Fara í innihald

Popptónlist

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dægurtónlist)

Popptónlist (af hinu enska pop music, stytting úr popular music) er hugtak sem notað er yfir ákveðnar stefnur af vinsælli tónlist. Saga popptónlistar er nátengd tækniþróun nýrra miðla, upptökutækni og fjölmiðlun. Upprunalega var popptónlistin fyrst og fremst tengd ungu fólki en með árunum varð meiri breidd í aldri. Á sama tíma breiddist popptónlistin út og skaut til dæmis rótum í Japan og Afríku.[1]

Samkvæmt Grove Music Online á hugtakið popptónlist upptök sín í Bandaríkjunum og Bretlandi upp úr miðri síðustu öld. Upprunalega var átt við tónlist sem þróaðist á þessum árum út frá rokk og ról tónlistinni sem kom fram á þessum tíma. Orðið pop music virðist hafa þróast út frá hugtökunum popplist (e. pop art) og poppmenningu (e. pop culture) sem skömmu áður höfðu komið fram og tengdust ýmiss konar nýrri, oft bandarískri, listmiðlun.[1]

Frá upphafi hefur popptónlist verið skilgreind sem tónlist og tónlistarstefnur sem höfða til sem flestra áheyrenda. Það er að segja sú tónlist sem selst mest og best, sem hljóðrit (plötur, diskar), fær flesta áheyrendur á tónleika og mesta hlustun á útvarpsstöðvum.[2]

Sönglagið hefur alltaf verið kjarni popptónlistarinnar. Grunnform þess er vers og endurtekið viðlag. Algeng lengd laganna er 2 ½ til 5 og ½ mínúta.[2] Sameiginleg einkenni poppsins er ákveðinn einfaldleiki, grípandi taktur, einfaldar laglínur og auðlærður texti. Popplögin höfða ekki til samfélagslegrar meðvitundar, pólitískra skoðana og uppreisnar eins og rokk og ról sem aðgreindi til dæmis kynslóð ungs uppreisnargjarns fólks frá kynslóð foreldranna. Fulltrúar poppsins settu fram allt aðra og sléttari ímynd.[3]

Ólíkt öðrum tónlistarstefnum, sem eru skýrt afmarkaðar í formi og flutningi (sbr. stefnur í klassískri tónlist) hefur poppið þróast og heldur áfram að breiðast út sem tilviljanakennd blanda hvað varðar stíl.[4] Tónlistin er gjarnan bræðingur sem fær að láni og aðlagar frumþætti og hugmyndir úr ólíkum tónlistarstefnum. Þar má nefna sem dæmi áhrif frá rokki, kántrí-, diskó- og pönktónlist, ryþmablúsi, hipp hoppi og á síðari árum einnig suður-amerískri tónlist. En þrátt fyrir þennan suðupott þá er einn armur popptónlistarinnar sem af mörgum er talinn vera hið eina og sanna popp og er það kallað pure pop eða power pop. Þetta eru sönglög, yfirleitt ekki lengri en 3 ½ mínúta, spiluð á rafmagnsgítar, bassa og trommur með auðlærðu viðlagi.[2]

Meginmarkmiðið er yfirleitt að hljóma þægilega frekar en að leitast sé við einhverri listrænni dýpt. Almennt má segja að popptónlist sé hugsuð sem tónlistarstefna sem hljóðrituð geti náð til fjöldans. Þáttur viðskiptalífsins hefur alltaf verið áberandi í poppinu. Framleiðendur byrjuðu snemma að stofna poppgrúppur, þeir völdu einstaklinga eftir útliti, danshæfileikum og öðrum ytri eiginleikum sem þeir töldu að aðdáendum myndi líka, frekar en tónlistarhæfileikum viðkomandi. Hljómsveitarmeðlimum var sagt hvernig þeir ættu að haga sér og þeim var markvisst komið á framfæri á tónleikum, sjónvarpi og kvikmyndum. Þarna var verið að framleiða popp sem vöru og var undanfari þess sem seinna birtist sem drengja- og stúlknabönd.[4]

