Cuxhaven

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Cuxhavens Lega Cuxhavens við mynni Saxelfar
Upplýsingar
Sambandsland: Neðra-Saxland
Flatarmál: 161,91 km²
Mannfjöldi: 48.325 (31. desember 2013)
Þéttleiki byggðar: 298/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 2 m
Vefsíða: www.cuxhaven.de

Cuxhaven er hafnarborg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi með 48 þúsund íbúa (31. desember 2013). Þangað hafa íslensk fiskiskip siglt svo árum skipti. Cuxhaven og Hafnarfjörður eru vinabæir.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Hluti hafnarinnar. Til vinstri er fiskmarkaðurinn.

Cuxhaven liggur á nyrsta odda Neðra-Saxlands, við suðurmynni árinnar Saxelfar (Elbe). Næstu borgir eru Bremerhaven til suðurs (35 km) og Hamborg til suðausturs (70 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Cuxhaven er gamla innsiglingarmerkið á gulum grunni. Neðst má sjá í bláan sjóinn. Merkið var tekið upp 1913.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Svæðið hét upphaflega Koogshaven. Það er dregið af orðunum Koog og Hafen. Koog merkir leirur eða flæðiland sem verið er að þurrka og gera nýtilegt. Að skrifa -haven með v-i er saxneskur (lágþýskur) ritháttur.[1]

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Rækjubátur frá Cuxhaven

1394 eignaðist Hamborg svæðið. Þar var mynduð lítil höfn og virki gegn sjóræningjum. 1872 var litla höfnin sameinuð landsvæðinu í kring og úr því myndaðist lítill bær. Hann var á þessum tíma enn í eigu Hamborgar. 1883 var lítil herstöð sett upp í bænum, ásamt því að Cuxhaven varð að heimahöfn nokkurra herskipa til að gæta innsiglingarinnar í Saxelfi og innsiglingarinnar í Kílarskurðinn Norðursjávarmegin. 1907 sameinuðust nokkrir litlir bæir í nærsveitum Cuxhaven, sem þar með fékk loks borgarréttindi. Það var þó ekki fyrr en 1937 að Cuxhaven varð að eigið sveitarfélagi, er nasistar slitu tengslin við Hamborg. Í heimstyrjöldinni síðari fóru fram ýmsar tilraunir með eldflaugum í borginni. Hún slapp að öllu leyti við loftárásir stríðsins.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Cuxhaven á sér nokkra vinabæi, þar á meðal Hafnarfjörð á Íslandi. Í Hafnarfirði er gata sem heitir Cuxhavengata og í Cuxhaven er torg sem heitir Hafnarfjordurplatz. Aðrir vinabæir Cuxhavens eru meðal annars Nuuk á Grænlandi.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Strandíþróttir í Cuxhaven
  • Á sumrin fer árlega fram alþjóðlegt frjálsíþróttamót.
  • Maraþonhlaup er haldið árlega um mánaðamótin mars/apríl. Styttri vegalengdir eru einnig í boði.
  • Beach Events er heiti á nokkrum strandíþróttagreinum sem haldnir eru í Cuxhaven. Hér er um handbolta, fótbolta, blak, körfubolta, ruðningur og aðrar íþróttagreinar að ræða. Kvennamótið í strandhandbolta er ætíð haldið í Cuxhaven. Árið 2006 var Evrópumótið í þeirri grein haldið þar. Í tengslum við það eru tugir veitingabása settir upp við ströndina, ásamt diskóteki fyrir þátttakendur og áhorfendur.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

  • Í Cuxhaven er árlega haldnar kappreiðar á leirunum (Duhner Wettrennen). Hér er um veðreiðar með hestum að ræða og hlaupa hestarnir yfir leirurnar, en þegar fjarar út þá myndast víðáttumiklar leirur. Hugmyndin var sú að halda veðreiðar „á sjávarbotni“. Samfara veðreiðunum er einnig ýmislega annað í gangi, svo sem fallhlífastökk og flugsýning. Veðreiðarnar eru gríðarlega vinsælar í Þýskalandi og hafa farið fram í rúma öld. Þær fara fram á sunnudegi ýmist í júlí eða ágúst (það verður að vera fjara kl. 13 á þeim degi).

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Siglingamerkið Kugelbake er einkennismerki Cuxhavens
  • Alte Liebe (Gamla ástin) er heiti á útsýnispöllum sem reistir hafa verið á hafnargarði í höfninni.
  • Ritzebüttel-kastali var aðsetur amtmannsins frá Hamborg í gegnum tíðina. Hann var reistur 1340. Í kastalagarðinum er stríðsminnisvarði um fallna hermenn í heimstyrjöldinni fyrri.
  • Siglingamerkið Kugelbake er einkennismerki Cuxhavens. Það stendur á baðströnd við innsiglinguna í Cuxhaven, á nyrsta punkti Neðra-Saxlands. Landfræðilega er miðað við að Saxelfur endi við merkið og sjórinn taki við. Breidd Saxelfar á þessum stað eru 18 km. Merkið var reist 1703 og er 30 metra hátt. Þar sem það er úr viði, þurfti að endurnýja merkið á um það bil 30 ára fresti. Það var gert í síðasta sinn 1924 og er núverandi merki því orðið æði gamalt. Það er friðað í dag.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 74.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Cuxhaven“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.