Fara í innihald

Aleksandra Kollontaj

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aleksandra Kollontaj
Алекса́ндра Коллонта́й
Aleksandra Kollontaj í kringum 1900.
Fædd31. mars 1872
Dáin9. mars 1952 (79 ára)
ÞjóðerniRússnesk
StörfByltingarmaður, rithöfundur, erindreki
FlokkurBolsévikar
Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna
MakiVladímír Lúdvígovítsj Kollontaj
Pavel Dybenko
BörnMikhaíl Kollontaj
Undirskrift

Aleksandra Míkhaílovna Kollontaj (fædd Aleksandra Domontovítsj; 31. mars 1872 – 9. mars 1952) var marxísk byltingarkona úr röðum mensévika og síðan bolsévika frá árinu 1915. Á árunum 1917–1918 var Kollontaj þjóðfulltrúi heilbrigðismála í ríkisstjórn bolsévika eftir rússnesku byltinguna. Hún var fyrsta kona í heimi sem hlaut ráðherrastöðu í ríkisstjórn lands.[1] Árið 1922 varð Kollontaj meðlimur í sendinefnd Sovétríkjanna til Noregs og varð brátt formaður hennar. Hún var ein fyrsta kona í heimi sem fór fyrir slíkri nefnd.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Aleksandra Kollontaj fæddist árið 1872 og var dóttir hershöfðingja í rússneska hernum. Faðir hennar ákvað að hún skyldi ekki hljóta æðri menntun þar sem hann óttaðist að hún kynni að smitast af byltingarstefnu og af þýsku Weltschmerz-kenningunni.[2]

Árið 1896 uppgötvaði rússneska lögreglan að Aleksandra hefði verið viðriðin verkfall vefnaðarverkamanna í Sankti Pétursborg. Málið varð mjög viðkvæmt fyrir föður hennar, sem sá til þess að dóttir hans flytti með leynd burt frá Rússlandi. Í útlegð sinni frá Rússlandi kynntist Aleksandra hópum rússneskra byltingarsinna í Genf, París og London, þar á meðal Georgíj Plekhanov og Vladímír Lenín. Aleksandra gekk í rússneska sósíaldemókrataflokkinn og var í fyrstu hlutlaus þegar flokkurinn klofnaði í bolsévika og mensévika. Hún tók síðar afstöðu með mensévikum.[2]

Alexandra varði næstu árum sínar víðs vegar um Evrópu og hlaut grunnþjálfun fyrir störf í utanríkismálum. Árið 1915 sagði Kollontaj skilið við mensévika og gekk í lið með bolsévikum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út var Kollontaj í hópi þeirra jafnaðarmanna sem höfnuðu alfarið nokkrum stuðningi við stríðið. Frá 1916 til 1917 átti hún sæti í ritstjórn dagblaðs rússneskra byltingarsinna, Novy Mir, sem kom út í New York.[2]

Byltingarferill[breyta | breyta frumkóða]

Eftir febrúarbyltinguna í Rússlandi árið 1917 sneri Kollontaj heim til Rússlands. Í byltingarástandinu þar varð Kollontaj ötull talsmaður bolsévismans og tók sæti í framkvæmdarnefnd Pétursborgarsovétsins. Í júní árið 1917 lét ríkisstjórn Aleksandrs Kerenskij handtaka Kollontaj og aðra byltingarsinna til að treysta sig í sessi en Kollontaj var látin laus eftir að Maksím Gorkíj greiddi tryggingargjald fyrir hana.[3] Eftir að bolsévikar komust til valda í októberbyltingunni var Kollontaj þann 7. nóvember ein fjórtán forystumanna bolsévika sem kjörnir voru í forsæti þjóðfulltrúaráðsins í Pétursborg.[2] Hún varð þjóðfulltrúi í félags- og heilsutengdum málefnum og var þar með í reynd fyrsti kvenráðherra sögunnar.[4]

Á byltingarárunum var Kollontaj leiðtogi kvenréttindahreyfinga í Rússlandi. Hún lýsti því yfir að brátt yrði tími hefðbundinna fjölskyldumynstra liðinn og tími frjálsra ásta myndi byrja. Hún stóð jafnframt fyrir ráðstefnu verkakvenna í Pétursborg sem leiddi til stofnunar kvennafylkingarinnar Zhenotdel innan kommúnistaflokksins. Fylkingunni var ætlað að skipuleggja starf kvenna og fá þær til að taka virkan þátt í uppbyggingu ríkisins og sjá til þess að réttindi kvenna og barna myndu ekki sitja á hakanum. Sum fyrirheit Kollontaj um frjálslegri hjónabands- og uppeldismenningu urðu að veruleika stuttu eftir byltinguna með löggjöf sem auðveldaði mjög hjónaskilnað og bætti réttindi mæðra og óskilgetinna barna.[3]

