Seinna Téténíustríðið
Seinna Téténíustríðið | |||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Rússneskir hermenn hleypa af stórskotabyssu í Atsjkhoj-Martan þann 2. desember 2000. | |||||||
| |||||||
Stríðsaðilar | |||||||
Téténska lýðveldið Itkería (1999–2007) Emírdæmið Kákasus (2007–2009) |
Rússland Sjálfstjórnarlýðveldið Téténía | ||||||
Leiðtogar | |||||||
Aslan Maskhadov † Zelmíkhan Jandarbíjev † Shamíl Basajev † Ibn al-Khattab † |
Vladímír Pútín Borís Jeltsín (til 31. desember 1999) Akhmad Kadyrov † Ramzan Kadyrov | ||||||
Fjöldi hermanna | |||||||
~22.000[3]–30.000[4] (árið 1999) | 80.000 (árið 1999)[5] | ||||||
Mannfall og tjón | |||||||
14.113 hermenn drepnir (1999–2002)[6] 2.186 hermenn drepnir (2003–2009)[7] Alls drepnir: 16.299 |
3.726 hermenn drepnir,[8] 2.364–2.572 hermenn innanríkisráðuneytisins drepnir,[9] 1.072 téténskir lögregluþjónar drepnir,[10][11] 106 útsendarar FSB og GRU drepnir[12] Alls drepnir: 7.268–7.476[ath 1] | ||||||
Óbreyttir borgarar drepnir: Miðað er við allt að 25.000 dauðsföll og allt að 5.000 mannshvörf í Téténíu (skv. talningum AI)[13] Dauðsföll alls: ~80.000 í Téténíu (mat GfbV),[14] Fleiri í nágrannahéruðum, 40.000–45.000 óbreyttir borgarar drepnir (Kramer),[15] Rúmlega 600 drepin í árásum innan Rússlands. Dauðsföll hermanna og borgara alls: ~50.000–80.000 | |||||||
|
Seinna Téténíustríðið var stríð sem Rússar háðu gegn aðskilnaðarsinnum í Téténíu frá 1999 til 2000. Eiginlegum stríðsátökum lauk með sigri Rússa árið 2000 en uppreisnarhópar héldu áfram hernaði gegn rússneskum yfirráðum þar til hernaðaraðgerðum lauk árið 2009.
Stríðið hófst samhliða valdatöku Vladímírs Pútín í Rússlandi og er því stundum kallað „stríð Pútíns“ til að greina það frá fyrra Téténíustríðinu, sem er þá kallað „stríð Jeltsíns.“ Stríðið setti svip sinn á fyrstu valdaár Pútíns og framganga hans í því átti þátt í að auka vinsældir hans og treysta stöðu hans sem leiðtoga Rússlands.
Stríðinu lauk með sigri Rússa gegn aðskilnaðarsinnum. Rússar gerðu feðgana Akhmad og Ramzan Kadyrov, sem höfðu áður barist fyrir sjálfstæði Téténíu, að umboðsstjórnendum sínum í Téténíu. Þrátt fyrir að Téténía hafi formlega verið limuð inn í Rússland á ný við lok stríðsins hefur Ramzan Kadyrov síðan þá í auknum mæli gert Téténíu að einræðisstjórn sem fylgir rússneskum lögum aðeins að takmörkuðu leyti.[16]
Aðdragandi
[breyta | breyta frumkóða]Fyrra Téténíustríðinu hafði lokið árið 1996 og næsta ár höfðu Téténar og Rússar skrifað undir friðarsáttmála þar sem Téténska lýðveldið Itkería fékk sjálfstæði að flestu leyti. Hins vegar var áfram mikill ófriður í Téténíu og á Kákasussvæðinu. Sjálfstæðisbarátta Téténa hafði lengst af grundvallast á veraldlegri þjóðernishyggju en með eyðileggingu fyrra Téténíustríðsins náðu vígahópar stríðsherra sem aðhylltust íslamisma og wahhabisma fótfestu á svæðinu og höfðu það að yfirlýstu markmiði að reka Rússa alfarið frá héruðum Kákasus og stofna ríki byggt á sjaríalögum.[17][18]
Aðsópsmestir meðal þessara stríðsherra voru Shamíl Basajev og Ibn al-Khattab, sem stóðu ásamt hersveitum sínum fyrir gíslatökum og hryðjuverkum í nágrannahéruðum Téténíu. Aslan Maskhadov, forseti Téténska lýðveldisins Itkeríu, lét starfsemi þessara hópa innan Téténíu að mestu óafskipta og gerði Basajev að forsætisráðherra í stjórn sinni í nokkra mánuði árið 1998 til að vinna sér hylli stuðningsmanna hans.[19] Árið 1999 var tala gísla komin upp í 2.000 manns. Sama ár gerðu skæruliðasveitir undir stjórn Basajevs (sem Maskhadov hafði þá rekið úr stjórn sinni) og al-Khattabs innrás frá Téténíu inn í rússneska sjálfsstjórnarsvæðið Dagestan, þar sem wahhabistar höfðu lögt nokkur þorp undir sig.[18]
