Anfield
Anfield | |
---|---|
Anfield Road | |
Staðsetning | Liverpool, England |
Byggður | 1884 |
Opnaður | 28. september 1884 |
Eigandi | Liverpool F.C. |
Yfirborð | Gras |
Notendur | |
Everton (1884-1892) Liverpool F.C. (1892-nú) | |
Hámarksfjöldi | |
Sæti | 60.725 |
Stæði | 0 |
Stærð | |
101m x 68m |
Anfield er heimavöllur enska knattspyrnuliðsins Liverpool. Völlurinn tekur rúmlega 61 þúsund manns í sæti. Liverpool hefur verið með afnot af Anfield síðan 1892 þegar félagið var stofnað. Áður var völlurinn heimavöllur Everton 1884-1892 áður en þeir fluttu til Goodison Park.
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Völlurinn Anfield er í hverfinu Anfield um 2 km (loftlínu) norðan við miðborg Liverpool og strax norður af hverfinu Everton. Reyndar er það svo að Goodison Park, heimavöllur knattspyrnuliðsins Everton, er staðsettur í hverfinu Walton við hlið Anfield og er aðeins rúmur hálfur kílómetri á milli vallanna.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Everton
[breyta | breyta frumkóða]Graslendið á Anfield var í eigu John Orrells sem leigði það til John Houldings, meðstjórnanda knattspyrnufélagsins Everton. Everton hafði fram að þessu leikið á Priory Road. Búinn var til leikvöllur og var Anfield formlega tekið í notkun 1884. Fyrsti leikurinn fór fram 28. september það ár milli Everton og Earlestown, sem þeir fyrrnefndu sigruðu 5-0. Á fyrsta árinu var stúka fyrir 8 þús manns reist, þó að völlurinn sem slíkur rúmaði þá 20 þús manns standandi. Völlurinn þótti það góður á þeim tíma að þar voru haldnir landsleikir. Sá fyrsti fór fram 1889 milli Englands og Írlands. Fyrsti deildarleikurinn á Anfield fór fram 8. september 1888 milli Everton og Accrington. 1892 ákvað Everton að kaupa lóðina sem völlurinn var á. Ekki tókst betur en svo að misklíð kom upp milli Houldings og stjórnar Evertons. Hún endaði þannig að Everton flutti úr Anfield og byggði upp aðstöðu í Goodison Park.
Liverpool F.C.
[breyta | breyta frumkóða]Eftir brotthvarf Everton ákvað Houlding að stofna nýtt knattspyrnufélag og leika áfram á Anfield. Félagið hlaut heitið Liverpool F.C. and Athletic Grounds Ltd., sem síðar var stytt í Liverpool F.C. Fyrsti leikur nýja liðsins á Anfield var vináttuleikur við Rotherham Town 1. september 1892, sem Liverpool vann 7-1. Fyrsti deildarleikurinn á Anfield fór fram 9. september 1893 við Lincoln City sem Liverpool vann einnig 4-0. Tveimur árum síðar var stúka fyrir 3 þús manns reist þar sem í dag er stúkan Main Stand. Næsta stúka var ekki reist fyrr en 1903 og sú þriðja 1906. Sú hlaut heitið Spion Kop. Fjórða stúkan var reist skömmu síðar. Engar frekari breytingar voru gerðar á vellinum til 1928 þegar Spion Kop var endurbyggð og stækkuð. Eftir það rúmuðust þar 30 þús manns standandi. 1952 var sett áhorfendamet á Anfield er 61.905 manns sóttu leik Liverpool á móti Wolves í bikarkeppninni. Flóðljós voru ekki sett á völlinn fyrr en 1957 og voru í fyrsta sinn tendruð 30. október í leik gegn Everton. Mesta breytingin á vellinum fór fram 1973 er Main Stand stúkan var rifin niður og endurgerð. Flóðljósin voru endurnýjuð. Stúkan á Anfield Road var svo breytt 1982 þannig að sæti komu í stað standpláss. Á sama ári voru göng opnuð undir leikvanginn og kölluð Shankly Gates til heiðurs Bill Shankly fyrrum framkvæmdastjóra liðsins. 1994 var öllum standstæðum sem eftir voru á Anfield breytt í sæti. Ýmsar endurbætur á stúkum voru gerðar eftir þetta, þannig að nú eru tvær stúkanna tvílyftar, en aðrar tvær einlyftar.
Stúkur
[breyta | breyta frumkóða]Allt í allt tekur Anfield 60.725 manns í sæti. Vellinum er skipt niður í fjórar stúkur.
Main Stand
[breyta | breyta frumkóða]Main Stand er önnur langhliðin á vellinum og er elsta stúkan á Anfield. Hún var upphaflega reist 1895 og rúmaði 3000 manns. Þar voru þó eingöngu standstæði og héldust þau við í langan tíma. Þau síðustu hurfu ekki fyrr en á níunda áratugnum er stúkunni var breytt í sæti. Hún var þó áfram einlyft. Í stúkunni er einnig aðstaða fyrir fjölmiðla, sérstaklega sjónvarp, sem og einkaklefar fyrir stjórn liðsins. Undir stúkunni eru búningsklefar leikmanna og skrifstofur félagsins. Fyrir framan stúkuna eru varamannabekkirnir.
Centenary Stand
[breyta | breyta frumkóða]Centenary Stand er hin langhliðin á leikvanginum. Hún hét áður Kemlyn Road Stand eftir götunni fyrir utan og var upphaflega einlyft. 1992 fóru fram miklar breytingar á stúkunni. Öll standstæðin hurfu og í stað komu sæti. Auk þess varð hún tvílyft. Stúkan rúmaði þá 11 þús manns í sæti. Þá var lúxusklefum bætt við. Stúkan var formlega opnuð 1. september af Lennart Johansson forseta UEFA og hlaut hún nafnið Centenary Stand (Aldarstúkan), sökum þess að Liverpool átti aldarafmæli sem knattspyrnufélag á þessu ári.
