Fara í innihald

Embættismissir (Bandaríkin)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Embættismissisréttarhöld gegn Bill Clinton Bandaríkjaforseta árið 1999 undir umsjá Williams H. Rehnquist.
Embættismissisréttarhöld gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta árið 2020 undir umsjá Johns Roberts.

Bandaríska löggjafarvaldið hefur getu til að kæra opinbera starfsmenn fyrir brot í starfi, og kallast það embættismissir (e. impeachment). Í stjórnarskránni má finna ákvæði um embættismissi þar sem tryggð réttindi til þess að ákæra fyrir afglöp opinberra aðila í starfi. Samkvæmt henni eru brot sem gætu leitt til ákæru til embættismissis landráð, mútur og aðrir glæpir hvort sem er minni- eða meiriháttar. Meiriháttar brot og minniháttar glæpir hefur síðan verið túlkað sem almenn lögbrot, misnotkun á valdi, brot á almennu trausti eða annað sem meirihluti fulltrúadeildar telur brot miðað við aðstæður.

Embættismissisferlið er bæði til á vettvangi fylkja þar sem ríkisstjórar og aðrir opinberir starfsmenn fylkja geta verið ákærðir og svo á vettvangi alríkisins þar sem forsetar og aðrir embættismenn hins opinbera eru ákærðir.

Ferli embættismissis alríkisins

[breyta | breyta frumkóða]

Það að reka opinberan embættismann úr starfi í Bandaríkjunum er gert í tveim skrefum: Fyrst er lögð fram ákæra til embættismissis af fulltrúadeildinni og síðan þarf sakfellingu í öldungadeild þingsins.

Fulltrúadeildin ein hefur völd til þess að ákæra embættismenn til embættismissis. Þegar til ákæru kemur hefur dómsmálanefnd (e. judicial committee) fulltrúadeildarinnar opinbera rannsókn á málinu og hún ákveður síðan hvort ástæða er til ákæru og af hverju. Ef ákveðið er að halda áfram með ákæruna taka við umræður og kosningar um hverja grein ákærunnar í fulltrúadeildinni. Viðkomandi er svo ákærður fyrir þær greinar sem meirihluti næst fyrir.

Þá fara fram réttarhöld sem öldungadeildin sér um þar sem sakfelling með 2/3 meirihluta er nauðsynleg ef reka á viðkomandi úr embætti. Varaforsetinn stýrir öldungadeildinni í öllum embættismissismálum nema þegar um er að ræða forseta en þá er það forseti hæstaréttar sem stýrir réttarhöldunum. Þetta er gert þar sem varaforsetinn hefur of mikilla hagsmuna að gæta þar sem hann yrði næsti forseti ef forsetinn yrði settur af. Embættismissisréttarhöld er ekki ósvipaður hefðbundnum réttarhöldum í Bandaríkjunum þar sem kviðdómur dæmir. Í embættismissisréttarhöldum eru öldungadeildarþingmenn kviðdómur en nokkrir aðilar eru valdir úr fulltrúadeildinni til að starfa sem saksóknarar í málinu. Viðkomandi embættismaður sem ákærður hefur verið er síðan með eigin verjendur. Komi til sakfellingar í öldungadeildinni er viðkomandi sjálfkrafa vísað úr embætti. Öldungadeildin getur einnig kosið um hvort banna eigi viðkomandi að starfa á opinberri skrifstofu í framtíðinni en þá þarf aðeins einfaldan meirihluta.

Saga embættismissis

[breyta | breyta frumkóða]

Ákvæði um embættismissi má finna í stjórnarskrá Bandaríkjanna frá árinu 1789. Það var Benjamin Franklin sem einna fyrstur mælti fyrir mikilvægi þess að koma á ákveðnu ferli til þess að víkja opinberum starfsmönnum úr starfi en hann taldi það heppilegra að til væri opinbert ferli til að reka fólk úr embætti fremur en að myrða það sem sögulega hefði verið notað til þess að losna við ýmsa embættismenn.[1]

Nítján embættismenn hafa verið kærðir til embættismissis en af þeim voru aðeins sjö sakfelldir. Meirihluti þeirra sem ákærðir eru til embættismissis eru alríkisdómarar eða fimmtán en allir þeir sem sakfelldir hafa verið voru alríkisdómarar. Aðrir sem ákærðir hafa verið eru þrír forsetar, ritari framkvæmdavalds (e. Cabinet secretary) og öldungadeildaþingmaður. Meðal þess sem ákært hefur verið fyrir er landráð, hlutdrægni í dómskerfinu, meinsæri, drykkjuskap og ólögmæta úrskurði, mútur og skattalagabrot.

