Fara í innihald

Jóhannes 23.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Angelo Giuseppe Roncalli)
Jóhannes 23.
Skjaldarmerki Jóhannesar 23.
Páfi
Í embætti
28. október 1958 – 3. júní 1963
ForveriPíus 12.
EftirmaðurPáll 6.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. nóvember 1881
Sotto il Monte, Bergamo, Ítalíu
Látinn3. júní 1963 (81 árs) Páfahöllinni, Vatíkaninu
ÞjóðerniÍtalskur (með vatíkanskan ríkisborgararétt)
TrúarbrögðKaþólskur
Undirskrift

Jóhannes 23. (25. nóvember 1881 – 3. júní 1963), fæddur undir nafninu Angelo Giuseppe Roncalli, var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1958 til 1963. Þrátt fyrir tiltölulega stutta páfatíð sína setti Jóhannes mark sitt á sögu kaþólsku kirkjunnar með því að kalla saman síðara Vatíkanþingið, sem átti eftir að koma á ýmsum umbótum og breytingum á skipulagi hennar. Jóhannes var stundum kallaður „góði páfinn“ (ítalska: Il Papa Buono) vegna ljúfmennsku sinnar og alþýðleika.

Angelo Giuseppe Roncalli fæddist til fátækrar bændafjölskyldu í Langbarðalandi á Ítalíu árið 1881. Roncalli tók prestvígslu árið 1904 og barðist í fyrri heimsstyrjöldinni sem liðsforingi í læknasveit í ítalska hernum. Eftir styrjöldina vann hann sem sendimaður páfastólsins í Búlgaríu og dvaldist fyrst í tvö ár í Sófíu og síðan í tíu ár í Tyrklandi og Grikklandi. Hann vann síðar við svipuð sendistörf í París í umboði Píusar 12. páfa.[1] Þrátt fyrir strangar reglur um aðskilnað ríkis og kirkju í Frakklandi varð Roncalli vel til vina við marga franska ráðamenn, jafnvel við Vincent Auriol Frakklandsforseta, sem var trúleysingi og sósíalisti. Þegar Roncalli var útnefndur kardínáli neytti Auriol réttar síns sem kaþólskur þjóðhöfðingi til að rétta Roncalli rauða kardínálahattinn sinn í vígsluathöfninni.[2]

Roncalli var vígður sem kardínáli árið 1953 og varð þremur dögum síðar patríarki kaþólsku kirkjunnar í Feneyjum. Þar gat hann sér gott orð og vinsældir fyrir að vera skemmtilegur og alþýðlegur kirkjuleiðtogi.[1]

Eftir að Píus 12. páfi lést árið 1958 var Roncalli kjörinn eftirmaður hans á páfastól í 11. kosningu kardínálanna þann 28. október og síðan krýndur páfi þann 4. nóvember undir nafninu Jóhannes 23.[3] Roncalli var fyrsti páfinn í rúm 500 ár sem valdi sér páfanafnið Jóhannes. Fyrri páfar höfðu lengi forðast nafnið þar sem það minnti á sundrungu kaþólsku kirkjunnar á 15. öld og á Jóhannes 23. mótpáfa, sem hafði gert tilkall til páfadóms á þeim tíma. Með því að taka sjálfum sér nafnið Jóhannes 23. staðfesti Roncalli að mótpáfinn með sama nafni væri ekki talinn lögmætur af kaþólsku kirkjunni.

Eftir að Jóhannes 23. varð páfi fór hann fljótt á sveig við ýmsar venjur og gömul lögmál sem lengi höfðu verið við lýði í Páfagarði. Hann lagði meðal annars leiðir sínar í rómversk fangelsi til að ræða við dæmda fanga sem jafningi og gekk um götur Rómar til að blanda geði við alþýðuna.[4] Jóhannes lét einnig af gömlum siði um að páfi yrði að borða máltíðir sínar í einrúmi þar sem hann fann ekki heimild fyrir þeirri hefð í Biblíunni.[5] Hann hækkaði jafnframt laun embættismanna í Vatíkaninu og leysti frá störfum kardínálann Giuseppe Pizzardo, sem hann taldi of íhaldssaman. Jóhannes dró hins vegar einnig til baka ýmsar skoðanir sem hann hafði látið í ljós fyrir páfatíð sína: Hann bannaði til dæmis starfsemi frönsku verkamannaprestahreyfingarinnar, sem hann hafði áður stutt, og bannaði um hríð rökræður um að messur yrðu haldnar á öðrum málum en latínu, þrátt fyrir að hafa áður stutt að þær færu fram á móðurmáli hvers safnaðar.[1] Jóhannes átti þó síðar eftir að draga úr notkun latínu í messum með umbótum síðara Vatíkanþingsins.

