Fara í innihald

Ramzan Kadyrov

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ramzan Kadyrov
Рамзан Кадыров
Къадар Рамзан
Kadyrov árið 2018.
Forseti sjálfstjórnarlýðveldisins Téténíu
Núverandi
Tók við embætti
5. apríl 2007
ForveriAlú Alkhanov
Forsætisráðherra sjálfstjórnarlýðveldisins Téténíu
Í embætti
18. nóvember 2005 – 10. apríl 2007
ForveriSergej Abramov
EftirmaðurOdes Bajsúltanov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. október 1976 (1976-10-05) (47 ára)
Tsentaroj, Téténíu-Ingúsetíu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum (nú Akhmat-Júrt, Téténíu, Rússlandi)
ÞjóðerniTéténskur
StjórnmálaflokkurSameinað Rússland
MakiMedni Musaevna Kadyrova (g. 1996)
Fatima Khazujeva
Aminat Akhmadova
TrúarbrögðSúnní-íslam
Börn12
HáskóliViðskipta- og lagaskólinn í Makhatsjkala
Ríkistækniháskólinn í Dagestan
Ríkisháskólinn í Dagestan
Undirskrift

Ramzan Akhmadovítsj Kadyrov (rússneska: Рамзан Ахматович Кадыров; téténska: Къадар Ахьмат-кӏант Рамзан; f. 5. október 1976) er rússneskur og téténskur stjórnmálamaður sem hefur verið leiðtogi sjálfstjórnarlýðveldisins Téténíu innan Rússlands frá árinu 2005. Kadyrov var áður meðlimur í vopnaðri sjálfstæðishreyfingu Téténa. Faðir hans, Akhmad Kadyrov, gekk í lið með Rússum í seinna Téténíustríðinu og var útnefndur forseti téténska sjálfstjórnarlýðveldisins eftir sigur Rússa í stríðinu. Ramzan komst til valda eftir að faðir hans var myrtur árið 2004.

Kadyrov fer með einræðisvald innan Téténíu og stýrir sjálfstjórnarlýðveldinu með íhaldssamri túlkun á sjaríalögum. Stjórn hans hefur verið sökuð um fjölda mannréttindabrota, pólitískra morða og mannrána á andstæðingum sínum.

Æviágrip

Ramzan Kadyrov er fæddur árið 1976 og er sonur stjórnmálamannsins Akhmads Kadyrov. Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 leiddi Akhmad hernaðarhreyfingu sem barðist fyrir sjálfstæði Téténíu undan Rússlandi. Þótt Ramzan Kadyrov hafi aðeins verið táningur þegar fyrra Téténíustríðið braust út barðist hann með her föður síns og fór fyrir hóp skæruliða sem þótti sérlega ofbeldisfullur.[1]

Þegar seinna Téténíustríðið braust út árið 1999 ákváðu Kadyrov-feðgarnir að ganga til liðs við Rússa gegn því að þeir fengju að stýra Téténíu þegar sigur hefði verið unninn gegn aðskilnaðarsinnum. Við lok stríðsins var Akhmad Kadyrov því skipaður forseti téténska sjálfstjórnarlýðveldisins og var studdur af rússnesku leyniþjónustunni FSB.[1]

Stjórnartíð í Téténíu

Akhmad Kadyrov var myrtur árið 2004 á hersýningu í Grosní.[2] Í kjölfarið var Ramzan fljótur að komast til áhrifa í Téténíu þrátt fyrir ungan aldur. Með stuðningi Vladímírs Pútín Rússlandsforseta var Ramzan Kadyrov skipaður aðstoðarforsætisráðherra Téténíu strax eftir morðið. Hann varð síðan forsætisráðherra Téténíu ári síðar, aðeins 29 ára gamall.[1] Kadyrov var formlega skipaður forseti Téténíu árið 2007, stuttu eftir að hann varð þrjátíu ára gamall. Pútín veitti Kadyrov umboð til að „hreinsa til“ í Téténíu og fleytti til hans gríðarlegum fjármunum svo hann gæti barið niður aðskilnaðarsinna sem enn börðust gegn rússnesku stjórninni.[3]