Þrátt fyrir að fjórum sinnum hafi bandarískir forsetar á einn eða annan hátt komið við sögu embættismissis hefur enginn þeirra verið sakfelldur.

Meðal þeirra sem forseta sem hafa komið við sögu embættismissis er John Tyler, Bandaríkjaforseti árin 1841–1845. Fulltrúadeildin lagði fram tillögu um að ákæra hann vegna máls er tengdist fylkisréttindum (e. state‘s rights issues) en tillagan var felld.

Andrew Johnson, Bandaríkjaforseti á árunum 1865–1869, var ákærður þegar þingið taldi hann hafi brotið lög um fastráðningu embættismanna (e. Tenure of office act) en hann var sýknaður í öldungadeildinni þar sem munaði einungis einu atkvæði og sat hann því áfram.

Fulltrúadeildin var að ræða það að ákæra Richard Nixon, Bandaríkjaforseta frá 1969 til 1974, þegar hann sagði af sér frekar en að verða kærður til embættismissis.

Bill Clinton, Bandaríkjaforseti 1993–2001, var ákærður af fulltrúadeildinni fyrir að bera ljúgvitni og fyrir að hindra réttvísina í hneykslismáli tengdu Monicu Lewinsky. Clinton var hins vegar sýknaður í öldungadeildinni.

Þann 24. september árið 2019 tilkynnti Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings úr Demókrataflokknum, að fulltrúadeildin hygðist hefja formlegt ákæruferli gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna gruns um að hann hefði framið embættisbrot. Tilefnið var uppljóstrun um að Trump hefði þrýst á Volodimír Selenskij, forseta Úkraínu, til að fá úkraínsk stjórnvöld til að hefja rannsóknir á málum tengdum Joe Biden, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, og syni hans, Hunter Biden, sem stýrði gasfyrirtæki í Úkraínu á forsetatíð Baracks Obama.[2] Fyrir símtal þeirra Selenskij hafði Trump gefið fyrirmæli um að stöðva greiðslu hundrað milljóna dollara hernaðaraðstoðar til Úkraínu.[3] Fulltrúadeildin lagði formlega fram kæru gegn Trump þann 19. desember 2019.[4] Öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem Repúblikanar voru í meirihluta, sýknaði Trump af ákærunni þann 5. febrúar 2020.[5]

Trump var aftur ákærður fyrir embættisglöp þann 13. janúar árið 2021, þegar hann átti aðeins viku eftir í embætti. Ástæða kærunnar var ásökun um að Trump hefði egnt stuðningsmenn sína til að ráðast á Bandaríkjaþing þann 6. janúar sama ár.[6] Trump er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið kærður til embættismissis oftar en einu sinni. Réttarhöldum hans lauk ekki fyrr en eftir að kjörtímabili hans lauk, og var Trump þá aftur sýknaður af öldungadeild Bandaríkjaþings. Í þetta skipti kusu 57 þingmenn gegn Trump en 43 á móti, en tvo þriðju þingmanna þarf til að sakfella embættismann fyrir embættismissisréttarhöldum.[7][8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Impeachment and Assassination“. Sótt 27. október 2010.
  2. „Demókratar ætla að ákæra Trump til embættismissis“. mbl.is. 24. september 2019. Sótt 25. september 2018.
  3. Kjartan Kjartansson (24. september 2019). „Trump stöðvaði styrk til Úkraínu áður en hann talaði við nýja forsetann“. Vísir. Sótt 10. janúar 2020.
  4. Júlíus Þór Halldórsson (19. desember 2019). „Fulltrúadeildin ákærir Trump“. Viðskiptablaðið. Sótt 10. janúar 2020.
  5. Samúel Karl Ólason (5. febrúar 2020). „Trump sýknaður af ákærum um embættisbrot“. Vísir. Sótt 10. febrúar 2020.
  6. „Ákæra Trump fyrir embættisglöp“. mbl.is. 13. janúar 2021. Sótt 12. janúar 2021.
  7. „„Sanngjörn" réttarhöld ekki möguleg i tæka tíð“. mbl.is. 13. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
  8. Hildur Margrét Jóhannsdóttir (13. febrúar 2021). „Trump sýknaður af ákæru um embættisglöp“. RÚV. Sótt 14. febrúar 2021.

Katz, Richard S. (2007). Political Institutions in the United States. Oxford University Press. ISBN 9780199283835. Sótt 13. október 2010.