Fara í innihald

Hraun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hraungos)
Hraunspýja, um 10 metra há, á Hawaii

Hraun er bráðið berg eða möttulefni sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 - 1200 °C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum. Hraunið sem rennur þá inniheldur minna af uppleystum efnum (gösum) en kvikan.

Tegundir hrauna

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi er basalt (einnig nefnt blágrýti og grágrýti) langalgengasta bergtegundin. Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.

Storknun og myndanir

[breyta | breyta frumkóða]

Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.

Hraunbráð sem vellir eða streymir getur orðið að bólstrum. Það gerist oft þegar gýs í vatni og stundum undir jökli. Þegar bergkvika kólnar hratt herpist hún saman og myndar stuðla. Stuðlar verða stórir þegar að hraunið hefur storknað en heldur áfram að kólna fremur hægt.[1]

Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru "Aa-lava" (apalhraun) og "Pahoehoe" (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii-eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Guðmundur Páll Ólafsson (1997). Hraunið. Mál og menning. ISBN 9979-3-0653-X.