Auk þess að hafa tögl og hagldir á téténska hernum hefur Kadyrov áfram haldið uppi eigin einkaher, Kadyrovtskíj-hersveitinni eða Kadyrovítum. Sveitin var stofnuð á tíma fyrra Téténíustríðsins á tíunda áratugnum.[3] Stuttu eftir að Kadyrov komst til valda hóf hann að innleiða sjaríalög í löggjöf Téténíu. Meðal annars lét hann banna fjárhættuspil og áfengisneyslu og hvatti karla til að stunda fjölkvæni.[1] Fjölkvæni er bannað samkvæmt rússneskum lögum en stjórn Pútíns hefur látið það óátalið að það tíðkist undir stjórn Kadyrovs í Téténíu.[4]

Á stjórnartíð sinni hefur Kadyrov viðhaldið nánu bandalagi við Vladímír Pútín og hefur gert mikið úr vinskap sínum við hann. Líkt og Pútín hefur Kadyrov sætt ásökunum um að brjóta gegn mannréttindum og tjáningarfrelsi, auk þess sem hersveitir hans hafa verið vændar um pyntingar og ólöglegar handtökur og aftökur á pólitískum andstæðingum. Meðal helstu gagnrýnenda Kadyrovs var úkraínska blaðakonan Anna Polítkovskaja hjá dagblaðinu Novaja Gazeta, sem fannst skotin til bana í íbúðablokk sinni þann 6. október 2006. Eftir morð hennar lét ritstjóri Novaja Gazeta, Dmítríj Múratov, hafa eftir sér að hún hefði verið að vinna að grein um pyntingar, aftökur og önnur illvirki Kadyrovíta þegar hún var drepin.[3] Kadyrov hefur einnig verið sakaður um að standa fyrir morðinu á Natalíu Estemírovu, meðlimi mannréttindasamtakanna Memorial, sem var rænt af heimili sínu í Grosní í júní 2009 og fannst síðan drepin í Ingúsetíu.[5] Þá var Kadyrov bendlaður við morðið á rússneska stjórnarandstæðingnum Borís Nemtsov árið 2015, en einn þeirra sem voru ákærðir fyrir morðið var fyrrum háttsettur liðsmaður í einni af hersveitum Kadyrovs.[3]

Á síðari árum hefur stjórn Kadyrovs hafið markvissar fjöldahandtökur og pyntingar á samkynhneigðum mönnum í Téténíu.[6] Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu gaf út skýrslu í desember 2018 þar sem staðhæft var að „mjög alvarleg mannréttindabrot“ væru að eiga sér stað í sjálfsstjórnarlýðveldinu. Kadyrov hafnaði því fyrir sitt leyti að handtökurnar hefðu átt sér stað og staðhæfði að samkynhneigð þekktist einfaldlega ekki í Téténíu.[7] Frá því að herferð Kadyrovs gegn samkynhneigðum hófst hafa samkynhneigðir Téténar sem hafa flúið til annarra hluta Rússlands verið sakaðir um hryðjuverkastarfsemi, handteknir og fluttir nauðugir aftur til Téténíu.[8]

Innrás Rússa í Úkraínu

Árið 2022 studdi Kadyrov innrás Rússa í Úkraínu og sendi téténska hermenn til að berjast með rússeska hernum. Hann kvaðst sjálfur hafa farið til Úkraínu til að taka þátt í innrásinni en ekki hefur verið staðfest með óyggjandi hætti að hann hafi farið þangað.[9] Kadyrov hefur birt myndir af sér sem eiga að vera frá vígstöðvunum í Úkraínu en tiltekin atriði á þeim þykja sanna að þær séu í raun teknar í Téténíu.[10]

Þann 1. október 2022 birti Kadyrov pistil þar sem hann gagnrýndi leiðtoga rússneska hersins vegna undanhalds rússneskra hermanna frá úkraínsku borginni Lyman. Kadyrov hvatti til þess að herlög yrðu sett á landamærasvæðum Rússlands við Úkraínu og að kjarnavopnum yrði beitt til að vinna stríðið.[11] Tveimur dögum síðar tilkynnti Kadyrov að hann hygðist senda þrjá syni sína, sem voru þá fjórtán, fimmtán og sextán ára, til að berjast í Úkraínu.[12]

