Fara í innihald

Aleksandr Kerenskíj

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Aleksandr Kerenskij)
Aleksandr Kerenskíj
Алекса́ндр Ке́ренский
Forsætisráðherra rússnesku bráðabirgðastjórnarinnar
Í embætti
21. júlí 1917 – 7. nóvember 1917
ForveriGeorgíj Lvov
EftirmaðurVladímír Lenín (sem formaður þjóðfulltrúaráðs)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur4. maí 1881
Símbírsk, rússneska keisaradæminu
Látinn11. júní 1970 (89 ára) New York, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurTrúdóvikar
MakiOlga Lvovna Baranvskaja (g. 1904, sk. 1939)
Lydia „Neil“ Tritton (g. 1939)
BörnOleg, Gleb
HáskóliRíkisháskólinn í Sankti Pétursborg
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift

Aleksandr Fjodorovítsj Kerenskíj (rússneska: Алекса́ндр Фёдорович Ке́ренский; 4. maí 1881[1] – 11. júní 1970) var rússneskur lögfræðingur sem gegndi lykilhlutverki í rússnesku byltingunni árið 1917. Eftir febrúarbyltinguna árið 1917 sem neyddi Nikulás 2. til að segja af sér myndaði hann rússneska bráðabirgðastjórn, fyrst sem dómsmálaráðherra, svo hermálaráðherra og loks forsætisráðherra. Kerenskíj var meðlimur í hófsamari væng Trúdóvikahópsins, sósíalískum byltingarflokk, og einnig varaformaður Pétursborgarsovétsins. Þann 7. nóvember var ríkisstjórn hans steypt af stóli af Bolsévikum undir stjórn Vladímírs Lenín í októberbyltingunni. Kerenskíj eyddi því sem eftir var ævinnar í útlegð í París og New York og vann lengi hjá Hoover-stofnuninni.

Aleksandr Kerenskíj fæddist í Símbírsk við Volgu þann 1. maí 1881. Faðir hans, Fjodor Kerenskíj, var kennari sem kenndi m. a. Vladímír Úljanov (Lenín). Kerenskíj- og Úljanovfjölskyldurnar voru kunnugar og vinveittar hver annarri. Árið 1899 gekk Kerenskíj í háskóla í Sankti Pétursborg og nam sagnfræði, heimspeki og síðan lögfræði. Hann fékk lögfræðigráðu árið 1904 og kvæntist Olgu Lvovnu Baranvskaju, dóttur rússnesks hershöfðingja, sama ár.[2] Eftir byltinguna árið 1905 vann Kerenskíj sem ráðgjafi fórnarlamba ofbeldisins í byltingarátökunum. Hann fékk brátt orð á sig fyrir að vinna oft sem verjandi ýmissa grunaðra byltingarsinna.[3]

Árið 1912 náði Kerenskíj kjöri á rússneska þingið sem þingmaður Trúdóvika, hófsams verkamannaflokks sem kenndi sig ekki við marxisma en var þó bendlaður við sósíalíska byltingarflokka. Flokkurinn var hluti af Frímúrarareglu sem beitti sér fyrir sameiningu lýðveldissinna sem vildu afnema keisaraembættið og vinna að lýðræðislegri endurnýjun Rússlands.[4]

Þann 28. maí 1914, eftir inngöngu Rússlands í fyrri heimsstyrjöldina, sendi Kerenskíj beiðni til öldungadeildarinnar um að koma lista af ráðleggingum sem fara þyrfti eftir til þess að vinna stríðið til keisarans. Þar á meðal ráðlagði Kerenskíj keisaranum að breyta innanríkisstefnu sinni, frelsa pólitíska fanga, gefa Finnlandi stjórnarskrá á ný, gefa Póllandi aukið sjálfstæði, gefa minnihlutahópum menningarlegt sjálfstæði, hætta mismunun á grundvelli trúarbragða og hætta að áreita lögleg stéttarfélög.[5]

Febrúarbyltingin

[breyta | breyta frumkóða]
Kerenskíj (til vinstri) flytur ræðu fyrir rússneska hermenn á austurvígstöðvunum árið 1917.

Kerenskíj var einn helsti leiðtogi febrúarbyltingar ársins 1917. Þegar Nikulás 2. sagði af sér varð Kerenskíj dómsmálaráðherra nýju bráðabirgðastjórnarinnar. Ríkisstjórnin var stokkuð upp þegar kom í ljós að hún ætlaði sér að halda stríðsrekstrinum áfram og Kerenskíj varð þar með stríðsmálaráðherra. Hann heimsótti austurvígstöðvarnar og flutti ræður til að stappa stálinu í hermennina. Þóttu ræðurnar tilkomumiklar en ekki svo mjög að þær hefðu nein varanleg áhrif. Þann 17. júní hleypti Kerenskíj af stað „Kerenskíj-áhlaupinu“ gegn suðurher Miðveldanna. Í fyrstu tókst áhlaupið vel upp en brátt var það stöðvað og rekið til baka af gagnárás Þjóðverja og Austurríkismanna. Mannfallið var hátt í Rússahernum og há tíðni liðhlaups, skemmdarverka og uppreisna sýndu greinilega að herinn vildi ekki lengur gera árás.