Í ágúst 1999 sendu yfirvöld í Kreml hermenn til Dagestans til að hrekja á bak aftur innrás Basajevs og al-Khattab. Innrásarmennirnir voru hraktir burt á skömmum tíma, enda höfðu þeir litlu fylgi að fagna meðal Dagestana.[19]
Sprengjuárásirnar í Moskvu og Volgodonsk
[breyta | breyta frumkóða]Í september 1999 voru gerðar sprengjuárásir á íbúðablokkir í Moskvu og í Volgodonsk sem Rússar sögðu téténska íslamista standa fyrir, þótt það hafi ekki verið sannað með óyggjandi hætti.[20] Rannsóknir leiddu í ljós að árásirnar voru gerðar með sprengiefninu RDX, sem þarf sérfræðikunnáttu til að beita rétt.[19] Kenningar hafa verið settar fram um að rússneska leyniþjónustan FSB hafi staðið fyrir sprengjuárásunum til að skapa tylliástæðu fyrir frekari hernaði gegn Téténíu. Til stuðnings þessarar kenningar hefur verið bent á að tveir starfsmenn FSB hafi sést koma pokum með dufti sem líktist RDX fyrir í kjallara íbúðablokkar í Rjazan. Þeir voru handteknir en lögreglu svo skipað að láta þá lausa. Formaður FSB, Vladímír Pútín, hafði á þessum tíma nýlega verið skipaður forsætisráðherra Rússlands. Hann tók við embætti þann 15. ágúst 1999, á sama tíma og seinna Téténíustríðið var að hefjast.[21]
Einn þeirra sem hélt því fram að FSB og Pútín hefðu sviðsett sprengjuárásirnar til að leggja grunninn að endurnýjuðum hernaði í Téténíu var FSB-liðinn Aleksandr Lítvínenko, sem flúði í útlegð til Bretlands árið 2000. Lítvínenko lést árið 2006 eftir að eitrað var fyrir honum með geislavirka efninu Pólon-210.[22][23]
Gangur stríðsins
[breyta | breyta frumkóða]Þann 28. september 1999 lýstu Rússar friðarsamningana frá árinu 1996 ógilda og hófu stríð gegn íslamistum í Téténíu. Rússneskir hermenn héldu inn í Téténíu úr norðri og vestri og herflugvélar hófu að varpa sprengjum á téténsku höfuðborgina Groznyj.[19]
Ólíkt fyrra Téténíustríðinu, sem hafði verið afspyrnu óvinsælt stríð, naut innrásin mikils stuðnings hjá rússneskri alþýðu, enda var nú hefndarhugur í mörgum fyrir hryðjuverkaárásirnar í Moskvu og Volgodonsk. Vladímír Pútín, sem varð helsti forsvarsmaður innrásarinnar og vígreifastur í garð Téténa, varð því gríðarlega vinsæll leiðtogi á skömmum tíma. Pútín varð síðan óvænt forseti Rússlands þegar Borís Jeltsín sagði af sér á gamlársdag árið 1999.[19]
Í febrúar árið 2000 hafði Groznyj nánast alfarið verið lögð í rúst vegna sprengjuárása Rússa. Um 400.000 manns höfðu búið þar fyrir stríðið en aðeins um 40.000 voru eftir þegar síðustu téténsku skæruliðarnir hörfuðu frá borginni í lok janúar árið 2000, aðallega konur og eldra fólk. Eftir að Rússar náðu borginni sökuðu samtök á borð við Mannréttindavaktina þá um að halda hundruðum saklausra borgara í fangabúðum þar sem þeir voru pyntaðir og konum nauðgað. Íbúar sem enn dvöldu í borginni sökuðu rússneska hermenn um að fara ránshendi um eigur þeirra, skjóta af handahófi inn í kjallara og ræna ungum konum.[24]
Eftir að innrásin í Téténíu hófst ákvað Akhmad Kadyrov, æðsti múfti (múslimaklerkur) Téténska lýðveldisins Itkeríu, að ganga til liðs við Rússa. Kadyrov hafði barist gegn Rússum í fyrra Téténíustríðinu en neitaði í þetta sinn að styðja stjórn Aslans Maskhadov forseta þar sem hann vildi ekki þurfa að berjast við hlið bókstafstrúarmanna á borð við Ibn al-Khattab. Kadyrov, sem var stríðsherra sem réði yfir eigin hersveitum, leyfði Rússum að koma sér fyrir í borginni Gúdermes á meðan þeir þjörmuðu að Groznyj.[19] Að launum fyrir hollustu sína við stjórnvöld í Kreml var Kadyrov gerður að umboðsstjórnanda Rússa í Téténíu eftir að rússneski herinn hafði náð valdi á héraðinu um mitt árið 2000.[16]
