Fara í innihald

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi 2010

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eldgosið þann 25. mars 2010.
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi 2010 er staðsett á Íslandi
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi 2010
Staðsetning gossins.

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi var eldgos á Fimmvörðuhálsi, sem hófst skömmu fyrir miðnætti þann 20. mars 2010[1] og stóð til 13. apríl sama ár. Upphaflega bárust fregnir frá Lögreglunni á Hvolsvelli um eldgos og tilheyrandi öskufalli í eða við Eyjafjallajökul. Síðar kom í ljós að gosið var hraungos norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul. Hraunrennslið úr gossprungunni myndaði um 200 metra hraunfoss, þann hæsta í heimi, og rann hraunið niður í gil í grennd við gossprunguna. [2]

Aðdragandi

[breyta | breyta frumkóða]

Frá byrjun árs 2010 færðist skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli í aukana og fóru stærstu skjálftarnir yfir 3 á Richterkvarðanum. Vísindaráð Almannavarna fundaði 2. febrúar og ákvað að svæðið skyldi vaktað af meiri árvekni. Eftir það sýndu mælingar landris og þenslu á svæðinu, en slíkt bendir venjulega til innskotavirkni.[3][4] 4. mars ákváðu Almannavarnir að virkja viðbragðsáætlun á fyrsta háskastigi, óvissustigi, sem einkennist af stöðugu mati á hættu sem fólki og/eða byggð er stefnt í. Síðustu tvo dagana fyrir gos hafði jarðskjálftum fækkað miðað við undanfarna daga en óvissustig Almannavarna var enn í gildi þegar gosið hófst.[5]

Almannavarnir

[breyta | breyta frumkóða]

Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð, fjöldahjálparstöðvar opnaðar og helstu hættusvæði rýmd. Byrjað var strax í upphafi að rýma bæi í Fljótshlíð og við Markarfljót. Fyrstu nóttina voru íbúar í Fljótshlíðinni og svæðunum vestan Markarfljóts sendir til Hvolsvallar og Hellu en aðrir fóru í Skálakot. Íbúar í Skógum fóru til Víkur í Mýrdal.

Neyðarlínan sendi eftirfarandi SMS-skilaboð til íbúa: „Upplýsingar til íbúa, eldgos er hafið í Eyjafjallajökli norðaustan til, nánari upplýsingar síðar.“

Fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins var lokað 21. mars en þó þurfti að rýma nokkra bæi.

Rýmingar aðfaranótt 22. mars

[breyta | breyta frumkóða]
  • Drangshlíðardalur, Núpakot, Þorvaldseyri, Seljavellir og Lambafell, undir Austur-Eyjafjöllum, ofan vegar.
  • Önundarhorn, Berjanes, Stóra Borg, Eyvindarhólar og Hrútafell undir Austur-Eyjafjöllum neðan vegar.
  • Rauðuskriður og Fljótsdalur í Fljótshlíð.
  • Brú og Leifsstaðir í Austur-Landeyjum.

Samkvæmt vefmyndavél RÚV byrjaði eldgosið í Eyjafjallajökli klukkan 23:28 þann 20. mars 2010. Fyrsta tilkynning barst klukkan 23:58 frá Múlakoti og þá var TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunar, send af stað. Gosið hófst í um 0,5-1 km langri sprungu, norðarlega í Fimmvörðuhálsi en ekki undir sjálfum jökulinum. Hraunið myndaði háan foss er það rann niður í Hrunagil.

22. mars færðist gosið í aukana og mökkurinn varð að líkindum 8 km hár. Óljósar fregnir voru að því að gossprungan hefði stækkað en svo reyndist ekki. Það var í raun hraun að renna yfir ís og snjó sem olli því að gosmökkurinn stækkaði til muna.

Gervihnattarmynd sem sýnir nýmyndaða gossprungu 1. apríl 2010.
Gervihnattamynd úr meiri fjarlægð.