Herinn gagnrýndi Kerenskíj harðlega fyrir frjálslynd stefnumál sín, þ. á m. að gefa byltingarsinnuðum „hermannanefndum“ stjórn yfir hernum frekar en liðsforingjum og að afnema dauðarefsingar.

Þann 2. júli 1917 var ríkisstjórnin stokkuð upp á ný. Eftir að Kerenskíj tókst að bæla tímabundið niður uppgang Bolsévikanna með því að saka Lenín um að vera á málum hjá Þjóðverjum varð Kerenskíj forsætisráðherra. Eftir misheppnað valdarán íhaldsafla í ágúst varð hann einnig yfirmaður hersins. Þann 15. september lýsti Kerenskíj yfir stofnun lýðveldis í Rússlandi.

Helsta áskorun Kerenskíj var sú að Rússar voru dauðþreyttir eftir að hafa barist í fyrri heimsstyrjöldinni í þrjú ár. Stríðið var afar óvinsælt meðal lágstéttanna og sérstaklega meðal hermanna. Allir höfðu staðið í þeirri trú að samið yrði um vopnahlé þegar bráðabirgðastjórnin tæki við og töldu sig nú svikna. Á sama tíma lofuðu Vladímír Lenín og Bolsévikaflokkurinn „frið, landi og brauði“ undir stjórn kommúnista. Herinn var í upplausn vegna skorts á aga og liðhlaupar flykktust úr honum í milljónatali. Kerenskíj bætti ekki úr skák með því að einangra hægrisinnaða íhaldsmenn og sýna Bolsévikum nokkra linkind til að halda stuðningi vinstrimanna. Þegar hann handtók Lavr Kornílov í kjölfar valdaránstilraunar hans stóð Kerenskíj án bandamanna gegn Bolsévikum til hægri.

Októberbyltingin

[breyta | breyta frumkóða]
Kerenskíj í skrifstofu sinni.

Kerenskíj hafði úthlutað vopnum til verkamanna í Pétursborg eftir valdaránstilraun Kornilov. Í nóvember voru þessir verkamenn flestir gengnir til liðs við Bolsévika. Dagana 6.–7. nóvember (25.–26. október á gregorísku tímatali) hleyptu Bolsévikar af stað nýrri byltingu. Í borginni studdi nánast enginn ríkisstjórn Kerenskíj. Aðeins ein herdeild, fyrsta kvennaherdeild Pétursborgar, barðist með ríkisstjórninni gegn Bolsévikum en var fljótt sigruð af mun stærri herafla byltingarmanna.[6] Það tók Bolsévika innan við 20 klukkustundir að ná tökum á ríkisstjórninni.

Kerenskíj komst undan og flúði til Pskov, þar sem hann safnaði liði og reyndi að leiða gagnárás til að endurheimta Pétursborg. Liðssveit hans tókst að hertaka Tsarskoje Selo en var sigruð næsta dag við Púlkovo. Kerenskíj tókst með naumindum að flýja og faldi sig næstu vikurnar áður en hann flúði land og kom loks til Frakklands. Í rússnesku borgarastyrjöldinni studdi hann hvoruga fylkinguna því hann var andsnúinn bæði Bolsévikum og hvítliðum.[7]

Kerenskíj settist að í París og heimsótti Bandaríkin stöku sinnum til að safna fjárheitum fyrir málstað sinn. Árið 1939 skildi Kerenskíj við konu sína og kvæntist ástralskri blaðakonu að nafni Lydiu „Neil“ Tritton.[8] Parið flutti til Bandaríkjanna þegar Þjóðverjar réðust inn í Frakkland árið 1940.

Eftir að Þjóðverjar gerðu innrás í Sovétríkin árið 1941 bauð Kerenskíj Jósef Stalín stuðning sinn, en lýsti þó yfir efasemdum um að Sovétmenn gætu unnið bug á innrásarliðinu.[9] Eftir dauða konu hans árið 1946 flutti Kerenskíj varanlega til Bandaríkjanna þar sem hann vann hjá Hoover-stofnuninni og Stanford-háskóla í Kaliforníu. Hann lést á heimili sínu í New York árið 1970 og var þá einn síðasti eftirlifandi þátttakandi í rússnesku byltingunni árið 1917.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Alexander Kerenski, First World War, sótt 23. júlí 2017
  2. A Doomed Democracy Geymt 11 mars 2007 í Wayback Machine Bernard Butcher, Stanford Magazine, janúar/febrúar 2001.
  3. Political Figures of Russia, 1917, Biographical Dictionary, Large Russian Encyclopedia, 1993, p. 143.
  4. „Prominent Russians: Aleksandr Kerensky“. Russia: RT. Sótt 23. apríl 2014.
  5. „Alexander Kerensky. The Democrat in charge of Russia“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2017. Sótt 23. júlí 2017.
  6. Women Soldiers in Russia's Great War, Great War, 23. júlí 2017
  7. „Kerenskij og Bandamenn“. Alþýðublaðið. 27. desember 1919. bls. 1.
  8. Tritton, Lydia Ellen (1899–1946) Biographical Entry – Australian Dictionary of Biography Online
  9. Soviet's Chances. Aleksandr Kerenskíj. Life, 14. júlí 1941, bls. 76.


Fyrirrennari:
Georgíj Lvov
Forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar Rússlands
(21. júlí 19177. nóvember 1917)
Eftirmaður:
Vladímír Lenín
(sem formaður þjóðfulltrúaráðs)