Sjötti áratugurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Popptónlistin kom fram í Bandaríkjunum í kjölfar rokk og ról tónlistarstefnunnar sem réði ríkjum á síðari hluta sjötta áratugarins. Rokk og ról er gjarnan tengt nafni sveitasöngvarans Bill Haley sem byrjaði á árinu 1953 að blanda saman áhrifum frá sveitatónlist og ryþmablúsi. Hann komst árið 1955 í efsta sæti vinsældalistans í Bandaríkjunum með laginu „Rock Around the Clock“. Lagið var vor og sumar smellur sem hélt fyrsta sætinu í átta vikur.[3]

Fyrstu sönglög sem báru merki poppsstefnunnar voru stílblöndur hefðbundinna dægurlaga. Þannig var sveitatónlistinni breytt með því að leggja minni áherslu á hljóðfærasóló en meira lagt í sönginn, oft styrkt með strengjahópum og viðlagi fluttu af söngvurum.[4]

Sjöundi áratugurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Þessi ár komu fram með stíl sem enn í dag er hljóðritaður. Það er svokallaður „novelty song“ sem byggir á fyndnum textum sem oft eru eftirherma. Melódíurnar eru einfaldar, grípandi og þess vegna auðlærðar.

Á miðjum áratugnum kom fram svokallað brimbrettapopp (e. surf pop) upprunnið í Kaliforníu þar sem þessi íþrótt var og er enn mjög vinsæl. Textarnir fjalla um líf unga fólksins, sólarlíf á ströndinni. Þarna er að finna meðal annarrs lög hljómsveitarinnar Beach Boys — „Surfin' USA“ frá árinu 1963 og „Good Vibrations“ frá 1966.[4] Bítlarnir frá Englandi náðu nýjum hæðum í vinsældum.

Áttundi áratugurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Á seinni hluta áratugarinns hefur diskóið mikil áhrif á poppið. Hugtakið diskó kemur frá orðinu diskótek sem náði yfir næturklúbba sem voru vinsælir á sjöunda og áttunda áratugnum. Diskó er danstónlist sem meðal annars var spiluð í kvikmyndum. Myndir eins og Saturday Night Live gerðu þessa tónlist vinsælli en ella. Rafhljóðfæri urðu meira áberandi en áður. Þarna kom líka ný tíska fram. Fatnaður tónlistarmanna varð skrautlegri, til dæmis voru fyrirferðamiklir glansgallar vinsælir.

Á þessu tímabili var sungið í hárri tónhæð og bergmálstækni notuð til að breyta „sándi“ radda og hljóðfæra. Í tónlistinni var sterkt, stöðugt „beat“ og sterkari rytmatilfærslur (sýnkópur) í rafmagnsbassanum.

Um 1973 kemur sveitatónlist (kántrí) aftur inn í poppið og afró-amerískir ryþmar héldu áfram að vera áberandi á vinsældalistanum.[4] Sænska hljómsveitin ABBA (stofnuð 1972) var mjög vinsæl á áratugnum og breski tónlistarmaðurinn Elton John varð stórstjarna.

Níundi áratugurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Á níunda áratugnum urðu lög úr kvikmyndum oft ofarlega á vinsældarlistum. Þar má nefna „Eye of the Tiger“ úr Rocky III (1982), „Flashdance“ og „What a Feeling“ úr Flashdance (1983). Poppið breiddist mjög mikið út á áratugnum og oft voru það popplög sem voru í fyrsta sæti á vinsældarlistum í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Þar má nefna hljómsveitina Wham! með lagið „Wake Me Up Before You Go-Go“ sem kom út árið 1984. Svo má nefna það að rokkhljómsveitir fóru að blanda sér inní poppið og gáfu margar slíkar hljómsveitir út róleg popplög þar má nefna hljómsveitina The Police sem gaf út lagið „Every Breath You Take“ árið 1983. Á þessum tíma fóru popptónlistar menn að nota tónlistina sína til að safna peningum til góðgerðarmála, það voru haldnir styrktartónleikar og lög gefin út með mörgum vinsælum tónlistarmönnum til að safna peningum sem gengu síðan til góðra verkefna. Þar má nefna lögin „Do They Know It's Christmas?“ og „We Are the World“. Michael Jackson var vinsælasti popptónlistamaðurinn á þessum tíma.