31. mars opnaðist ný gossprunga um 200 m norðan við upphaflegu sprunguna. Við það minnkaði virknin í eldri sprungunni til muna og um viku síðar var virknin orðin að engu.[6] Hraunið rann þá að mestu í Hvannárgil.[7] Þegar sprungan opnaðist var nokkur fjöldi göngufólks ekki langt frá og var það flutt með þyrlum af hættusvæðinu.[8]

Þá var gosinu lokið 13. apríl 2010.[9] Strax daginn eftir hófst eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls. Gígarnir tveir sem mynduðust í gosinu hlutu síðar nöfnin Magni og Móði og hraunið sem rann frá þeim kallast Goðahraun.[10]

Þrisvar áður hefur gosið í Eyjafjallajökli síðan land byggðist; árin 920, 1612 og 1821. Öll þessi gos hafa verið frekar lítil en hafa þó valdið jökulhlaupum. Gosið sem hófst árið 1821 stóð til ársins 1823.

Gos í jöklinum hafa ekki verið hamfaragos en engu að síður hefur verið bent á tengsl á milli gosa í Eyjafjallajökli og Kötlugosa, eða eins og Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við RÚV:

Katla er af allt öðru tagi, og þó hún sé næsti nágranni, þá virðast þau vera tengd á vissan hátt vegna þess að öll þessi gos sem vitað er um í Eyjafjallajökli hafa verið í tengslum við Kötlugos og að því er virðist jafnvel geta verið á undan Kötlugosum. Þannig Eyjafjallajökull getur að sumu leyti virkað eins og hvellhetta fyrir dínamítsprengju, ef að hann fer af stað þá er eins og Katla standist ekki mátið og vilji vera með líka. Þau gos geta verið stór og valdið miklu tjóni.

[11]

Aðalhættan af völdum gossins fólst í vatnsflóði. Talið var upphaflega að flóðið hafði eða myndi falla í Þórsmörk samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum. Ef gosið færðist í aðalgíg Eyjafjallajökuls skapast hætta af jökulhlaupi.

Áhrif á samgöngur

[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi goss var fólk beðið um að ferðast ekki til svæðisins að ástæðulausu. Þjóðveginum var lokað við Selfoss fyrstu nóttina en vegurinn var opnaður þegar leið á daginn.

Flugi var vísað frá helstu millilandaflugvöllum landsins; Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og Keflavíkurflugvelli var lokað vegna gossins en Egilsstaðaflugvelli var haldið opnum. Flugi yfir Atlantshafið var beint suður fyrir landið, þar með töldu flugi Icelandair frá Bandaríkjunum og var flugi til og frá landinu frestað.

Eldgos í Eyjafjallajökli

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 14. apríl 2010 hófst eldgos í toppgíg Eyjafjallajökuls.

Svipmyndir af gosinu á Fimmvörðuhálsi

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Eldgosið á Fimmvörðuhálsi; af www.vedur.is“. Sótt 20. júlí.
  2. „Hæsti hraunfoss í heimi; grein af Vísi.is“. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. mars 2010. Sótt 24. mars 2010.
  3. „Skjálftavirkni í Eyjafjallajökli“. Sótt 22. mars 2010.
  4. „Áfram skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli“. Sótt 22. mars 2010.
  5. „Fljúga yfir Eyjafjallajökul“. Sótt 22. mars 2010.
  6. „Engin virkni í gömlu sprungunni“. Sótt 9. apríl 2010.
  7. „Eldgosið á Fimmvörðuhálsi“. Sótt 9. apríl 2010.
  8. „Nýr gígur á hálsinum“. Sótt 9. apríl 2010.
  9. „Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi lokið“. 13. apríl 2010.
  10. „Gígarnir á Fimmvörðuhálsi nefndir Magni og Móði. Vísir, 16. júní 2010“.
  11. „Gosið gæti leitt til Kötlugoss“. Sótt 22. mars 2010.