Þegar hún var 45 ára giftist Kollontaj herforingjanum Pavel Dybenko, fyrsta flotamálaráðherra rússnesku sovétstjórnarinnar. Kollontaj var mótfallin friðarsáttmálanum í Brest-Litovsk sem sovétstjórnin gerði við Þjóðverja árið 1918 og gagnrýndi Lenín fyrir að gera með honum „svívirðilegt og sviksamlegt samkomulag við hina þýsku heimsvaldssinna“. Kollontaj sagði upp sæti sínu í þjóðfulltrúaráðinu vegna andstöðu sinnar við samninginn og gagnrýndi byltingarstjórnina fyrir aukið skrifræði á næstu árum.[2]

Vegna ýmissa ágreiningsefna gekk hún árið 1920 í lið með „andstöðu verkamannanna“ sem gagnrýndu flokksforystuna. Verkamannaandstaðan krafðist meðal annars lýðræðislegar stjórnunar fólksins sjálfs og yfirráða verkalýðsins yfir framleiðslu landsins en gagnrýndi aukna miðstýringu og tækniveldishyggju flokksforystunnar.[3] Í ágreiningnum urðu Kollontaj og skoðanasystkini hennar undir og áhrif hennar rýrnuðu mjög. Kollontaj dró úr innanflokksstarfi sínu en ákvað þó að vinna áfram í þágu byltingarstjórnarinnar þrátt fyrir galla hennar.[2] Síðasta skiptið sem hún reyndi opinberlega að hafa áhrif á innanríkismál í Sovétríkjunum var árið 1925 til að andmæla breytingum á lögunum um fjölskyldumál og hjúskap frá árinu 1918. Hún áleit fyrirhugaðar breytingar, sem festu í sessi formlegan hjúskap og hertu á ákvæðum um framfærsluskyldu, illframkvæmanlegar og óréttlætanlegar. Hún lagði til að stofnaður yrði tryggingasjóður sem stæði undir greiðslum til barna og illra staddra mæðra en hugmyndir hennar hlutu ekki hljómgrunn.[3]

Kollontaj var eini meðlimur miðstjórnar bolsévikaflokksins frá dögum októberbyltingarinnar sem lifði af hreinsanirnar miklu eftir valdatöku Stalíns.[1] Eiginmaður hennar, Pavel Dybenko, var hins vegar meðal fórnarlamba hreinsananna en árið 1938 var hann handtekinn og tekinn af lífi vegna ásakana um að vera fylgismaður Trotskíj.[5]

Sendiherrastörf og síðari ár[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1923 varð Kollontaj sendifulltrúi Sovétmanna í Noregi. Hún var um stutt skeið sendiherra Sovétmanna í Mexíkó en var síðan færð aftur til Noregs. Frá árinu 1930 var Kollontaj sendiherra Sovétríkjanna í Svíþjóð. Sem sendiherra átti Kollontaj nokkurn þátt í að tryggja hlutleysi Svía í Vetrarstríði Sovétríkjanna við Finnland og í að semja um friðarsamninga við Juho Kusti Paasikivi, þáverandi sendifulltrúa Finna í Stokkhólmi.[2]

Kollontaj lét af sendiherrastörfum árið 1945 og flutti til Moskvu, þar sem hún vann sem ráðgjafi við utanríkisráðuneytið og stundaði ritstörf. Hún lést árið 1952 í Moskvu.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Örlög byltingarmanna: Leikrit Alexöndru Kollontaj á fjöllunum í Stokkhólmi“. Þjóðviljinn. 4. júlí 1979. bls. 8.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 „Sendiherra Rússa í Stokkhólmi – Alexandra Kollontay“. Alþýðublaðið. 18. mars 1944. bls. 5-6.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Soffía Guðmundsdóttir (1. apríl 1985). „Alexandra Kollontay: Sendiherra byltingarinnar“. Réttur. bls. 96-108.
  4. „Alexandra Kollontaj“. Þjóðviljinn. 16. mars 1980. bls. 14; 21.
  5. Vladimir Petrov (3. nóvember 1955). „Madame Kollontay undir rússneskri smásjá“. Morgunblaðið. bls. 22-23.