Níundi áratugurinn er yfirleitt tengdur því að nota hljóðgervla og önnur rafhljóðfæri. Út frá því kom fram synthpop og aðrar rafstefnur svo sem elektró, teknó og freestyle. Á þessum áratug naut einnig mikilla vinsælda ryþmablús, hipp hopp og rapp.

Tíundi áratugurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Fullyrða má að tíundi áratugurinn sé tími popplistakvenna. Þar nægir að nefna Sinead O'Connor með „Nothing Compares 2 U“ (1990), „Vogue“ með Madonna (1990), „Wannabe“ sem Spice Girls komu með 1996 og „Baby One More Time“ sem Britney Spears kom fram með árið 1999. Þetta tímabil sýnir einnig hvað poppið er orðið alþjóðlegt, á vinsældalistum eru lög frá Þýskalandi, Bretlandi, Spáni, Ítalíu, Hollandi og Ástralíu. Þessi þróun heldur áfram á tuttugustu og fyrstu öldinni og segja má að popptónlistin hafi orðið ein sterkasta tónlistarstefnan í unglingamenningunni.[4]

Popp á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Á Íslandi hafa tvær bækur verið skrifaðar um rokksögu Íslands. Það er annars vegar Rokksaga Íslands - frá Sigga Johnnie til Sykurmolanna 1955-1990 eftir Gest Guðmundsson félagsfræðing og hins vegar Eru ekki allir í stuði? - Rokk á Íslandi á síðustu öld eftir tónlistarmanninn, tónlistarrýninn og Popplands-stjórnandann Gunnar Lárus Hjálmarsson sem þekktur er undir nafninu Dr. Gunni.[5]

Í báðum þessum bókum er umfjöllun um íslenskt popp, þó ekki í samfelldu máli sem tónlistarstefnu. Yfirleitt er talað um poppið sem frekar ómerkilega tónlist sem menn spiluðu á böllum og sumarhátíðum til þess að vinna sér inn pening. Dr. Gunni skrifar í bók sinni að vorið 1973 væru tónlistarmenn „að láta undan fyrir innantómu ballharki – því sem „fólkið vildi“. Tilraunir sumra poppara til að ala ballgesti upp á framúrstefnurokki höfðu reynst árangurslitlar.“[5]

Á níunda áratugnum kom fram hugtakið gleðipopp sem í byrjun þótti ekki merkilegt en á seinni hluta áratugarins rofaði til þegar það þróaðist í kraftmeira gleðirokk.[5]

Í Rokksögu Íslands er gerð tilraun til að skipta íslenskri dægurtónlist í tvo flokka, það er listarokk og popp. Höfundur segir þó að innan þessara meginflokka sé margs konar munur. Hluti hinna vinsælu poppara komu úr tilraunakenndu rokki (dæmi: Stuðmenn og Síðan skein sól) aftur á móti eigi hljómsveit eins og Stjórnin rætur sínar að rekja til gleðipopps og dansleikjatónlistar. Eitt hefur alla tíð verið áberandi að popptónlist hefur átt auðveldari aðgang að útgefendum tónlistar og þar ráða viðskiptahættir mestu, poppið er tónlist fjöldans og því er meira upp úr því að hafa en annarri tónlist sem á sér færri aðdáendur.[6]

  1. 1,0 1,1 R. Middleton, Pop http://oxfordmusiconline.com/subscriber/article/grove/music/[óvirkur tengill] R. Middleton
  2. 2,0 2,1 2,2 Top 40, http://top40.about.com/od/popmusic101/ Geymt 28 október 2013 í Wayback Machine top40]
  3. 3,0 3,1 Pétur Hafþór Jónsson. 2007. Hljóðspor, kennarabók. Bls.59-60. Reykjavík: Námsgagnastofnun. petur
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 Audials, http://audials.com/en/genres/index.html audials
  5. 5,0 5,1 5,2 Gunnar Lárus Hjálmarsson (2001) Eru ekki allir í stuði?-Rokk á Íslandi á síðustu öld. Reykjavík: Forlagið. drgunni
  6. Gestur Guðmundsson (1990) Rokksaga Íslands. Reykjavík: Forlagið. gestur