með lokið. Mussolini kom sjálfur til Tírana sama dag og ítalski herinn hélt hátíðlega innreið í höfuðborgina.[6]
Eftirmálar
[breyta | breyta frumkóða]Ítalir settu bráðabirgðastjórn skipaða Albönum sem þekktir voru fyrir að vera vinveittir Ítalíu þann 8. apríl. Hún kallaði saman stjórnlagaþing sem ákvað þann 12. apríl að bjóða Viktor Emmanúel 3. Ítalíukonungi að verða einnig konungur Albaníu. Albanía var í reynd alveg innlimuð í Ítalíu.[6] Albanía var undir stjórn Ítala til ársins 1944, en þá tókst kommúnískum andspyrnuhreyfingum að ná stjórn í landinu samhliða ósigri Ítala og Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Fischer 1999 (Purdue útg.), bls. 21.
- ↑ Fischer 1999 (Purdue útg.), bls. 22.
- ↑ 3,0 3,1 Fischer 1999, bls. 22:Reports on the number of casualties differed rather significantly. The townspeople of Durrës maintained that the Italians lost four hundred. Although Italian propaganda claimed that Italy only lost twelve men in the entire invasion, it is possible that approximately two hundred Italians were killed in Durrës alone and as many as seven hundred Italians may have been killed in total.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Pearson 2004, bls. 445.
- ↑ Fischer, Bernd J. (1999a). Albania at war, 1939-1945 (enska). West Lafayette, Ind.: Purdue University Press. bls. 22. ISBN 9781557531414. „Albanian casualties may have been higher.“
- ↑ 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 6,6 Guðmundur Halldórsson (12. apríl 1979). „Páskainnrásin“. Morgunblaðið. bls. 74–79.
- ↑ Dagur Þorleifsson (24. desember 1976). „Albanasagan í örstuttu formi“. Þjóðviljinn. bls. 26–28.