Zog Albaníukonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Zogu-ætt Konungur Albaníu
Zogu-ætt
Zog Albaníukonungur
Zog 1.
Ríkisár 1. september 19287. apríl 1939
SkírnarnafnAhmet Muhtar Zogolli
Fæddur8. október 1895
 Burgajet, Tyrkjaveldi (nú Albaníu)
Dáinn9. apríl 1961 (65 ára)
 París, Frakklandi
GröfGrafhýsi konungsfjölskyldunnar, Tírana, Albaníu
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Xhemal Pasja Zogolli
Móðir Sadijé Toptani
DrottningGéraldine Apponyi de Nagyappony
BörnLeka krónprins

Zog 1. (8. október 1895 – 9. apríl 1961), fæddur undir nafninu Ahmet Muhtar Zogolli og síðar þekktur sem Ahmet Zogu, var leiðtogi Albaníu frá 1922 til 1939. Fyrst var hann forsætisráðherra landsins (1922–1924), síðan forseti (1925–1928) og loks konungur (1928–1939).

Zog reykti um 200 vindlinga á dag og var árið 1929 talinn mesti reykingamaður sögunnar.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Ahmet Muhtar Zogolli fæddist í norðurhluta Albaníu, sem þá var hluti af Tyrkjaveldi, til landeignarfjölskyldu ættarhöfðingja. Fjölskylda móður hans kvaðst vera komin af systur þjóðhetju Albaníu, herforingjans Skanderbeg. Eftir að faðir hans dó árið 1911 varð Zogolli landstjóri héraðsins Mat fyrir tyrknesku stjórnina. Árið 1912 skrifaði Zogolli undir sjálfstæðisyfirlýsingu Albaníu sem fulltrúi fyrir Mat-héraðið.

Albanía hlaut sjálfstæði sitt eftir hrun Tyrkjaveldis í fyrri heimsstyrjöldinni. Zogolli hóf þátttöku í stjórnmálum hins nýsjálfstæða ríkis og gegndi embættum í ríkisstjórn og héraðsstjórnum landsins. Árið 1922 breytti hann eftirnafni sínu í Zogu, sem þykir albanskara en Zogolli. Zogu var rekinn í útlegð til Júgóslavíu ásamt 600 bandamönnum sínum árið 1924 en gerði síðan gagninnrás inn í Albaníu með 10.000 manna liði. Auk liðsmanna Zogu voru með í för albanskir hægrimenn, júgóslavneskir hermenn og rússneskir hvítliðar undir stjórn Pjotrs Wrangel sem höfðu hrakist undan stjórn bolsévika í Rússlandi.[2] Zogu vann skjótan sigur og stýrði landinu þaðan af með einræðisvaldi.[3]

Stjórnlagaþing Albaníu kaus Zogu forseta landsins árið 1925. Þremur árum síðar breytti Zogu Albaníu í konungsríki og lýsti sjálfan sig konung undir nafninu Zog fyrsti. Zog sótti stuðning sinn mestmegnis til stéttar ættarhöfðingja og landeigenda. Sem stjórnandi landsins var Zog í fyrstu hallur undir Breta og Júgóslava en síðar fór hann í auknum mæli að reiða sig á stuðning Ítala.[2]

Ítalir lánuðu Zog stórfé svo hann gæti komið á umbótum en niðurstaðan varð sú að ítök Ítala urðu sífellt meiri í Albaníu[4] og landið varð í reynd fjárhagsleg nýlenda Ítalíu.[2] Vinsældir Zogs sjálfs liðu fyrir aukin afskipti Ítala og hann reyndi því að leita á náðir Júgóslava á ný, en án árangurs. Með vináttusamningi sem Albanar gerðu við Ítali árið 1936 var yfirstjórn albanska hersins formlega sett undir Ítali og árið 1938 fengu Ítalir einkarétt á utanríkisverslun við Albaníu.[4]

Benito Mussolini, einræðisherra Ítalíu, mislíkaði tilþreifanir Zogs til annarra landa og sakaði hann um að „daðra við Belgrad og Moskvu“ á sama tíma og hann þáði peningagreiðslur frá Ítölum.[4] Mussolini taldi ákjósanlegra til lengdar að hertaka og stýra Albaníu beint frekar en að nota Zog sem leppstjórnanda.[2] Þann 25. mars 1939 sendi Mussolini Zog úrslitakosti og krafðist þess meðal annars að Ítalir fengju að setja herlið í Albaníu, Ítalir búsettir í Albaníu fengju full borgararéttindi til jafns við Albana, ítalskir fulltrúar fengju sæti í öllum ríkisráðuneytum og að utanríkisráðuneyti Albaníu yrði lagt niður.[4] Zog hafnaði kröfunum en Mussolini hratt þá þann 7. apríl af stað innrás í Albaníu sem hafði lengi verið í bígerð. Zog flutti ávarp til þjóðarinnar þar sem hann hvatti Albana til þess að veita innrásarhernum andspyrnu, en Ítalir unnu auðveldan sigur þar sem Albanía var svo til varnarlaus.[4]

Í innrásinni flúði Zog ásamt drottningu sinni, Geraldínu, og nýfæddum syni þeirra yfir fjöllin til Grikklands.[4] Zog lifði það sem hann átti eftir ólifað í útlegð, lengst af í París. Eftir að Ítalir voru sigraðir og reknir frá Albaníu í seinni heimsstyrjöldinni tóku kommúnistar völdin í landinu og Zog komst því aldrei aftur til valda.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „King Zog“ (enska). Albanian Royal Family. Sótt 23. desember 2018.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Albanasagan í örstuttu formi“. Þjóðviljinn. 24. desember 1976. Sótt 23. desember 2018.
  3. „Tíu ára ríkisstjórnarafmæli Zogs Albanakonungs“. Dagblaðið Vísir. 13. nóvember 1938. Sótt 23. desember 2018.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 „Páskainnrásin“. Morgunblaðið. 12. apríl 1979. Sótt 23. desember 2018.


Fyrirrennari:
Xhafer Bej Ypi
Forsætisráðherra Albaníu
(26. desember 192225. febrúar 1924)
Eftirmaður:
Shefqet Vërlaci
Fyrirrennari:
Iliaz Vrioni
Forsætisráðherra Albaníu
(6. janúar 19251. september 1928)
Eftirmaður:
Kostaq Kota
Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Albaníu
(1. febrúar 19251. september 1928)
Eftirmaður:
Hann sjálfur sem konungur
Fyrirrennari:
Hann sjálfur sem forseti
Konungur Albaníu
(1. september 19287. apríl 1939)
Eftirmaður:
Viktor Emmanúel 3.