Spion Kop
[breyta | breyta frumkóða]Spion Kop er einnig kölluð Kop Stand. Hún var upphaflega reist 1906 og nefnd Spion Kop eftir hæð í Suður-Afríku sem kom við sögu í seinna Búastríðinu. 1928 var stúkan endurbyggð frá grunni og rúmaði þá 30 þús manns í stæði. Þau voru ekki tekin út fyrir sæti fyrr en 1994, en eftir það rúma hún ekki nema 12.390 manns. Stúkan er einlyft og er fyrir aftan marklínu. Í henni eru dyggustu áhangendur Liverpool og að sama skapi þeir háværustu. Undir stúkunni er minjagripaverslun og sögusafn félagsins ásamt bikurum.
Anfield Road
[breyta | breyta frumkóða]Anfield Road stúkan snýr að samnefndri götu við norðvestur stutthliðina. Hún var upphaflega reist 1903 og var þá einlyft. Stúkan var endurbyggð 1965 og varð tvílyft 1998. Í stúkunni eru venjulega áhangendur gestaliðsins.
Anfield Road stækkaði 2023-2024 og bættust 7000 sæti við sem færði völlinn í nær 61.000 sæti.
Til minnis
[breyta | breyta frumkóða]Bill Shankly
[breyta | breyta frumkóða]Göng undir Anfield Road stúkunni kallast Shanklygöngin, eftir þjálfara Liverpool 1959-74, sem gerði góða hluti með félagið. Í göngunum er skoskur fáni (Shankly var Skoti), skoskur þistill og merki Liverpool. Við innganginn er skilti með orðunum: ‚You‘ll Never Walk Alone.‘ Setningin er komin úr vinsælu lagi með hljómsveitinni Gerry & The Pacemakers sem aðdáendur Liverpool höfðu tekið upp sem félagssöng sinn. Í göngunum setti Shankly upp skilti með livrarfuglinum og áletruninni: This is Anfield. Ástæðan fyrir því var sú að hann vildi að gestaliðið, sem þurfti að ganga um göngin, myndi óttast að koma á leikvanginn. Að sama skapi var skiltið happamerki fyrir leikmenn Liverpool. Bronsstytta af Bill Shankly var sett upp 4. desember 1997 við gestamiðstöðina fyrir framan Spion Kop stúkuna. Á styttunni eru orðin: Bill Shankly – He Made The People Happy (Bill Shankly – Hann gerði fólkið ánægt).
Bob Paisley
[breyta | breyta frumkóða]Önnur göng eru undir Spion Kop stúkunni og kallast Paisley Gateway eftir Bob Paisley, hinum árangursríka þjálfara liðsins á áttunda og níunda áratugnum. Í göngunum eru þrír Evrópubikarar sem liðið vann undur hans stjórn. Þar er einnig platti heimabæjar hans Hetton-le-Hole í Norðaustur-Englandi og Liverpool-merkið.
Hillsboro minnisvarði
[breyta | breyta frumkóða]Hillsborough-slysið átti sér stað 1989 í borginni Sheffield en í því létust 96 áhangendur Liverpool í bikarleik Liverpool og Nottingham Forest. Eftir slysið var minnismerki um það sett upp við Shankly-göngin. Þar er tafla með nöfnum þeirra sem létust í slysinu og eilífur logi til minningar um þá, að þeir verða ekki gleymdir.
Fánastöngin
[breyta | breyta frumkóða]1928 var toppmastur af skipinu SS Great Eastern sett upp fyrir utan Spion Kop stúkuna. Verið var að rífa skipið, sem var fyrsta stálskip Englands, í sundur í þurrkví í Birkenhead við Mersey (gegnt Liverpool) þegar toppmastrið var keypt af knattspyrnufélaginu Liverpool. Það hafði verið á höttunum eftir góða fánastöng. Mastrið var því tekið og flutt upp til Anfield. Þar var það sett niður fyrir utan stúkuna og hefur fengið að vera þar í friði allar götur síðan. Mastrið þjónar enn í dag sem fánastöng knattspyrnufélagsins.
Önnur notkun
[breyta | breyta frumkóða]Á Anfield fara stöku sinnum fram landsleikir í knattspyrnu. Völlurinn var t.d. notaður í EM 1996. Síðasti landsleikurinn á Anfield fór fram 1. maí 2006, en í honum sigraði England Úrúgvæ 2-1. Nokkrar aðrar íþróttir hafa farið fram á Anfield. Á þriðja áratugnum var leikvangurinn endastöð fyrir Maraþonhlaupið í Liverpool. Á millistríðsárunum voru hnefaleikar gjarnan leiknir þar og 1958 tróðu Harlem Globetrotters upp á vellinum. 1991 fór fram úrslitaleikur í HM félagsliða í rúgbý á vellinum, en þar áttust við Penrith Panthers frá Ástralíu og Wigan Warriors frá Englandi. Áhorfendur voru 20 þús. Til stendur að nota Anfield á HM í rúgbý árið 2015. Anfield hefur einnig verið notað fyrir sjónvarpspredikara og fyrir tónleika. 1984 predikaði t.d. Billy Graham á vellinum fyrir framan 30 þús manns nokkur kvöld í röð. Ýmsar hljómsveitir hafa troðið upp á Anfield. 2008 var bítillinn Paul McCartney mættur í tengslum við það að Liverpool var á því ári menningarhöfuðborg Evrópu.