Þegar Jóhannes var kjörinn páfi var hann þegar orðinn 75 ára gamall og því bjuggust flestir kardínálarnir við því að páfatíð hans yrði stutt og viðburðalítil. Jóhannes kom þeim hins vegar í opna skjöldu stuttu eftir valdatöku sína með því að kalla til allsherjar kirkjuþings sem ætti að fara fram innan nokkurra ára með það að markmiði að sameina allar kristnar kirkjur heims.[4] Yfirlýsing Jóhannesar leiddi til síðara Vatíkanþingsins, sem hófst árið 1962 og var sótt af fulltrúum um 550 milljóna kaþólskra manna, 418.000 kaþólskra presta og 946.000 nunna.[1]

Heilsa Jóhannesar var farin að bregðast honum áður en kirkjuþinginu lauk og ljóst þótti í byrjun ársins 1963 að hann myndi ekki sjá það til enda. Jóhannes vildi koma í gegn fjölmörgum breytingum á skipulagi kaþólsku kirkjunnar og óttaðist á síðustu ævidögum sínum að umbætur hans myndu renna út í sandinn eftir dauða hans. Jóhannes studdi það að kardínálinn Giovanni Battista Montini tæki við af sér eftir sinn dag þar sem hann studdi umbótatillögur þær sem hann vildi staðfesta.[6]

Jóhannes lést þann 3. júní árið 1963, áður en kirkjuþinginu lauk, en honum varð að ósk sinni og Montini kardínáli tók við af honum sem páfi undir nafninu Páll sjötti.[7] Páll lauk kirkjuþinginu árið 1965 og innleiddi margar af þeim breytingum sem Jóhannes hafði talað fyrir.[8]

Frans páfi lýsti Jóhannes 23. dýrling kaþólsku kirkjunnar þann 27. apríl árið 2014. Jóhannes var tekinn í helgra manna tölu á sama tíma og eftirmaður hans, Jóhannes Páll 2., og var þessu tekið sem tilraun til að sætta ólík sjónarmið þeirra þar sem Jóhannes var talinn til framfarasinnaðari páfa í nútímasögu kirkjunnar en Jóhannes Páll til hinna íhaldssamari.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Kirkjuþing í Róm“. Tíminn. 16. október 1962. bls. 2; 13.
  2. Jósef J. Hacking (4. nóvember 1962). „Jóhannes páfi“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 2.
  3. „Páfaskiptin“. Kirkjuritið. 1. nóvember 1958. bls. 394-396.
  4. 4,0 4,1 „Páfi kallar saman kirkjuþing til að sameina kristnar kirkjur“. Morgunblaðið. 17. febrúar 1959. bls. 11.
  5. „Bóndasonurinn sem varð ástsælasti páfi síðari tíma“. Morgunblaðið. 5. júní 1963. bls. 11; 13.
  6. „Jóhannes páfi bíður dauðans“. Vísir. 5. febrúar 1963. bls. 7.
  7. Gunnar Árnason (8. september 1963). „Syrgður kirkjuhöfðingi“. Kirkjuritið. bls. 271-273.
  8. Robert Neville (20. október 1963). „Í fótspor forvera síns“. Morgunblaðið. bls. 1-2.
  9. „Páfar verða dýrlingar“. RÚV. 30. september 2013. Sótt 9. september 2019.


Fyrirrennari:
Píus 12.
Páfi
(28. október 19583. júní 1963)
Eftirmaður:
Páll 6.