Eftirmálar
[breyta | breyta frumkóða]Rússar höfðu kollvarpað stjórn Téténska lýðveldisins Ítkeríu og náð formlegri stjórn á héraðinu á fyrri hluta ársins 2000. Téténar héldu þó áfram skæruhernaði og vopnaðri andspyrnu gegn rússneskum yfirráðum í mörg ár til viðbótar. Andspyrna téténsku skæruliðanna einkenndist oft af gíslatökum og hryðjuverkaárásum gegn óbreyttum borgurum. Eitt alræmdasta atvikið í þessum kafla Téténíustríðsins varð þann 23. október 2002 þegar 40 téténskir skæruliðar réðust inn Dúbrovka-leikhúsið í Moskvu á meðan verið var að sýna söngleik og héldu fullum sal áhorfenda í gíslingu. Gíslatökumennirnir kröfðust þess að Rússar hefðu sig burt frá Téténíu innan viku, ella yrði leikhúsið sprengt í loft upp. Rússneskar sérsveitir leystu úr gíslatökunni eftir þrjá daga með því að dæla svefngasi inn í leikhúsið og frelsuðu svo gíslana á meðan téténsku skæruliðarnir lágu meðvitundarlausir. Hins vegar létust um 130 gíslar eftir að hafa andað að sér gasinu.[25]
Annar hildarleikur varð í september árið 2004 þegar téténskir uppreisnarmenn sem fylgdu Shamíl Basajev að málum réðust inn í grunnskóla í borginni Beslan í Norður-Ossetíu og tóku alla sem þar voru í gíslingu. Alls létust að minnsta kosti 339 manns, þar af um helmingurinn börn, þegar rússneskar sérsveitir réðust inn í skólann til að binda enda á gíslatökuna.[26][27]
Eftir hryðjuverkin 11. september 2001 í New York var stríð Rússa í Téténíu í auknum mæli samsamað stríðinu gegn hryðjuverkum sem Bandaríkjamenn höfðu lýst yfir.[28]
Akhmad Kadyrov, sem þá var orðinn forseti sjálfstjórnarlýðveldisins Téténíu innan Rússlands, var myrtur árið 2004 á hersýningu í Groznyj.[29] Í kjölfarið voru Rússar fljótir að upphefja son Akhmads, Ramzan Kadyrov, sem nýjan umboðsstjórnanda sinn í Téténíu. Með stuðningi Pútíns var Ramzan Kadyrov skipaður aðstoðarforsætisráðherra Téténíu strax eftir morðið. Hann varð síðan forsætisráðherra Téténíu ári síðar, aðeins 29 ára gamall.[16] Kadyrov var formlega skipaður forseti Téténíu árið 2007, stuttu eftir að hann varð þrjátíu ára gamall. Pútín veitti Kadyrov umboð til að „hreinsa til“ í Téténíu og fleytti til hans gríðarlegum fjármunum svo hann gæti barið niður aðskilnaðarsinna sem enn börðust gegn rússnesku stjórninni.[30]
Aslan Maskhadov var drepinn af rússneskum hermönnum í mars árið 2005. Hann var þá síðasti leiðtogi Téténa sem vildi ná fram samningum við Rússa til að ljúka stríðinu. Maskhadov hafnaði því að hann hefði haft neitt með gíslatökurnar í Moskvu eða Beslan að gera.[31] Shamíl Basajev var drepinn í næturáhlaupi rússneskra hermanna á skæruliðahóp hans í Ingúsetíu í júlí 2006.[32]
Rússar lýstu formlega yfir endalokum hernaðaraðgerða sinna í Téténíu þann 16. apríl árið 2009.[33]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Documents Working Papers, bls. 4, á Google Books
- ↑ „Russia 'ends Chechnya operation'“. BBC News. 16. apríl 2009. Sótt 14. apríl 2009.
- ↑ Федеральным силам в Чечне противостоят 22 тыс. боевиков Varnarmálaráðuneyti Rússlands Geymt 27 september 2007 í Wayback Machine
- ↑ War Veterans in Postwar Situations: Chechnya, Serbia, Turkey, Peru, and Côte D'Ivoire, bls. 237, á Google Books Nathalie Duclos, 2012, ISBN 978-1-137-10974-3, page 237
- ↑ Кривошеев, Г. Ф., ritstjóri (2001). Россия и СССР в войнах XX века. Потери вооруженных сил (rússneska). Олма-Пресс. bls. 593. ISBN 5-224-01515-4.
- ↑ „Russia: December 25, 2002“. Strategypage.com. Sótt 17. október 2011.