Ímynd Kadyrovs

Líkt og Vladímír Pútín hefur Kadyrov lagt mikla áherslu á að rækta karlmennskuímynd sína. Hann er virkur á ýmsum samfélagsmiðlum og birtir gjarnan færslur af sjálfum sér með villidýrum, við hernaðarathafnir eða að iðka bardagaíþróttir. Kadyrov leggur einnig áherslu á íslamska trúrækni sína og á tryggð sína við Vladímír Pútín og rússnesk stjórnvöld. Hann hefur oft beitt samfélagsmiðlum til að gagnrýna og ógna stjórnarandstæðingum, sem hann hefur nefnt „sjakala“ og „óvini þjóðarinnar.“ Meðal annars hefur hann birt myndskeið af stjórnarandstæðingnum Míkhaíl Kasjanov þar sem fylgst er með Kasjanov í gegnum riffilsigti leyniskyttu.[4]

Kadyrov beitir færslum á Telegram-reikningi sínum óspart til að kynna og sýna fram á mátt Akhmad-hersveitarinnar sem hann stýrir.[13]

Kadyrov naut lengi mikillar alþýðuhylli í Rússlandi fyrir þátt sinn við að koma á friði, lögum og reglu í Téténíu eftir stríðin á tíunda áratugnum. Hann hefur hins vegar orðið æ umdeildari í seinni tíð og árið 2016 sögðust aðeins 17 prósent Rússa hafa jákvæða skoðun á honum.[4]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Björn Teitsson (10. október 2010). „Kadyrov er hinn tsjetsjenski Stalín“. Dagblaðið Vísir. bls. 20.
  2. „Forseti Tétsníu myrtur“. mbl.is. 10. maí 2004. Sótt 22. mars 2022.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Ómar Þorgeirsson (20. mars 2016). „Stríðsherra með sérstakt dálæti á samfélagsmiðlum“. Kjarninn. Sótt 22. mars 2022.
  4. 4,0 4,1 4,2 Kristján Jónsson (3. apríl 2014). „„Ég ræð og enginn annar. Skilið?". Morgunblaðið. bls. 6.
  5. Kolbeinn Þorsteinsson (21. júlí 2009). „Mannréttindafólk myrt“. Dagblaðið Vísir. bls. 12.
  6. „Gætu verið í lífsháska sökum kynhneigðar sinnar“. mbl.is. 6. febrúar 2021. Sótt 22. mars 2022.
  7. Kjartan Kjartansson (15. febrúar 2019). „Tugum samkynhneigðra smalað saman og haldið í Téténíu“. Vísir. Sótt 22. mars 2022.
  8. „Samkynhneigðir sakaðir um hryðjuverk“. mbl.is. 8. febrúar 2021. Sótt 22. mars 2022.
  9. Markús Þ. Þórhallsson (14. mars 2022). „Leiðtogi Téténa kveðst berjast við hlið innrásarhersins“. RÚV. Sótt 22. mars 2022.
  10. Kristján Kristjánsson (31. mars 2022). „Leiðtogi Téténa montaði sig af að vera að berjast í Úkraínu – Myndin sem hann birti kom upp um hann“. DV. Sótt 5. október 2022.
  11. Samúel Karl Ólason (1. október 2019). „Kadyrov kallar eftir herlögum og notkun kjarnorkuvopna“. Vísir. Sótt 5. október 2022.
  12. Fanndís Birna Logadóttir (3. október 2019). „Leiðtogi Téténa sendir fjórtán til sextán ára syni sína til Úkraínu“. Vísir. Sótt 5. október 2022.
  13. Agnar Óli Snorrason (6. júlí 2023). „Hlutverk Tsjetsjeníu í stríðinu: Fyrri hluti“. Úkraínuverkefni Háskóla Íslands. Sótt 22. júlí 2023.