Fara í innihald

Páfasundrungin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Myndlýsing úr handriti sem lýsir páfasundrunginni.

Páfasundrungin er heiti á klofningi sem varð á 14. öld innan kaþólsku kirkjunnar út af lögmæti páfa. Klofningurinn stóð frá 1378 til 1417, en á þeim tíma voru fleiri en einn páfi sem gerðu tilkall til embættis höfuðs kirkjunnar og ríktu frá Róm, Avignon og Písa. Sundrungina má rekja til þess þegar Gregoríus 11. flutti páfastól aftur til Rómar frá Avignon árið 1377. Þegar hann lést árið eftir krafðist múgur í borginni þess að Rómverji yrði kjörinn nýr páfi. Kardinálarnir kusu því í flýti Úrbanus 6. og flúðu svo borgina. Nokkrir þeirra komu saman í Avignon næsta ár og kusu þar Klemens 7. Stuðningsmenn beggja páfa sökuðu hina um villutrú.

Tilraun var gerð til að leysa deilurnar á kirkjuþinginu í Písa 1409. Þingið lýsti því yfir að báðir páfarnir þáverandi, Gregoríus 12. í Róm og Benedikt 13. í Avignon, væru ólögmætir og kaus þann þriðja, Alexander 5.. Eftir þingið í Písa voru því þrír páfar samhliða. Eftirmaður Alexanders í Písa, Jóhannes 23., kallaði saman kirkjuþingið í Konstanz 1415 þar sem bæði hann og Gregoríus féllust á afsögn. Þingið kaus síðan Martein 5. sem einn páfa árið 1417. Þetta var í síðasta sinn sem páfakjör fór fram utan Rómar. Kirkjuþingið batt enda á páfasundrungina í reynd. Þótt Benedikt neitaði að segja af sér var hann bannfærður og flúði til Aragóníu þar sem hann naut verndar Alfons 5. til dauðadags árið 1423.

Kirkjan leit lengst af svo á að ákvarðanir kirkjuþingsins í Písa stæðu, þannig að páfarnir Alexander 5. og Jóhannes 23. væru lögmætir páfar og að valdatíð Gregoríusar 12. hefði lokið ýmist 1409 eða 1415. Allir Avignon-páfarnir frá þeim tíma voru álitnir mótpáfar. Þetta breyttist árið 1958 þegar Angelo Giuseppe Roncalli ákvað að taka upp heitið Jóhannes 23. Eftir það voru Alexander 5. og Jóhannes 23. líka flokkaðir sem mótpáfar og valdatíð Gregoríusar 12. talin til 1415.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.