- ↑ „Russia put 750 militants out of action in 2009 – Interior Ministry | Russia | RIA Novosti“. En.rian.ru. 1. október 2009. Sótt 17. október 2011.
- ↑ 3.688 drepnir í Téténíu (1999–2007),[1] 28 drepnir í Téténíu (2008),[2] 10 drepnir í Dagestan (2005),[3] alls 3.726 drepnir skv. opinberum talningum
- ↑ 1.614–1.822 drepnir í Téténíu (1999–2002),[4][óvirkur tengill][5] 279 drepnir í Téténíu (2004–2005),[6] 200 drepnir í Dagestan (2002–2006),[7] 45 drepnir í Téténíu og Dagestan (2007),[8] 226 drepnir í Norður-Kákasus (2008),[9] alls 2.364–2.572 lýstir dánir.
- ↑ „More than 1,000 Chechen police died in anti-terrorist operations – Chechen Interior Ministry“. Groups.yahoo.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 8 júlí 2012. Sótt 17. október 2011.
- ↑ WPS observer. „On losses in Russian army“. Wps.ru. Sótt 17. október 2011.
- ↑ „The Second Chechen War“. historyguy.com. Sótt 20. maí 2015.
- ↑ What justice for Chechnya's disappeared? . AI Index: EUR 46/015/2007, 23 May 2007
- ↑ Sarah Reinke: Schleichender Völkermord in Tschetschenien. Verschwindenlassen – ethnische Verfolgung in Russland – Scheitern der internationalen Politik. Gesellschaft für bedrohte Völker, 2005, page 8 (PDF Geymt 12 ágúst 2014 í Wayback Machine)
- ↑ Mark Kramer: "Guerrilla Warfare, Counterinsurgency and Terrorism in the North Caucasus: The Military Dimension of the Russian-Chechen Conflict", Europe-Asia Studies, Vol. 57, No. 2 (March 2005), bls.210.
- ↑ 16,0 16,1 16,2 Björn Teitsson (10. október 2010). „Kadyrov er hinn tsjetsjenski Stalín“. Dagblaðið Vísir. bls. 20.
- ↑ „Múslimar í Kákasushéruðum í stríði við Rússa“. Morgunblaðið. 23. september 1999. bls. 32.
- ↑ 18,0 18,1 „Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa?“. Vísindavefurinn.
- ↑ 19,0 19,1 19,2 19,3 19,4 19,5 Vera Illugadóttir (21. apríl 2017). „Dularfullar sprengingar urðu tilefni innrásar“. RÚV. Sótt 18. apríl 2022.
- ↑ Vera Illugadóttir (7. apríl 2017). „Í ljósi sögunnar - Téténía“. RÚV. Sótt 31. mars 2022.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (16. mars 2022). „Úr leyniþjónustunni í forsetahöllina“. Vísir. Sótt 16. mars 2022.
- ↑ „WSJ; Herða verður refsiaðgerðir gegn Pútín vegna morðsins á Litvinenko“. Varðberg. 22. janúar 2016. Sótt 18. mars 2022.
- ↑ Kjartan Kjartansson (21. september 2021). „Rússnesk stjórnvöld talin hafa myrt Litvinenko“. Vísir. Sótt 18. mars 2022.
- ↑ „Tilgangslaus eyðilegging?“. mbl.is. 20. febrúar 2000. Sótt 22. mars 2022.
- ↑ Vera Illugadóttir (27. október 2017). „Spurningum enn ósvarað 15 árum eftir gíslatöku“. RÚV. Sótt 18. apríl 2022.
- ↑ „Ár frá gíslatökunni í Beslan“. Vísir. 1. september 2005. Sótt 18. apríl 2022.
- ↑ „Basajev lýsir ábyrgð á gíslatöku í Beslan“. mbl.is. 17. september 2004. Sótt 18. apríl 2022.
- ↑ Gunnar Hólmsteinn Ársælsson (13. september 2004). „Beslan breytir engu!“. mbl.is. Sótt 18. apríl 2022.
- ↑ „Forseti Tétsníu myrtur“. mbl.is. 10. maí 2004. Sótt 22. mars 2022.
- ↑ Ómar Þorgeirsson (20. mars 2016). „Stríðsherra með sérstakt dálæti á samfélagsmiðlum“. Kjarninn. Sótt 22. mars 2022.
- ↑ „Greiddu stórfé fyrir upplýsingar“. mbl.is. 16. mars 2005. Sótt 18. apríl 2022.
- ↑ „Basajev deyr í næturárás“. Vísir. 11. júlí 2006. Sótt 18. apríl 2022.
- ↑ „Kadyrov fagnar sigri Rússa í Tétsníu“. mbl.is. 16. apríl 2009. Sótt 18. apríl 2022.